Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns varpa fram einni spurningu til hæstv. forsrh. Hún er þessi: Á sínum tíma, þegar stjórn hæstv. forsrh. var mynduð haustið 1988, kom það fram að Alþb. taldi sig hafa neitunarvald í ákveðnum mikilsverðum málum, þar á meðal málum eins og því sem hér er verið að ræða um, þ.e. stóriðjumálum. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. forsrh. hvort Alþb. hafi enn þá neitunarvald í samræmi við nefndan skilning alþýðubandalagsmanna og túlkun á því á sínum tíma að þeir hefðu þetta vald í ríkisstjórninni.
    Þetta er sagt að gefnu tilefni. Eftir að hafa fyldst með ræðum bæði hæstv. menntmrh. og iðnrh. hér í gærkvöldi, þá fer það ekki á milli mála að Alþb. er alls ekki sammála því sjónarmiði sem kemur fram í ræðu hæstv. iðnrh. Því miður var hæstv. forsrh. ekki staddur hér í gærkvöldi, eins og fram kom í ræðu hans áðan, þannig að honum er ekki nægjanlega kunnugt um það sem hér fór fram né efni þeirra ræðna sem ég vísa til. Ég vil þess vegna segja hæstv. forsrh. það, til að spara honum tíma, að ræður ráðherranna stönguðust algerlega á.
    Iðnrh. flutti hér mikla ræðu um eflingu stóriðju á Íslandi í tengslum við fyrirhugaðar stórvirkjanir. Strax á eftir kom hæstv. menntmrh. og flutti ræðu þar sem hann dró úr því og beinlínis talaði gegn því að ráðist væri í slíkar stórvirkjanir vegna þess að hann taldi ekki enn þá leitt í ljós hvort hagkvæmt væri fyrir Íslendinga að ganga til samninga við erlenda aðila um byggingu 200 þús. tonna álvers hér á landi. Ég spyr nú hæstv. forsrh.: Hvaða heilvita aðilar erlendir mundu nokkurn tíma ganga til samningaviðræðna við eina þjóð eða fulltrúa ríkisstjórnar ef þeir gerðu ráð fyrir því að hægt væri að stöðva allar samningaviðræður á atriðum sem þessum? Það fer enginn alvörusamningamaður, enginn alvöruframkvæmdamaður erlendur eða stórfyrirtæki
að eyða tíma og fjármunum í að reyna að stofna til atvinnurekstrar hérlendis nema þær forsendur séu fyrir hendi sem hæstv. iðnrh. gat réttilega um hér í sinni ræðu í gærkvöldi. Ég hef því miður ekki nema eitt eintak af ræðu hæstv. iðnrh. en ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsrh. hafi verið að spyrja hann eitthvað um þessi atriði þegar hann var að hvíslast á við hann hér áðan. En spursmálið sem snýr að okkur hinum sem hlustuðum á þessar ræður hlýtur að vera þetta: Þegar hæstv. iðnrh. segir: Við skulum halda áfram og virkja og semja við erlenda aðila, þá kemur annar hæstv. ráðherra, menntmrh., og segir nei. Hvort er hér um að ræða neitunarvald Alþb., sem hlýtur að hafa áhrif á samningsstöðu Íslendinga og þar með stórveikja möguleika hæstv. iðnrh. til að ná þessu máli fram með hagkvæmum hætti fyrir Íslendinga, eða er verið að blekkja, er verið að sætta einhver sjónarmið þannig að þetta er kannski allt saman tóm markleysa?
    Ég vildi hins vegar leggja þá túlkun í það sem hér er á ferðinni að málið sé í upplausn. Þegar iðnrh. segir eitt, þá segir menntmrh. annað. Síðan kemur

hæstv. forsrh. með almennar skýringar og segist vera hlynntur þessu og hinu, en hann tekur ekki af skarið.
