Sveitarstjórnarlög
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986. Frv. fjallar um að varamenn kjörinna sveitarstjórnarmanna verði kjörgengir sem varamenn í bæjarráð, borgarráð eða hreppsráð.
    Nú eru ákvæði 55. gr. sveitarstjórnarlaga skýr þess efnis að varamenn í byggðarráð skuli kosnir úr hópi kjörinna fulltrúa sveitarstjórnarmanna. Félmrn. hefur borist beiðni um það frá Kópavogskaupstað að regla eldri sveitarstjórnarlaga gæti gilt, þ.e. að varafulltrúar í sveitarstjórn séu kjörgengir í bæjarráð, borgarráð eða hreppsráð en til þess þarf lagabreytingu.
    Þessi ósk Kópavogskaupstaðar var send Sambandi ísl. sveitarfélaga sem lýsti sig meðmælt þeirri breytingu sem hér er lögð fram.
    Með frv. er í fyrsta lagi lagt til að bæði aðalfulltrúar og varafulltrúar úr sveitarstjórn verði kjörgengir sem varamenn í byggðarráð. Aðalmenn skulu hins vegar vera kosnir úr hópi aðalfulltrúa einvörðungu og er það óbreytt.
    Í öðru lagi felur frv. þetta í sér að lagt er í vald sveitarstjórnanna sjálfra hvort þær kjósa varamenn í byggðarráð sérstaklega, eins og verið hefur og er aðalreglan, eða ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélags að aðalfulltrúi og varafulltrúar sem kosningu hafa hlotið á sama framboðslista og hinn kjörni byggðarráðsmaður verði varamenn hans í byggðarráði í þeirri röð sem þeir skipa listann.
    Eins og ég benti á í máli mínu þá mælir stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga með þessari breytingu. Ég vænti þess að þetta frv. fái afgreiðslu hér á hv. Alþingi og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.