Afgreiðsla þingmála
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það hafa mörg óvænt tíðindi gerst nú á síðustu missirum. Það er komið í ljós að þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið af einstökum ráðherrum hafa ekki staðist. Það er komið í ljós að það er miklu meiri upplausn í stjórnarliðinu en nokkur hafði vænst og höfðu menn þó ekki átt von á því að upplausnin væri lítil. Þetta hefur valdið því að ný viðhorf hafa skapast í þjóðmálum hér á landi sem ég tel að geti orðið örlagarík. Ég vil í þessu sambandi benda á í fyrsta lagi þá upplausn sem nú er í afstöðunni til frv. um fiskveiðistjórnun. Hæstv. sjútvrh. kaus að leggja það frv. fram sem stjfrv. þó svo það hafi verið samið af milliþinganefnd lögum samkvæmt. Það var búið að láta að því liggja við okkur þingmenn Sjálfstfl. fyrir tveim dögum að samkomulag væri að takast milli stjórnarflokkanna um lausn þess máls. Einstakir ráðherrar höfðu kallað saman nefndarmenn í sjútvn. Ed. upp í ráðherrabústað sl. laugardag. Það var látið svo heita að sá fundur hefði skilað árangri. Síðan voru málin rædd á þingflokksfundi í gær og þá kom í ljós að Alþfl. hefur allt aðra skoðun á þessum málum en hæstv. sjútvrh. og gerði raunar sérstaka þingflokkssamþykkt sem í grundvallaratriðum gengur gegn þeim sjónarmiðum sem hæstv. sjútvrh. hefur haft. Minnisblað frá Alþb. er sömuleiðis á öðrum nótum en frv. hæstv. sjútvrh. Mér er að vísu ekki kunnugt um hvort Borgfl. hafi sent frá sér minnispunkta í þessum efnum, en við vitum að afstaða Borgfl. til kvótakerfisins hefur verið skýr, að Borgfl. hefur verið á móti því. Fulltrúi hans í milliþinganefndinni skilaði séráliti og veittist gegn frv., sömuleiðis fulltrúi Stefáns Valgeirssonar í nefndinni, varaþingmaður hans.
    Í öðru lagi hefur það komið í ljós að sú breiða samstaða sem hæstv. iðnrh. lét í gær í veðri vaka að væri um orkufrv. liggur heldur ekki fyrir eins og fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. Það skilur á milli hæstv. menntmrh. og hæstv. iðnrh. í grundvallaratriðum. Af þeim sökum er auðvitað nauðsynlegt að það upplýsist nú þegar það frv. verður tekið fyrir sem ég geri ráð fyrir að verði 1. mál á dagskrá, er ekki svo? Ég geri ráð fyrir að það verði haldið áfram umræðum frá því í gærkvöldi ( Forseti: Jú, jú.) og það mál haldi áfram nú fyrst alla mála. Það kemur líka í ljós þar að mikill ágreiningur er innan ríkisstjórnarinnar og þetta mál í lausu lofti.
    Þingflokkur Sjálfstfl. telur nauðsynlegt í ljósi þessa að koma saman til að ræða hin nýju viðhorf og af þeim sökum fer ég fram á það, herra forseti, að gert verði hlé á fundi deildarinnar kl. 3.30 í dag þannig að okkur sjálfstæðismönnum gefist svigrúm til þess að ræða saman og fáum til þess eina klukkustund, ekki förum við fram á meira. Við hefðum að sjálfsögðu komið saman til fundar í morgun ef ekki hefði hist svo á að morguninn var ásetinn, nefndarfundir í báðum deildum, jafnvel í Sþ., þingmenn kallaðir inn í Vegagerð o.s.frv. þannig að ekki var svigrúm til þess að halda þennan fund utan venjulegs starfstíma

deildarinnar. Ég veit að hæstv. forseti skilur nauðsyn þessa og mun bregðast vel við og heimila að slíkt hlé verði gert á fundi deildarinnar en fer að sjálfsögðu ekki fram á það að hæstv. forseti svari þessu nú þegar heldur ráðfæri sig við forseta Nd. --- [Fundarhlé.]