Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Halldór Blöndal (frh.) :
    Hæstv. forseti. Í viðtali við Birgi Árnason, fyrrum aðstoðarmann Jóns Sigurðssonar, hæstv. iðnrh. og viðskrh., kemur fram að hann telur að Alþfl. hafi lent í tröllahöndum í þeirri ríkisstjórn sem hann er í núna. Hann talar um að í ríkisstjórninni hafi ekki verið auðvelt að taka á ýmsum umbótamálum og víkur í þeim efnum sérstaklega að stóriðjumálum og segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,... í stóriðjumálunum væri á brattann að sækja. Þó að Alþýðubandalagið hefði að vísu ekki náð að stöðva framgang málsins væri það með fyrirvara á afgreiðslu þess ef því líkaði ekki niðurstaðan í öllum atriðum. Það sama mætti segja um Framsóknarflokkinn, þó að stuðningur við málið væri meiri þar.`` Svo mörg voru þau orð. Með þessum hætti vék fyrrv. aðstoðarmaður iðnrh., sem ég veit að hann bar mikið traust til, að stóriðjumálunum.
    Nú vil ég víkja að þeim atriðum sem hæstv. menntmrh. gerði að umræðuefni í gær og sagði um að væri óhjákvæmilegt fyrir einn þingmann Alþb. og ráðherra að taka fram í þessari umræðu. Það er óhjákvæmilegt að líta svo á að þau atriði sem hæstv. menntmrh. tilgreindi hafi verið sögð að yfirveguðu ráði til þess að minna á að umræðurnar um stóriðjuna væru ekki í því fari sem hæstv. iðnrh. hefur gefið í skyn og talaði hæstv. menntmrh. um að hann hefði verið að búa til leikrit í þeim efnum, fór sem sagt háðulegum orðum um málflutning hæstv. iðnrh.
    Þá er best að víkja að einstökum atriðum. --- Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. heyrir mál mitt? ( Forseti: Ég hef komið boðum til hæstv. forsrh. um að hv. þm. sé byrjaður ræðu sína.)
    Hæstv. menntmrh. segir, og vitnar í samþykkt þingflokks Alþb. frá 9. apríl sl., en í þeirri samþykkt undirstrikar þingflokkurinn að enn séu engar forsendur fyrir hendi til þess að unnt sé að meta hvort hagkvæmt sé fyrir Íslendinga að ganga til samninga við erlenda aðila um byggingu 200 þús. tonna álvers. Hæstv. menntmrh. tekur það skýrt fram og í sömu svifum undirstrikar hann að það sé til þess að veikja málstað Íslendinga en styrkja málstað viðræðuhópsins í Atlantsálshópnum ef nú yrði haldið áfram virkjunarframkvæmdum án þess að niðurstaða hafi fengist um það hvort álverið rísi hér á landi.
    Í öðru lagi tiltók hæstv. menntmrh. staðsetningu álversins. Í yfirlýsingum iðnrh. og í ummælum hans, ég hygg ég fari rétt með að það sé einnig í grg. án þess að ég muni það fullkomlega, er talað um að álverið geti risið á ýmsum stöðum, m.a. hér á Reykjavíkursvæðinu. En hæstv. menntmrh. tók af skarið um það að Alþb. mundi undir engum kringumstæðum fallast á að álverið rísi á suðvesturhorni landsins. Þá kvaðst hann hræddur um að félagsleg þjónusta mundi molna niður af því fólki sem byggi úti á landi og talaði um þenslusvæðið hér á Suðvesturlandi í því samhengi. Hann sagði að þetta væri mikilvægt atriði, lykilatriði.
    Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort um þetta sé samkomulag í ríkisstjórninni, að það sé óhugsandi að

álver rísi hér á suðvesturhorni landsins. Ég vil jafnframt spyrja hæstv. fjmrh., sem er formaður Alþb., hvort hann sé sammála þessum ummælum menntmrh., að Alþb. geri það að úrslitaatriði að álverksmiðja rísi ekki á suðvesturhorni landsins. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að þetta liggi fyrir.
    Í þriðja lagi sagði hæstv. menntmrh. að Alþb. hefði lagt á það áherslu að Íslendingar hefðu forræði fyrir álveri, hann sagði að það væri lykilatriði, algjört lykilatriði. Og hann minnti á að í samþykkt landsfundar Alþb. sl. haust hafi verið komist þannig að orði að Íslendingar þyrftu að eiga meiri hluta, verulegan eignarhluta, eða tryggja forræði sitt yfir viðkomandi fyrirtæki með öðrum sambærilegum hætti. Í ræðu sinni í gær sagði hæstv. iðnrh., ég tók svo eftir, að gert væri ráð fyrir því að Alumax mundi eiga 40% í væntanlegu álveri en hin fyrirtækin tvö um 30% hvort --- var það ekki rétt tekið eftir? Nú spyr ég formann Alþb. hvort hann sé sammála þeirri túlkun menntmrh. að það sé lykilatriði í álsamningum að Íslendingar eigi verulegan eignarhluta, meiri hluta, eða tryggi forræði sitt yfir viðkomandi fyrirtæki. Ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. hver skoðun hans sé á þessu máli og vil minna á að hæstv. menntmrh. tók fram í ræðu sinni að um þetta hefði ekki verið fjallað sérstaklega í ríkisstjórninni með þeim hætti að tekið væri af skarið í þessum efnum. Það er auðvitað nauðsynlegt að Alþingi fái fyllstu upplýsingar um þetta mál strax nú við 1. umr. málsins.
