Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni lítið frv. og einfalt. Frv. er flutt til þess að taka af öll tvímæli um það að starfsmenn blandaðra fyrirtækja sem eru í eigu ríkis og sveitarfélaga geti átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það er talið nauðsynlegt að gera þessa breytingu á lögunum til að taka af öll tvímæli um lagalegan rétt fólks sem hefur árum saman, jafnvel í áratugi, greitt í sjóðinn og verið talið eðlilegir félagar í honum. Þetta á fyrst og fremst við um starfsmenn fyrirtækja eins og Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja, svo ég nefni þrjú dæmi.
    Ég vænti þess að Alþingi geti afgreitt þetta frv. svo réttaróvissu í málefnum þessara sjóðsfélaga verði eytt og mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til fjh.- og viðskn.