Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það vekur athygli að frv. sem hér er til umræðu er í sérstökum hátíðabúningi. Það hefur verið kostað upp á sérstaka gráa kápu utan um það sem er auðvitað mjög óalgengt um frv. hér í deildinni og væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvort sá aukakostnaður sem þessu fylgir er tekinn af Alþingiskostnaði eða hvort Alþingi muni senda iðnrn. reikning fyrir þessum óþarfa lúxus, þessu óþarfa pjatti, sem lýsir sér í frágangi þessa frv. ( VS: Er þetta ekki bara endurunninn pappír?) Það er líka athyglisvert að frv. er upp á 68 bls. og hefur verið prentað upp vegna lítils háttar villu í grg. sem hefði auðvitað verið miklu einfaldara að leiðrétta með einfaldari hætti en hér er gert til þess að komast hjá þeim kostnaði sem því fylgir að endurprenta svo viðamikið þingskjal. Þetta er auðvitað smámál en mér finnst samt sem áður óhjákvæmilegt að vekja athygli á því.
    Ég hef beðið um að hæstv. forsrh. verði viðstaddur þessar umræður. Það er óhjákvæmilegt eftir þær yfirlýsingar sem hæstv. menntmrh. gaf hér í deildinni í gærkvöldi og eftir þær ræður sem hæstv. iðnrh. flutti, fyrst frumræðu hæstv. iðnrh. um þetta mál og síðar svarræðu hans, en í hvorugri þessari ræðu kom það fram sem hæstv. menntmrh. lýsti yfir og það er að ríkisstjórnin hefur ekki tekið afstöðu til veigamikilla atriða í sambandi við það mál sem hér liggur fyrir og sérstaklega þó í sambandi við grundvallaratriði í þeirri samningsgerð sem nú stendur fyrir dyrum við Atlantal-hópinn og hlýtur að vera forsenda þess að ráðist sé í virkjunarframkvæmdir.
    Það er auðvitað ekkert nýtt. Það var auðvitað kunnugt áður en hæstv. menntmrh. tók til máls að afstaða Alþb. til stóriðjumála er önnur og hefur verið önnur en hæstv. iðnrh. Ég hygg að mönnum sé það líka ljóst að Framsfl. hefur í þeim efnum borið kápuna á báðum öxlum. Ég fletti upp til þess að athuga hvort eitthvert svar fengist við þessari spurningu í stefnuræðu forsrh. hinn 23. okt. sl. en þar kom í ljós að engin afdráttarlaus yfirlýsing var gefin eins og hv. þm. Friðrik Sophusson vakti athygli á í umræðunum. Þá sagði hv. þm., með leyfi hæstv. forseta: ,,Heyrðuð þið forsrh. taka af skarið í stóriðjumálum? Lýsti hann yfir stuðningi við starf iðnrh. sem fylgt hefur fram stefnu forvera sinna gegn afturhaldssjónarmiðum Hjörleifs Guttormssonar? Nei, hann sagði aðeins að þann kost ætti að skoða ef viðunandi samningar nást.``
    Hæstv. iðnrh. sté í ræðustól Alþingis næstur á eftir hv. þm. og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú þurfum við að gera að því gangskör að breyta orku fallvatna og jarðvarma í atvinnu og tekjur. Við þurfum að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í nýtingu orkulinda til atvinnuuppbyggingar. Nærtækasti kosturinn er aukin álframleiðsla.
    Eins og fram hefur komið í máli forsrh. hér fyrr hefur iðnrn. að undanförnu undirbúið stækkun álversins í Straumsvík í samvinnu við nokkur erlend álfyrirtæki, svonefndan Atlantal-hóp. Þetta kom fram

í ræðu forsrh. þótt hv. 1. þm. Reykv. virðist hvorki hafa heyrt þetta né séð.
    Ég tel nú líkur á því að viðunandi samningar frá sjónarmiði Íslendinga geti náðst við þennan hóp. Eitt tonn af áli frá álbræðslu hér á landi skilar okkur álíka miklu í þjóðarbúið og eitt tonn af þorski upp úr sjó. Þegar málið er skoðað á þennan einfalda hátt sjá menn glöggt hversu mikilvæg viðbót við atvinnulífið stækkun álversins í Straumsvík getur orðið. Við þurfum þessa viðbót nú þegar, draga þarf úr þorskafla til þess að vernda þennan mikilvægasta nytjastofn á Íslandsmiðum.