    Hæstv. menntmrh. fór háðulegum orðum um það raforkuverð sem samið var um við álverið á sínum tíma, þegar Búrfellsvirkjun var reist og álverið í Straumsvík, gætir að vísu ekki að því að einungis með orkuverðinu hefur álverið nú borgað allan kostnað, allan byggingarkostnað Búrfellsvirkjunar og rekstrarkostnað til dagsins í dag við línulagnir og annað þannig að við eigum Búrfellsvirkjun nú gratís, Íslendingar, af þeim sökum. Það sem við lögðum út hefur skilað sér. Þetta kallar hæstv. menntmrh. niðurlægjandi verð. Hann spurði að því hvort kostnaðarverð fengist fyrir raforku, hvort verðið mundi standa undir þeim
kostnaði sem fylgdi framkvæmdum við orkufyrirtæki vegna stóriðjuversins. ( EgJ: Er ekki gott að fá skoðun formanns Nýs vettvangs líka?) Hann er nú ekki til, hann er í felum.
    Í þessu samhengi vil ég minna á að eftir áramótin var til umræðu frv. um skattlagningu orkufyrirtækja. Ég man ekki betur en hæstv. iðnrh. hafi við þær umræður talað um það að eðlilegt væri e.t.v. að lengja afskriftartíma á raforkuverum. Nú spyr ég af þessu tilefni út frá hvaða forsendum iðnrh. hefur lagt þær viðræður sem ríkisstjórnin hefur staðið að í Atlantsálshópnum í sambandi við verðið á raforkunni. Ég vil jafnframt spyrja hæstv. iðnrh. hvort hæstv. menntmrh. hafi eitthvað fyrir sér í því að verðið sem Atlantsálshópurinn sé tilbúinn að bjóða sé mjög lágt og undir kostnaðarverði nauðsynlegra virkjana. Með öðrum orðum, hefur komið fram eitthvert tilboð frá Atlantsálshópnum í sambandi við raforkuverð og

hvernig er tilboðið? Er það óaðgengilegt fyrir Íslendinga? Eða gerir hann ráð fyrir því að slíkt tilboð, ef til er, komi til endurskoðunar? Út frá hvaða forsendum gengur hæstv. iðnrh. þegar hann leggur upp samningaviðræður um verð fyrir raforkuna? Ég geri ráð fyrir því að orkuskatturinn heyri sögunni til, en ef það frv. hefði verið samþykkt þá hefði ekki komið til neinnar frekari stóriðju hér á landi eins og við vitum.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. iðnrh. og jafnframt hæstv. forsrh. og formann Alþb., hæstv. fjmrh., þeirrar spurningar hvort þeir séu sammála menntmrh. um það að nauðsynlegt sé að álfyrirtækið lúti íslenskum dómstólum, það sé íslensk dómstólameðferð sem fyrirtækið verði að sæta en gerðardómar komi ekki til greina. Ég skildi orð hæstv. menntmrh. svo að það væri ein af þeim forsendum sem væri ófrávíkjanleg í huga þeirra alþýðubandalagsmanna.
    Nú er það vissulega svo, eins og við lásum í Morgunblaðinu í dag, að þegar formaður þingflokks Alþfl. var spurður hvernig á því hefði staðið að Alþfl. hefði gert sérstaka samþykkt um kvótamálið, um stjórn fiskveiða, og hann var spurður að því hvort þessi samþykkt hefði einhverja sérstaka merkingu í huga alþýðuflokksmanna, þá svaraði hann: Þetta er innlegg í umræðuna en alls ekki neinir úrslitakostir. --- Þetta er innlegg í umræðuna en alls ekki neinir úrslitakostir, sagði formaður þingflokks Alþfl. Og mér skilst að alþýðuflokksmenn muni núna nota næstu dægrin til þess að læra að kyngja, því þeir séu staðráðnir í að kyngja stóru yfirlýsingunni um fiskveiðistjórnina frá því í gær. Sú yfirlýsing þingflokksins var auðvitað kosningabrella til þess að geta skotið sér á bak við og auðvitað mun það koma í ljós að Alþfl. mun ganga til samstarfs við Halldór Ásgrímsson um frv. um stjórn fiskveiða. Það er auðvitað alveg ljóst og dettur engum í hug að Alþfl. hafi einhver prinsipp eða einhverja meiningu í þeim efnum.
    En um hitt er spurningin: Hefur Alþb. meiningu? Eða voru orð hæstv. menntmrh. bara innlegg í umræðuna en alls ekki neinir úrslitakostir? Meinti menntmrh. það ekki þegar hann sagði að verksmiðjan yrði að vera á forræði Íslendinga? Meinti menntmrh. það ekki þegar hann sagði að verksmiðjan yrði að vera utan Suðvesturlands? Og meinti menntmrh. það ekki þegar hann sagði að verksmiðjan yrði í öllum greinum að lúta forræði íslenskra dómstóla?