Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa komið hingað til þessa fundar. Þó að hann hafi ekki sagt mörg orð varpa þau gleggri mynd á það sem er að gerast en allar þær ræður sem hæstv. félmrh. hefur haldið um þessi efni. Sýnir ræða hæstv. fjmrh. ljóslega í hvaða vanda við erum stödd í húsnæðismálunum. Ég tek fullkomlega undir þau ummæli hæstv. fjmrh. að það verður verkefni næstu ára að finna viðvarandi grundvöll fyrir tekjuöflun til byggingarsjóðanna eins og eiginfjárstöðu þeirra er komið og eins og staðið hefur verið að fjáröflun til þeirra. Í því sambandi er þess skemmst að minnast að á sl. ári tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að skera fjáröflun til Byggingarsjóðs ríkisins niður um helming miðað við þá ákvörðun Alþingis í desember 1988 að ríflega einn milljarður kr., einn milljarður og 50 millj. kr., rynni til Byggingarsjóðs ríkisins. Þessi fjárhæð var skorin niður um 500 millj., um hálfan milljarð, á miðju ári, og það sem kannski vekur meiri athygli er að á þessu ári er einungis reiknað með því að 150 millj. kr. renni til Byggingarsjóðs ríkisins. Það er greinilegt af ummælum hæstv. fjmrh. nú að hann telur að þessi naumi skammtur, naumi fjármagnsskammtur sem hann treystir sér til að sjá af til Byggingarsjóðs ríkisins, er fullkomlega óviðunandi, fullkomlega ónógur, og sagði berum orðum í sinni ræðu að hæstv. félmrh. er að velta vandanum yfir til framtíðarinnar með því að sætta sig við þessa niðurstöðu og ætlast til þess að sú ríkisstjórn sem tekur við þegar þessi lýkur nösum, sem margt bendir til að verði fyrr en hæstv. forsrh. vill vera láta, sú ríkisstjórn verður að taka duglega á til að reyna að bæta þau skemmdarverk sem nú eru unnin á þessu kerfi.
    Ég saknaði þess einungis að hæstv. fjmrh. segði að í samanlagðri sögu húsnæðismála á Íslandi hefði enginn húsnæðisráðherra sýnt jafnauma frammistöðu og sá sem nú er í því embætti, að sætta sig við það að einungis 10% af því
fjármagni sem Alþingi ætlaðist til á sl. ári að rynni til sjóðanna skuli nú koma í hlut Byggingarsjóðs ríkisins. Og þegar ég segi 10% er það nú svo að ekki er tekið tillit til verðgildis krónunnar. Ef metið yrði verðgildi krónunnar í desember 1988 og verðgildi þeirra 150 millj. sem ríkisstjórnin nú treystir sér til að sjá af til Byggingarsjóðs ríkisins sjáum við að niðurskurðurinn er enn meiri. Það er ekki upp í nös á ketti þetta smáræði sem húsnæðisráðherrann sættir sig við að renni til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég sagði, hæstv. fjmrh., í ræðu á laugardaginn að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Stefán Ingólfsson sem vinnur hjá Fasteignamati ríkisins hefðu ekki sætt sig við jafnsmáan hundaskammt og þann sem við erum nú að tala um.
    Ég vék að því í ræðu minni á laugardag að miðað við það frv. sem hér er til umræðu og þær miklu vonir sem bundnar eru við félagslega kerfið og líka með hliðsjón af því að lífskjör hafa dregist mjög verulega saman hér á landi og að æ stærri hluti

þjóðarinnar býr nú við þurftartekjur, þá er auðvitað augljóst mál að ásóknin í félagslegar íbúðir verður miklu meiri en ella, líka vegna þess að hæstv. húsnæðisráðherra virðist hlakka yfir því að biðröðin í Byggingarsjóð ríkisins verði sem allra lengst þannig að allt víkur þarna að einum punkti. Það er greinilegt að ekki stendur vilji til þess í Alþfl. að reyna einu sinni að takast á við þau verkefni sem húsnæðismálin eru. Þetta er auðvitað mjög eftirtektarvert, ekki síst í ljósi þess að það hefur verið svo fram að þessu að Alþfl. hefur lagt á það höfuðáherslu við stjórnarmyndanir að fá húsnæðismálin í sínar hendur. Til þess að reyna að gera honum góð skil og til þess að reyna að skilja við byggingarsjóðina heldur sterkari að loknum starfsferli ríkisstjórnar en þegar Alþfl. kom að málinu. Nú er þetta breytt og nánast ógerningur að fá ráðherra í ríkisstjórninni til þess að ræða í alvöru og hreinskilni um þá miklu erfiðleika sem þarna blasa við og ætlað er að framtíðin fáist við að leysa.