    Einnig sagði hæstv. forsrh. hér áðan, sem við hljótum auðvitað að vera sammála um sem viljum efla íslenska atvinnuvegi og íslensk atvinnutækifæri, eitthvað á þá leið: Hvað sagði hæstv. menntmrh. um þjóðhagslega hagkvæmni þessara virkjana- og stóriðjuframkvæmda? Ég skal lesa þann kafla upp úr ræðu hæstv. menntmrh. fyrir hæstv. forsrh. því að sá kafli í ræðu hæstv. menntmrh. --- sem hefur forðað sér úr salnum af því að hann gerði sér fullkomlega grein fyrir því hvert ég stefndi í ræðu minni. Hæstv. menntmrh. sagði m.a. eitthvað á þessa leið varðandi þjóðhagslega hagkvæmni þessa máls, með leyfi forseta:
    ,,Ég held líka að það sé algerlega ástæðulaust fyrir menn að vera að fá glýju í augun yfir þeim stórkostlegu tíðindum sem fyrirtæki af þessu tagi muni sjálfkrafa hafa í för með sér til bata fyrir íslenskt þjóðarbú. Þetta fyrirtæki mun ekki skila bata fyrir íslenskt þjóðarbú nema þessi 5--6 grundvallaratriði`` --- sem eru varðandi mengun, forréttindi Íslendinga til að eiga eignaraðild o.s.frv. --- ,,sem ég nefndi séu uppfyllt. En þó að menn, og það er athyglisvert, herra forseti,,, sagði hæstv. menntmrh. ,,þó að Þjóðhagsstofnun reikni til hins ýtrasta`` --- ég held að hæstv. forsrh. ætti að hlusta á þetta því þetta mun koma í fjölmiðlunum væntanlega, eitthvað af þessu sem við erum að fjalla hér um --- ,,hina miklu hagkvæmni af þessu fyrirtæki,,, --- og svo undirstrikar hæstv. menntmrh. þetta atriði --- ,,til hins ýtrasta, hvað kemst hún þá hátt? 1% í hagvexti á ári, 1%. Hvað halda menn að fyrirtækin, segjum á Suðurlandi, segjum á Austurlandi, segjum í Reykjavík, segjum á Vestfjörðum, hversu miklu halda menn að þau skili til þjóðarbúsins og gætu skilað í auknum mæli ef betur væri á málunum haldið?
    Það hlýtur að vera einkar athyglisvert fyrir menn sem koma t.d. úr sjávarútveginum, eins og hv. 14. þm. Reykv., sem hefur í rauninni skilað hagvexti ár eftir ár langt umfram það sem Þjóðhagsstofnun hefur spáð, að þegar Þjóðhagsstofnun getur ýtrast gengið til þess að sýna árangur af hugsanlegu álveri upp á 200 þús. tonn, þá kemst hún í 1% af þjóðarframleiðslunni.``
    Þetta eru orð og mat hæstv. menntmrh. á því atriði sem hæstv. forsrh. varpaði fram í ræðu sinni um þetta, hvernig menntmrh. metur þjóðhagslegt gildi þess sem hér um ræðir. Síðan segir hæstv. menntmrh., með leyfi forseta, með mikilli lítilsvirðingu fyrir okkur sem vorum hér í gær og hlustuðum á ræðu ráðherra, þá fór hér fram mjög skrautleg leiksýning, svo ekki sé meira sagt --- það vita það allir að hæstv. menntmrh. getur verið mjög litríkur ræðumaður --- þegar hann segir m.a. þetta: ,,Auðvitað geta menn svo sagt eins og hér var sagt áðan: 1% á einu ári eru 5% á fimm árum og margfalda þannig upp tölurnar og segja: Þetta gerir bara eina 20 milljarða á hálfum áratug og 40 á heilum. Staðreyndin er hins vegar sú,,, segir hæstv. menntmrh. enn fremur, ,,að þegar við nálgumst mál af

þessu tagi eigum við ekki að nota margföldunartöfluna til þess að fegra myndina umfram það sem nauðsynlegt er. Við eigum að horfa á veruleikann rétt eins og hann er og skoða þetta mál í raunverulegu, íslensku, efnahagslegu samhengi.``
    Það fer ekki á milli mála hver er skoðun ráðherrans á þessari framkvæmd og það fór ekki á milli mála til hvers hæstv. menntmrh. var að tala í gærkvöldi.
