Beiðni um fundarhlé
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Ég vildi í upphafi þessa fundar koma þeirri ósk á framfæri að gert verði hlé á fundum deildarinnar einhvern tíma dagsins. Ég legg til að það verði um kl. 15.30. Við þurfum á tíma að halda til þess að ræða um einstök mál hér í þinginu og sérstaklega um frv. um stjórn fiskveiða sem virðist ætla að ganga illa að koma frá þingnefnd og í umræðu í hv. Ed. Það virðist ríkja alger ringulreið um stærstu mál þingsins í liði stjórnarinnar. Ég nefndi frv. um stjórn fiskveiða. Þar hefur núna komið fram sérstök ályktun frá þingflokki Alþfl. og er ekki séð á þessari stundu a.m.k. að neinn meiri hluti sé fyrir þessu máli í liði stjórnarinnar. Við þurfum tíma til þess að ræða viðbrögð við þessari stöðu.
    Það sama má segja um annað stórt mál sem er óafgreitt í þinginu en lögð er mikil áhersla á að nái afgreiðslu. Það er frv. um raforkuvirkjanir. Það tók á sig nokkuð nýja mynd í umræðu í hv. Ed. í gær með ræðu hæstv. menntmrh. og sýnist ástæða til þess að ræða það mál líka.
    Þá hefur komið tilkynning frá einum hæstv. ráðherra um nýtt frv. sem lagt verði fyrir þingið núna væntanlega í dag. Það er um áburðarverð. Þar sýnist eins og taka eigi fram fyrir hendur á þingkjörinni stjórn Áburðarverksmiðjunnar. Við ætlum einnig að ræða viðbrögð við því frv. Ég tek það svo að hæstv. landbrh. hafi ekki verið að gaspra neitt, það sé ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja slíkt frv. fram. Ég veit ekki hvort hæstv. ríkisstjórn er að þessu til þess að greiða fyrir þingstörfum en það má vel vera að hún meti það svo að slíkt frv. verði til þess að greiða fyrir þingstörfum á þessum síðustu dögum þingsins.
    Þetta kallar á tíma fyrir þingflokksfundi alla vega hjá Sjálfstfl. En það má vel vera að stjórnarliðar þurfi ekki á neinum tíma að halda, enda er ég ekkert að biðja um þennan tíma fyrir þá.
    Um afgreiðslu mála yfirleitt ríkir óvissa. Það er viðurkennt að afgreiðsla mála hér í þinginu veltur auðvitað á þessum stærstu málum, sérstaklega á frv. um stjórn fiskveiða. Vegna þeirrar óvissu sem hefur ríkt um það mál, og hefur núna aukist, þá hefur ekki verið hægt að setjast niður í neinni alvöru til þess að ræða um afgreiðslu hinna ýmsu mála sem hæstv. ríkisstjórn og einstakir þingmenn óska eftir að nái afgreiðslu fyrir þinglausnir sem eru nú fyrirhugaðar, eftir því sem ráðherrar segja, þann 4. maí n.k. Ekki hefur verið gefin út nein ákveðin tilkynning um að sá dagur hafi verið ákveðinn en við vitum að við þann dag er miðað.
    Ég vildi sem sagt koma þessari ósk á framfæri. Ég veit að hliðstæð ósk verður borin fram í hv. Ed. og vænti þess að forsetar deildanna verði við þessari beiðni og komi sér saman um tíma fyrir þingflokksfundi.