    Ég hygg, hæstv. fjmrh., að það sé rétt hjá mér að hagsýslan hafi tekið byggingarsjóðina báða til sérstakrar athugunar og meðferðar þar sem augu fjmrn. hafi opnast fyrir því að þessum sjóðum hefur ekki verið sinnt sem skyldi og nauðsynlegt að aðrir menn komi að þessum sjóðum en þeir sem hafa haft þau verkefni samkvæmt stjórnskipan ríkisins. Þannig er nú þetta mál vaxið. Auðvitað er óhjákvæmilegt líka við meðferð málsins í Nd. að þessi mál séu brotin til mergjar og fyllstu upplýsingar liggi fyrir um það hvernig lessið stendur, svo vitnað sé til þess ágæta spils pikkís, sem er kannski skemmtilegasta tveggja manna spil sem þekkist og ég veit að við hæstv. fjmrh. kunnum báðir.
    Annað vakti athygli mína í ræðu hæstv. fjmrh. og hlýtur að verða mörgum mikið umhugsunarefni, ekki síst aðilum vinnumarkaðarins sem stóðu að því samkomulagi sem gert var í febrúarmánuði um að reyna að ná stöðugleika í þjóðfélaginu þó svo að við hefðum ríkisstjórn sem ekki hefur burði til þess að standa sæmilega vel að neinu því sem henni er til trúað. Aðilar vinnumarkaðarins náðu því samkomulagi að skyldi nú um sinn horfið frá því að reyna að sækja meiri kaupmátt. Þess í stað skyldu launþegar sætta sig við
lakari kaupmátt og versnandi á þessu ári en hinu síðasta. Þessir samningar eru þannig úr garði gerðir að ekki er búist við því að til nýrrar samningalotu þurfi að koma fyrr en eftir alþingiskosningar, ef þær verða í aprílmánuði á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur þess vegna meiri starfsfrið að þessu leyti en nokkur önnur ríkisstjórn hefur haft hér á landi þó maður fari marga áratugi aftur í tímann.
    Ég kannast ekki við að skýrt hafi verið frá því í fjh.- og viðskn. þegar aðilar vinnumarkaðarins komu til fundar við nefndina né í þeim drögum sem fyrir okkur hafa verið lögð, minnispunktum sem maður hefur séð frá þessum samningum, að aðilar vinnumarkaðarins hafi fallist á það að grundvelli tekjuskattslaganna yrði bylt með þeim hætti að horfið yrði frá því að skattþrepið væri eitt en þess í stað

tekin upp tvö skattþrep í tekjuskattinum. Nú veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. átti við það þegar hann var að tala um að í undirbúningi væri frv. til nýrra tekjuskattslaga sem miðuðu að aukinni tekjujöfnun. Það er auðvitað mjög fróðlegt að fá um það upplýsingar. Er ríkisstjórnin að undirbúa það að bylta því staðgreiðslukerfi sem við búum nú við, taka upp tvö skattþrep og með þeim hætti kippa undirstöðunum undan þeirri þjóðarsátt sem náðist í kjaramálunum í febrúarmánuði?
    Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er reiðubúinn að gefa nánari skýringar á þessum ummælum sínum. Vissulega gaf hann tilefni til þess að þetta atriði yrði gert að sérstöku umræðuefni og hann inntur eftir því hvað hann ætti við með orðunum ,,til aukinnar tekjujöfnunar`` í sömu svifum og hann er að lýsa þeim hugmyndum, að vísu mjög lauslega, sem liggja að baki því sem kallað hefur verið tillögur um húsaleigubætur og leigumiðlanir.