Hann beindi orðum sínum fyrst og fremst til hæstv. iðnrh. Þetta voru allt saman skeyti á samráðherra hans, hæstv. iðnrh. Jón Sigurðsson. Ég vildi þess vegna upplýsa hæstv. forsrh. um hvert var svar alþýðubandalagsmannsins Svavars Gestssonar, hæstv. menntmrh.
    En það er ekki viðunandi, hvorki fyrir okkur þingmenn né íslenska þjóð, að láta bjóða sér upp á það að hér komi ráðherrar og tali hver gegn öðrum í jafnþýðingarmiklu hagsmunamáli og þessu. Þetta varðar veigamikil atriði er geta ráðið úrslitum um að Íslendingum takist að ná samningum við erlenda aðila um byggingu stóriðjufyrirtækis, í þessu tilviki álvers.
    Við hljótum að mótmæla því að í ríkisstjórn á Íslandi skuli vera ráðherrar sem tala af jafnmiklu ábyrgðarleysi og þessir tveir menn gerðu í gær. Þá á ég við það að þeir skuli ekki geta verið samtaka í túlkun sinni um það hvað er þjóðhagslega hagkvæmt og æskilegt fyrir Íslendinga. Þrátt fyrir góðan vilja hæstv. iðnrh. til þess að leggja málið fyrir faglega, eins og kom fram í ræðu hans í gærkvöldi, þá var það mál allt saman meira og minna eyðilagt með ræðu hæstv. menntmrh. Ég segi því miður. Þetta getur stórlega skaðað samningsstöðu Íslendinga við erlenda aðila. Ég sé að hæstv. fjmrh., formaður Alþb., er hér staddur þannig að ég geri ráð fyrir því að hann geri sér grein fyrir hvað hæstv. menntmrh., flokksbróður hans, varð hrapallega á í messunni í gærkvöldi.
    Ég vek einnig athygli á því og held að það sé nauðsynlegt að hæstv. forsrh. viti það og heyri nú þegar, þannig að hann geti varað sig á því hvernig hann fjallar um þetta mál með tilliti til þess hvernig samráðherrar hans haga máli sínu og afstöðu. Það eitt er ekki nægilegt að hafa lesið eða hlustað á samþykkt þingflokks Alþb. í þessu máli þó að það eitt út af fyrir sig segi hverjum heilvita manni að ekki fylgir hugur máli hjá Alþb. í sambandi við stóriðjumál á Íslandi.
    Þótt hæstv. fjmrh. geri sér grein fyrir því að Ísland verði að taka þátt í stóriðju þá er það staðreynd að þau öfl í hans eigin flokki sem hafa ráðið ferðinni í gegnum árin og áratugina eru aftur að ná undirtökunum í Alþb. Sá flokkur hafnaði raunverulega, ég vil segja, þeirri opnun sem hæstv. fjmrh., núv. formaður Alþb., vildi gera í sambandi við framtíð Alþb. á Íslandi. Það er þess vegna ekki aðeins að staða Alþb. sé óviss heldur einnig staða þess manns sem var með, ég vil kalla, hina íslensku opnun fyrir sósíalista á Íslandi í farteskinu þegar hann hóf sína innreið í Alþb. Hann er einnig í mikilli hættu með sína pólitísku framtíð og þá tilraun sem hann var að

gera og vildi gera í þeim efnum að leiða sósíalista út úr þeim heljargreipum kommúnista eða kommúniskra viðhorfa sem Alþb. er því miður allt of lengi búið að vera í. En það er annað mál.