    Ég vil tengja áformin um aukna álframleiðslu í Straumsvík við framtíðaruppbyggingu orkufreks iðnaðar og raforkukerfisins alls,,, segir hæstv. ráðherra og lýkur þessum kafla ræðu sinnar með því að lýsa því yfir að hann muni á næstunni leggja fyrir Alþingi till. til þál. þar sem fjallað yrði um þetta mál í stærra samhengi, þ.e. virkjunarframkvæmdir.
    Nú vitum við hvernig þessi mál enduðu. Alusuisse gekk úr Atlantalhópnum. Það fór ekki fram hjá neinum að fyrst eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við, haustið 1988, fram eftir vetri og fram á vor, sýndi hæstv. iðnrh. lítið frumkvæði í þessum málum, sýndi Atlantal-hópnum satt að segja lágmarksáhuga, og þær fregnir, óstaðfestar að vísu, bárust hingað til lands frá Svisslendingum að þeim þætti iðnrh. áhugalítill um málið. Nú skal ég ekki um það segja hvort þessi orðrómur er á rökum reistur en hitt liggur ljóst fyrir að Alþb. hafði aðrar skoðanir á þessu máli en Sjálfstfl. og í öðru lagi að hæstv. iðnrh. bar ekki gæfu til að ljúka því starfi sem forveri hans hafði hafið í samvinnu við þann Atlantal-hóp sem þá var, þó svo að sú mikla forvinna sem Friðrik Sophusson stjórnaði í iðnrn. hafi valdið því að auðveldara var að fá annað fyrirtæki til að hlaupa í skarðið.
    Ég skal ekki segja hæstv. iðnrh. það til lasts þó honum hafi gengið illa að reka alþýðubandalagstrippin í þessari ríkisstjórn. Við vitum auðvitað of vel að Alþb. hefur jafnan verið andvígt stóriðju á sömu forsendum og sjálfstæðismenn höfðu forustu um að móta á viðreisnarárum og gátu talið Alþfl. á. Þetta liggur auðvitað ljóst fyrir og þarf ekki að fara um það fleiri orðum.
    Ég vil í annan stað, herra forseti, vekja athygli á því að hinn 19. febr. sl. lögðu tíu þingmenn Sjálfstfl. fram beiðni um skýrslu frá iðnrh. um nýtt álver. Þetta þskj. hljóðar svo:
    ,,Með vísan til 30. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við undirritaðir alþingismenn eftir því að iðnrh. flytji Alþingi skýrslu um fyrirhugaða byggingu nýs álvers.
    Í skýrslunni verði m.a. eftirtöldum spurningum svarað:
    1. Hvenær er gert ráð fyrir að frv. um heimild til að semja við erlend álfyrirtæki um byggingu Atlantal-álversins verði lagt fram?
    2. Hvert verður meginefni frv.?
    3. Hefur ríkisstjórnin mótað afstöðu sína til

einstakra atriða málsins, svo sem eignarhalds, orkuverðs o.fl.?
    4. Hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um staðsetningu álversins?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á fundi sameinaðs Alþingis fljótlega eftir að henni hefur verið dreift meðal þingmanna.``
    Þessi beiðni um skýrslu var lögð fram hinn 19. febr. sl. Nú má vera að hæstv. iðnrh. reyni að hlaupa í það skjólið að hann hafi nú lagt fram frv. sem eigi að taka af allan vafa um þessi atriði en svo er ekki. Það liggur líka fyrir að í frumræðu hans hér í gær var ekki komið inn á þessi atriði. Það er augljóst ef borið er saman efnisinnihald frumræðu hæstv. ráðherra og þau efnisatriði sem fólust í ræðu hæstv. menntmrh. Þetta er því auðvitað ámælisvert. Úr því að hæstv. iðnrh. lét undir höfuð leggjast að svara skýrslunni eins og embættisskylda hans segir til um var auðvitað lágmark að ætlast til þess að hann svaraði þeirri spurningu m.a. hvort ríkisstjórnin hafi mótað afstöðu sína til einstakra atriða, svo sem eignarhalds, orkuverðs og fleira.
    Herra forseti. Nú er klukkan hálffjögur. Ég óska eftir því að gera hlé á ræðu minni vegna þingflokksfunda þar sem ég mun nú víkja að öðrum efnisatriðum í minni ræðu. --- [Fundarhlé.]