    Við erum að fjalla um frv. sem hefur í för með sér að hinn félagslegi þáttur íbúðabygginga verður mun meiri en áður. Jafnframt eru því settar mjög strangar skorður hvaða hópur þjóðfélagsþegna eigi kost á því að njóta þess sem kallað er félagslegar íbúðir. Þessi hópur nýtur verulegrar vaxtaniðurgreiðslu fram yfir þá sem hærri hafa tekjurnar. Ég tala nú ekki um þann hóp manna sem verður að leita til húsbréfakerfisins eða út á hinn frjálsa markað til þess að eignast þak yfir höfuðið af þeirri einföldu ástæðu að félagslegu íbúðirnar eru kannski ekki til reiðu eða viðkomandi fer lítillega yfir mörkin.
    Nú má auðvitað segja að þjóðfélagið eigi að verja vissum hluta af sínum tekjum til tekjujöfnunar. Við sjálfstæðismenn höfum jafnan verið þeirrar skoðunar. Við höfum bent á það frumkvæði og þá forustu sem Reykjavíkurborg hefur haft í byggingu verkamannabústaða og leiguíbúða. Ekkert bæjarfélag á landinu hefur komið meira við sögu hins félagslega íbúðarhúsnæðis, ef maður notar þau orð, enda, eins og ég sagði hér síðast, góður nauturinn að þar sem er hugmyndasmiðurinn að því sem við köllum velferðarþjóðfélag, hinn gamli Bismarck, Prússinn Bismarck.
    Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort hugmyndin sé sú að húsaleigubæturnar verði til langframa. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. hugsi sér að menn geti notið húsaleigubóta svo lengi sem viðkomandi býr í leiguhúsnæði. Það hlýtur að vera hugsunin á bak við slíka fjármagnstilfærslu. Vaknar þá aftur spurningin hvort viðkomandi eigi ekki líka kost á því að fá sérstakar vaxtabætur, ef hann kýs t.d. að breyta kaupleiguíbúð í eignaríbúð á einhverju stigi, og geti þá um langan tíma fengið veruleg framlög til þess að létta sér þann róður að eignast þak yfir höfuðið.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar eins og Margrét Thatcher að ríkisvaldið eigi að koma til móts við þá sem vilja eignast þak yfir höfuðið. Ég sé ekki eftir því og vil ganga lengra í þeim efnum en gert er í núgildandi lögum. Ég er sammála forsætisráðherra Bretlands um það að þjóðfélagið eigi að leggja mikið

á sig til þess að menn eignist sínar íbúðir. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hyggist breyta þeim ákvæðum skattalaga sem lúta að frádráttarbærni fjármagnskostnaðar eða niðurgreiðslu á fjármagnskostnaði þannig að tekið verði tillit til þess fjármagnskostnaðar sem þeir sem eru að eignast sitt íbúðarhúsnæði hafa við öflun húsnæðisins og hvort slík frádráttarbærni verði eftir öðrum reglum en nú eru. Við vitum allir að hún er mjög takmörkuð og ónóg. Um þetta vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. um leið og ég þakka honum fyrir hans svör.
    Ég tók eftir því að í fjmrn. eru uppi að sumu leyti aðrar hugmyndir en hæstv. félmrh. var hér að lýsa. Auðvitað er ekkert athugavert við það þótt fjmrn. reyni að vinna úr þeim hugmyndum sem nefnd félmrn. lagði fram. Vegna þess að við því má að búast að þær hafi ekki verið þrauthugsaðar. Þessi ummæli mín ber þó ekki að skilja þannig að ég sé fyrir fram sammála þeim hugmyndum sem í fjmrn. eru lagðar til grundvallar breyttum skattalögum en hlýt að endurtaka spurningu mína til hæstv. fjmrh., hvort hann hafi með orðum sínum hér áðan verið að boða frv. um breytt tekjuskattslög og þá í þeim skilningi að horfið verði frá því að tekjuskatturinn verði í einu þrepi eins og nú er og þrepum fjölgað þá e.t.v. í tvö eða þrjú. Ég ítreka að ég tel að með því sé komið í bakið á þeim sem stóðu að kjaramálasáttinni nú í febrúarmánuði.
    Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessa ræðu lengri. Við þingdeildarmenn höfum verið á fundum síðan kl. 8 í morgun og fundir hafa verið boðaðir kl. 8 í fyrramálið. Ég þykist því vita að hæstv. forseti sé mér sammála um að eðlilegt sé að ljúka fundi í kvöld eigi síðar en um 11. Ég ætla þess vegna að gefa hæstv. fjmrh. svigrúm til þess að svara fyrirspurn minni á þessum fundi.