    Hins vegar fer ekki á milli mála að í samþykkt þingflokks Alþb. leynast og eru hin gömlu, sterku viðhorf Alþb. gegn stóriðju sem jafngilda því að vera á móti auknum virkjunum, enda fór það ekki á milli mála, og kom ítrekað fram í ræðu hæstv. menntmrh. hér í gær, að alþýðubandalagsmenn, alla vega samkvæmt hans túlkun, eru á móti því að hæstv. iðnrh. standi að samningum með þeim hætti sem hann hefur gert á undanförnum vikum og mánuðum. Til þess að undirstrika það vil ég aðeins segja þetta um samþykkt þingflokks Alþb. Í upphafi hennar segir orðrétt:
    ,,Þingflokkur Alþb. minnir á að enn eru engar forsendur fyrir hendi til að unnt sé að meta hvort hagkvæmt sé fyrir Íslendinga að ganga til samninga við erlenda aðila um byggingu 200 þúsund tonna álvers hér á landi.``
    Á mæltu máli þýðir þetta gagnvart erlendum aðilum sem kynnu að hafa viljað semja við Íslendinga: Það þýðir ekki að reyna að semja við ríkisstjórn sem er með flokk innan sinna vébanda sem tekur af skarið með þeim hætti sem hér er gert. Það gengur enginn til samninga við aðila sem segir: Nei, heyrðu, ég ætla ekki að semja við þig. Það er misskilningur. Ég er á móti því að semja við þig vegna þess að þú hefur ekki réttar forsendur til þess að standa í samningum. Það er það sem Alþb. er raunverulega að gera. Það er að eyðileggja þær
grundvallarforsendur sem Íslendingar verða að hafa til þess að geta náð samningum við erlenda aðila í þessu stórmáli. Þetta segir alveg skýlaust í upphafsmálsgreininni í samþykkt þingflokksins. Síðan segir:
    ,,Meðan meginatriði væntanlegra samninga liggja ekki fyrir er tvímælalaust óhyggilegt að hefja virkjunarframkvæmdir, enda hlyti það að veikja samningsstöðu Íslendinga að binda nokkur hundruð milljónir króna í nýjum virkjunarframkvæmdum án þess að orkuverð hafi verið ákveðið.``
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég sárvorkenndi hæstv. iðnrh. í gær, þeim manni sem á að standa í samningum fyrir okkar hönd á meðan hann gegnir þessu embætti, á meðan hæstv. núv. ríkisstjórn er við völd. Ég sárvorkenndi þessum manni að þurfa að standa að samningum á grundvelli þessara forsendna með jafnveikan stuðning, ég vil segja meira en veikan stuðning, þetta er andstaða. Það er verið að eyðileggja samningsstöðu hæstv. iðnrh. gagnvart erlendum aðilum. Hann fær ekki þau grundvallaratriði fram sem hann verður að hafa til að geta samið. Það vita hæstv. ráðherrar sem hér eru staddir að erlendir aðilar semja ekki við Ísland og Íslendinga nema þessi atriði séu fyrir hendi og séu í framkvæmd. Þess vegna er málið svo komið sem komið er og þess vegna verður að taka af skarið.
    Hér var höfðað til þess með óbeinum hætti, ef ég

skildi hæstv. forsrh. rétt áðan, að það væru nú kannski fleiri þingmenn hér sem hefðu áhuga fyrir framgangi þessa máls en svokallaðir stjórnarsinnar. Það kann að vera rétt. Auðvitað hljótum við, ábyrgir þingmenn, að taka afstöðu í þessu máli með þeim hætti að Íslendingar geti framkvæmt það sem máli skiptir fyrir okkar atvinnuuppbyggingu í framtíðinni. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hæstv. forsrh. er með flokk innan sinna vébanda sem hyggst beita neitunarvaldi. Takist það ekki þá hyggst hann hafa í frammi þær aðgerðir, þær athafnir sem veikja og skaða samningsstöðu okkar og það er mjög alvarlegt mál.
