Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er til 2. umr. frv. sem mælt var fyrir á laugardaginn. Frv. er flutt af hv. fjh.- og viðskn. Formaður nefndarinnar, hv. 1. þm. