Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. lagði fram ýmsar spurningar og lagði þá út frá umræðu sem varð hér í gærkvöldi. Ég var því miður ekki viðstaddur hana og þekki því e.t.v. ekki nægilega vel til þó ég hafi leitast við að kynna mér það sem þar kom fram frá þeim ráðherrum sem þar eru til málsins taldir.
    Um það frv. sem hér liggur fyrir er full samstaða í ríkisstjórninni. Einn maður, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, hefur hins vegar lýst annarri skoðun og andstöðu við frv. eins og allir vita. Í þessu frv. er m.a. ákvæði til bráðabirgða sem segir að í þær framkvæmdir sem þar um ræðir skuli ekki ráðist án heimildar frá iðnrh. Kom það, að því er mér er tjáð, vel fram í framsöguræðu iðnrh. að það væri til þess að ekki yrði lagt í kostnað án þess að sæmilega ljóst væri að úr samningum yrði. Þessi mál eru því vitanlega samtengd. Ríkisstjórnin taldi mikilvægt að hafa aflað þessarar heimildar þannig að hugur Alþingis lægi fyrir í sambandi við þetta stóra mál, viðræðurnar við Atlantsálshópinn og byggingu stóriðju hér á landi.
    Í grg. með frv. kemur einnig fram að ríkisstjórnin leggur á það áherslu að bygging álvers verði í tengslum við viðleitni hennar til að stuðla að eðlilegri og skynsamlegri byggðaþróun í landinu. En síðan hefur hv. þm. spurt um afstöðu bæði mína til ýmissa forsendna fyrir byggingu stóriðju og afstöðu mína til ýmislegs þess sem kom fram í umræðum hér í gærkvöldi. Hv. þm. gerði í fyrsta lagi að umræðuefni að ég skilyrti stuðning minn við byggingu stóriðju með því að segja ,,enda náist viðunandi samningar.`` Ég vona að allir séu sammála því að við byggjum ekki stóriðju án þess að viðunandi samningar náist og þeir hafa ekki náðst enn. Þeir eru nú, við getum kannski sagt í burðarliðnum og of snemmt að taka afstöðu til þess hvort þeir eru viðunandi eða ekki. Hins vegar hefur aldrei farið á milli mála, hvorki stuðningur minn né Framsfl. við það að stóriðjufyrirtæki verði byggð hér, enda hafi viðunandi samningar náðst. Við teljum að efnahagsástand þjóðarinnar sé þannig að nú sé rétti tíminn til að ráðast í svo mikla framkvæmd. Í þessu litla þjóðfélagi verður vitanlega að gæta þess að stóriðjuframkvæmd, sú kostnaðarsama framkvæmd og þær virkjanir sem fylgja, leiði ekki til þenslu. Við teljum að með þeim tiltölulega og of litla hagvexti sem talinn er vera fram undan sé nú rétti tíminn að ráðast í svona framkvæmd.
    Hins vegar höfum við í ríkisstjórninni og milli stjórnarflokkanna að sjálfsögðu talað mjög ítarlega um allar þær forsendur sem þurfa að liggja fyrir. Ég ætla að leyfa mér að fara yfir þau atriði.
    1. Við höfum talað um að svona verksmiðja þurfi að hlíta íslenskum lögum. Ég held að allir séu sammála um að verksmiðjan verður að hlíta íslenskum lögum.
    2. Við höfum rætt um það að verksmiðjan þurfi að falla undir íslenska dómstóla. Hv. þm. spurði hvort

það væri skilyrðislaust að við værum mótfallnir því að gerðardómar kæmu til greina. Við Íslendingar erum aðilar að ýmsu samkomulagi um gerðardóma, m.a. um alþjóðlega gerðardóma í vissum tilfellum og þeir eru hluti af hinu íslenska dómkerfi, þar sem við höfum samþykkt aðild að
slíkum gerðardómum. Ég kannast ekki við að rætt hafi verið um sérstakan gerðardóm fyrir þessa verksmiðju heldur íslensk lög. Ég veit satt að segja ekki hvar sú umræða stendur. Mér fyndist koma til greina gerðardómar sem eru liður í okkar alþjóðlega samkomulagi og því liður í okkar dómkerfi.
    Einnig hefur verið mikið rætt um það að Íslendingar hafi það sem ég hef oft kallað virk áhrif á rekstur verksmiðjunnar. Þar má segja að nokkur mismunur hafi verið á áherslum manna í umræðum. Það er rétt að af hálfu Alþb. hefur komið fram áhersla á það að eignaraðild Íslendinga verði nokkur að þessari verksmiðju og þannig tryggð virkari aðild, að þeirra mati, en fengist án slíkrar beinnar aðildar. Ég hef persónulega talið að ná megi verulegum áhrifum á rekstur verksmiðjunnar í fyrsta lagi með þeim lögum sem eru sett, þeim reglum sem eru settar og svo með setu Íslendinga í stjórn verksmiðjunnar. Þetta eru atriði sem ég lít á að séu alls ekki leyst og eru ekki enn þá komin á það stig í samningaviðræðunum að unnt sé að taka endanlega afstöðu til þess sem liggur fyrir. En það liggur fyrir mjög skýr og eindreginn vilji allra stjórnarflokkanna að áhrif Íslendinga á rekstur verksmiðjunnar verði mikil. Íslendingar geti haft mikil áhrif. Ég vek hins vegar athygli á því að þarna er um alþjóðlega auðhringi að ræða, mundi hafa verið sagt, og fyrirtæki sem verslar um allan heim, sem tekur hráefni víða um heim, sem ráðstafar framleiðslunni víða um heim. Sem sagt, báðir endar, upphaf og endalok þessarar framleiðslu eru afar lítið á okkar valdi. En við viljum hafa veruleg áhrif á starfsemina hér heima og um það verður að sjálfsögðu vandlega rætt.
    Mengunarmálin eru einn þáttur sem allir stjórnarflokkarnir hafa lagt mjög mikla áherslu á. Eftir því sem ég veit næst leggja allir áherslu á það að ýtrustu mengunarkröfum verði fullnægt og ekki verði mismunað í þeim kröfum eftir staðsetningu. Vitanlega er það hárrétt að veður, vindar og ýmislegt kann
að vera eitthvað breytilegt frá einum stað til annars en kröfurnar eru þær að a.m.k. lokaáhrifin verði alls ekki meiri á einum stað en öðrum.
    Enn eitt atriði sem mikið hefur verið um rætt er staðsetning verksmiðjunnar. Ég vísaði til þess áðan að í greinargerð með frv. er yfirlýsing um vilja stjórnarflokkanna til þess að verksmiðjan verði þáttur í eðlilegri og skynsamlegri byggðaþróun. Ég hef ekkert farið leynt með þá skoðun mína að þessi verksmiðja eigi að vera staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. Alþb. hefur einnig látið í ljós þá skoðun að hún eigi að vera staðsett utan Suðvesturlandsins. Ég fellst hins vegar á það að við eigum ekki að gera það að skilyrði nú. Hv. þm. spyr hvort það sé af minni hálfu slíkt afgerandi skilyrði að

verksmiðjan verði alls ekki byggð, t.d. ef Atlantsálshópurinn er ófáanlegur til að byggja hana annars staðar en hér á Suðvesturlandi. Ég verð að segja það eins og er að þá verð ég að skoða það í samhengi við allt annað sem út úr samningunum næst. Og ég væri mjög tregur, ég teldi mjög vafasamt að samþykkja slíkt. Ég tel það afar óheppilegt af byggðaástæðum. Og ég tel að þéttbýlissvæðinu væri enginn greiði gerður með því að ákveða slíkt.
    Ég vek athygli á því að hv. þm. ásamt hv. ritara þessarar deildar flytja hér á hinu háa Alþingi tillögu um það að verksmiðjan skuli vera staðsett utan Suðvesturlandsins. Ég tel satt að segja ekki skynsamlegt að binda það í samþykkt Alþingis á þessu stigi og binda þannig hendur samningamanna. En ég fagna því að þessi stuðningur við þetta sjónarmið komi fram hjá hv. sjálfstæðismönnum. Eins og ég hef lýst er ég því sjónarmiði sammála. Og ég geri mér miklar vonir um það, eftir að iðnrh. hefur mjög stuðlað að því að aðrir staðir á landinu eru skoðaðir, að fyrri hugmyndir sem voru bundnar við Straumsvík verði þá fremur lagðar til hliðar. Það var út af fyrir sig eðlilegt að staðsetning væri bundin við Straumsvík áður þegar Svisslendingar voru í málinu, það skilja allir. En það hefur tekið nokkurn tíma að fá þá sem eru eftir til að skoða aðra staði. Þeir hafa þó heimsótt tvo af þeim og ég veit að þeir staðir báðir, og reyndar fleiri, eru í mjög alvarlegri skoðun núna í samvinnu við Atlantsálshópinn.
    Síðan er það raforkuverðið. Ég er vitanlega sammála hv. þm. að það sé mjög mikið atriði. Landsvirkjun hefur haft veg og vanda af því að meta raforkuverðið. Það er engin launung að það hefur komið fram visst mat Landsvirkjunar á því á hvaða verði unnt er eða rétt er að selja raforku til þessa nýja fyrirtækis. Ég tel satt að segja afar óheppilegt að vera að tala um það opinberlega, en ég viðurkenni að þar eru viss atriði sem eru nokkuð vandmeðfarin. Sú staðreynd liggur fyrir að ef enginn orkufrekur iðnaður verður hér nýr á næstu árum, þá verður Blanda mjög kostnaðarsöm virkjun. Það mun taka langan tíma að nýta Blöndu, fram á næstu öld. Það þekkja náttúrlega allir að að ráðast í slíka fjárfestingu sem Blöndu og nýta hana á svo löngum tíma er afar kostnaðarsamt. Þarna koma til nokkuð flóknir útreikningar, á hvaða verði er hagkvæmast að selja þessa orku frekar en láta hana ónotaða. Það blandast inn í þetta allt saman og þess vegna hefur verið talað um að orkuverð gæti af þeim ástæðum orðið lægra til að byrja með og hækkað síðan smám saman eftir því sem orkuverin nýtast betur. En ég endurtek að þetta eru margslungnir útreikningar sem við teljum að enn þurfi að skoða vel. Grundvallaratriðið er það að sala til stóriðjunnar má alls ekki verða til þess að orkuverð til almenns neytanda hér og íslensks iðnaðar verði hærra. Það er náttúrlega grundvallaratriðið. Vitanlega viljum við allir að það geti orðið til þess að það verði eitthvað lægra.
    Svo er enn eitt atriði og það eru skattamál slíks fyrirtækis. Við höfum líka rætt það mjög ítarlega milli stjórnarflokkanna og þar er sú meginstefna að

fyrirtækið hlíti íslenskum skattalögum. Ég skal viðurkenna að ég hef þar haft vissar efasemdir um suma þætti. Kannski er það arfleifð frá því að ég vann mikið í sambandi við Ísal og sannfærðist um að afar erfitt er að elta þessi alþjóðlegu fyrirtæki uppi með íslenskan tekjuskatt vegna þess að þau geta í raun og veru hagað afkomunni svo mikið að eigin vilja. Þau eru með hráefniskaupin á eigin hendi og markaðsmálin á eigin hendi. Ég hef verið hlynntari því að greitt sé framleiðslugjald eins og gert er í Straumsvík en ég set mig alls ekki á móti því að greiddur verði tekjuskattur eftir íslenskum lögum ef unnt er að sýna fram á að innheimtan sé sæmilega örugg.
    Ég hef farið held ég yfir þau atriði sem hvað mikilvægust eru í þessum samningum. Þau eru öll margslungin og þau tengjast öll. Það væri að mínu mati mjög rangt og lýsti fordómum ef menn væru fyrir fram að taka afgerandi afstöðu til eins án þess að skoða önnur. Ég held að menn þurfi að skoða þetta í heildina og skoða fyrst og fremst hver árangur næst og hvaða hag þjóðarbúið hefur af þessari framkvæmd þegar á heildina er litið.
    Nú er mér tjáð að ástæðan fyrir þessum spurningum sé að hæstv. menntmrh. hafi lýst samþykktum Alþb. Að sjálfsögðu hef ég ekkert við það að athuga. Mér finnst það afar eðlilegt. En ég hef skilið Alþb. jafnframt svo að það vilji einmitt skoða þessa heild og skoða þann þjóðarhag sem út úr þessu fæst en sé
ekki bundið í eitthvað ósveigjanlegt í þessu sambandi. En ég tek undir það, við skulum skoða þetta mál í heild.
    Ég vil nú eindregið mælast til þess að þetta mál fái framgang sem allra fyrst. Ef af samningum verður verða þeir lagðir fyrir hið háa Alþingi og þá getum við að sjálfsögðu rætt og munum ræða öll þessi mál. Ég tel það mjög mikilvægt fyrir framgang málsins að hér komi fram vilji til að veita þá heimild sem þetta frv. fer fram á.