    Í ræðu hæstv. menntmrh. --- sem er nú kominn --- kom einnig fram að hann teldi að það þyrfti á grundvelli samþykktar þingflokks Alþb. að kanna betur en gert hefur verið hvernig Íslendingar geta sjálfir átt aðild að rekstri og tryggt forræði sitt og hagsmuni þannig að viðunandi sé. Í því sambandi vísaði hæstv. menntmrh. til þessa atriðis aftur í lok ræðu sinnar og sagði á þessa leið: ,,En hugmyndin um eignarhluta Íslendinga er enn á borðinu, bæði pólitískt af okkar hálfu og af hálfu ríkisstjórnarinnar í heild.``
    Nú vil ég, virðulegi forseti, óska eftir því við hæstv. forsrh. að hann skýri betur hvað hæstv. menntmrh. átti við þegar hann kom inn á þetta atriði. Hafa þær viðræður farið fram t.d. við hinn erlenda aðila sem helst kemur til greina um hugsanlegan eignarhlut Íslendinga í þessu fyrirtæki og þá með hvaða hætti? Er það t.d. hugsað þannig að Íslendingar eigi meiri hluta eins og menntmrh. krefst? Er það hugsað þannig að ríkið sem slíkt eigi þá þann meiri hluta í þessu fyrirtæki eða er hugsað að aðrir aðilar en ríkið komi þarna til skjalanna, þ.e. aðrir Íslendingar en þeir sem fara með völdin á hverjum tíma í ríkisstjórn og geta þá ráðið því hverjir sitja þar í stjórn og ráðið ráðum? Er það kannski hugsað þannig að það eigi að leita á íslenskan peningamarkað um það að Íslendingar komi þarna að sem hluthafar, einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir. Ég vildi gjarnan fá nánari skýringu á þessu hjá hæstv. forsrh. (Gripið fram í.) Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, ég held að það sé nú réttara að hæstv. forsrh. skýri þetta ef þetta er rætt í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og þar sem hann er mættur hér. Það er eðlilegra að hann skýri frá þessu. Ég geri ráð fyrir því að hann sé talsmaður þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég vil, virðulegi forseti, einnig víkja að því atriði í ræðu hæstv. menntmrh. að hann ítrekaði það að enn væru engar forsendur til þess að ganga til samninga. Ég vil þá spyrja hæstv. menntmrh. hvers vegna í ósköpunum hann hefur þá fallist á það innan ríkisstjórnarinnar að hæstv. iðnrh. skuli yfirleitt vera í því að reyna að ná samningum um byggingu álvers á Íslandi þar sem hann telur að engar forsendur séu fyrir því að standa í slíkum viðræðum, eða réttara sagt að þær forsendur sem eru grundvöllur þess að hægt sé að standa í slíkum viðræðum, þ.e. auknar virkjunarframkvæmdir skuli ekki koma til framkvæmda. Ég verð að segja eins og er, hæstv.

menntmrh., að þetta er afskaplega einkennilega að málum staðið svo að ekki sé meira sagt. Ég ætla ekki að víkja að þeim kafla í ræðu menntmrh. þar sem talað er um staðarval verksmiðjunnar.
    Það er annað atriði sem ég vil einnig koma inn á, virðulegi forseti, í ræðu hæstv. menntmrh. (Gripið fram í.) Ég sé, hæstv. forsrh., að þetta eru nefndarmenn í sjútvn. Ed. sem eru að pískra saman. Ég vil ekki spilla fyrir því að þeir geti leyst það vandamál sem við stöndum frammi fyrir samkvæmt frv. til laga um stjórn fiskveiða. (Gripið fram í.) Já, það er afar óþægilegt. Ég viðurkenni það, hæstv. forsrh. En ef hv. þm. Skúli Alexandersson og Halldór Blöndal eru að leysa þann hnút sem er í sambandi við frv. til laga um fiskveiðistjórnun skal ég náttúrlega fúslega þagna augnablik og lofa þeim að ljúka því. En það er þetta með lykilatriðið í ræðu hæstv. menntmrh. í
gærkvöldi. Það var mjög athyglisvert. Ég vil upplýsa hæstv. forsrh. um það þar sem hæstv. menntmrh. segir í ræðu sinni í gærkvöldi:
    ,,Í samþykkt þingflokks Alþb. hefur einnig verið á það bent að jafnframt þurfi að kanna betur en gert hefur verið hvernig Íslendingar gætu sjálfir átt aðild að rekstrinum og tryggt forræði sitt og hagsmuni þannig að viðunandi sé. Hér er um algert lykilatriði að ræða að okkar mati, algert lykilatriði. Við lögðum lengi á það megináherslu að við uppbyggingu fyrirtækja af þessu tagi þyrftu Íslendingar að eiga þar meiri hluta. Í samþykkt landsfundar Alþb. sl. haust var komist þannig að orði að Íslendingar þyrftu að eiga meiri hluta.``
    Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh., þar sem hæstv. iðnrh. er ekki hér staddur: Hefur verið rætt við hina erlendu aðila á þessum grundvelli varðandi eignarhlutdeild? Það væri mjög fróðlegt að fá það upplýst. Einhvern veginn gæti ég nú ímyndað mér að það sé ekki hugsun hinna erlendu aðila að Íslendingar hefðu forræði í þessu. En ef svo er ekki, hæstv. menntmrh., hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að fjármagna þennan eignarhlut, með hvaða hætti? Það væri fróðlegt að heyra það. Mér skilst að hér sé um að ræða framkvæmdir upp á milljarða. Það væri fróðlegt að vita hvað fyrirhugað álver kostar. Ég man það nú ekki svo nákvæmlega þótt það hafi verið til umræðu hér hvað 200 þúsund tonna álver kostaði. Það væri fróðlegt að vita um hversu marga milljarða króna er að ræða. Ef Íslendingar eiga að taka þátt í að fjármagna þetta og leggja fram umtalsvert hlutafé væri fróðlegt að vita hvernig ríkisstjórnin hyggst útvega þetta fé eða hvort það sé raunverulega svo sterkur hlutafjármarkaður á Íslandi að Íslendingar geti komið með þessi framlög og orðið virkir þátttakendur í þessu fyrirtæki. Það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, orðlengja þetta mikið meira. En ég vildi gjarnan fá svör við þessum spurningum. Síðan segir hæstv. menntmrh. og klykkir út með þessum orðum þegar hann er að svara hæstv. iðnrh. sem hann tók reglulega til bæna hér, alla vega

efnislega. Hann gerði það kurteislega en með efnislegum rökum. Sem alþýðubandalagsmaður tók hann alþýðuflokksmanninn Jón Sigurðsson, hæstv. iðnrh., rækilega til bæna hér í gærkvöldi því að lokum segir hæstv. menntmrh. á þessa leið:
    ,,En öll þessi atriði verða að vera skýr.`` Sem sagt, allt það sem hæstv. iðnrh. hefur sagt áður í löngu máli. En þetta mál var ekki nægilega skýrt né það sem hann kann að hafa sagt á fundum í ríkisstjórninni um þessi mál. Alla vega var það ekki skýrt í huga hæstv. menntmrh. því síðan segir hann:
    ,,Þess vegna hrekkur það auðvitað skammt að mála upp draumsýn framtíðarinnar af hinu mikla 200 þúsund tonna álveri ef menn hafa þetta ekki á hreinu.``
    Það þarf ekki að útskýra hvað felst í svona orðum úr munni hæstv. ráðherra. Það fer ekkert á milli mála að allt það sem hæstv. iðnrh. hefur verið að segja og gera á undanförnum vikum og mánuðum er bara draumsýn, eitthvað sem er ekki marktækt. Hæstv. menntmrh. er greinilega búinn að skipta um skoðun frá því í gærkvöldi. Nú er hann greinilega kominn niður á jörðina og farinn að eygja veruleikann. Nú er hann loksins farinn að átta sig á efnisinnihaldi ræðu hæstv. iðnrh. og líklegast búinn að undirgangast flest það sem hæstv. iðnrh. sagði í sinni ræðu. Hæstv. menntmrh. hlýtur þá að standa upp á eftir og taka undir ýmis atriði sem komu fram hjá iðnrh., m.a. þessi:
    ,,Ákvarðanir um þessar framkvæmdir og um að nýta þessar heimildir verða hins vegar teknar í einstökum atriðum eftir því sem samningum um álverið vindur fram og samþykki til þeirra eingöngu veitt sé raunveruleg samningagerð í sjónmáli. Ég mun nú víkja að undirbúningi og viðræðum um hið nýja álver sem er í reynd forsenda þeirra virkjunaráforma sem þetta frv. fjallar um.``
    Ef hæstv. menntmrh. getur fallist á þetta í ræðu iðnrh. þá var ræða hæstv. menntmrh. í gærkvöldi markleysa og sýning. (Gripið fram í.) Já, hún var góð, sagði hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Hún var góð sem sýning fyrir Alþb. Hún var góð sem sýning fyrir sjónvarpið, hún var góð sem sýning í 2--3 mínútur í sjónvarpinu til þess að blekkja og villa um fyrir alþýðubandalagsfólki sem enn þá kann að vera þeirrar skoðunar að ekki eigi að efna til og byggja upp álver á Íslandi. Ræða menntmrh. hentaði þannig, það er alveg rétt, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Í þeim skilningi var ræðan góð fyrir Alþb. En hún var vond fyrir hæstv. menntmrh. sem er búinn að undirgangast það sem hæstv. iðnrh. sagði í gærkvöldi.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið meira, virðulegi forseti. Ég vil þó vekja athygli á því atriði sem kom fram í ræðu iðnrh. í gærkvöldi sem er mjög þýðngarmikið fyrir alvöru málsins og þann raunveruleika sem við erum hér að fjalla um. Þar segir:
    ,,Með undirritun viljayfirlýsingar 13. mars sl. náðist mikilvægur áfangi í því þýðingarmikla stefnumáli ríkisstjórnarinnar að nýta innlendar orkulindir, vatnsorku og jarðvarma, til atvinnuuppbyggingar. Í

þessari viljayfirlýsingu kemur fram að í álverinu verði notuð nýjasta tækni við framleiðslu og steypu á áli og, sem ekki er síður mikilvægt, nýjustu fullkomnar mengunarvarnir. Bandaríska félagið Alumax mun eiga um 40% hlut í álverinu en sænska félagið
Grangers og hollenska félagið Hoogovens Aluminium um 30% hvort um sig.`` ( Fjmrh.: Þið verðið nú að vita hvaða fyrirtæki þetta er í Sjálfstfl. ) Það er von að hæstv. ráðherrar báðir tveir, fjmrh. og menntmrh.,
vilji draga athyglina frá því sem er meginatriði þessa máls og kjarni þess sem felst í því sem ég las upp, sem er þetta, að lykilatriðið sem hæstv. menntmrh. var að tala um hér um forræði Íslendinga og meirihlutaeign byggist ekki á þeim grundvallarforsendum í samningaviðræðum iðnrh. sem er það að erlendir aðilar eiga samkvæmt þessu að eiga 70% í væntanlegu álveri. Um hvaða lykilatriði var hæstv. menntmrh. að tala hér í gær? Hvern var hann að blekkja? Sjálfan sig eða hv. þm. eða íslenska þjóð? Nei, virðulegur forseti. Ég held að hæstv. ráðherrar ættu að láta af því að koma hér upp og tala hver gegn öðrum, reyna að blekkja þjóðina eftir því sem hentar þeim og þeirra flokkum hverju sinni. Háttalag sem þetta skaðar hagsmuni íslensku þjóðarinnar og er móðgun við fólk með heilbrigða dómgreind.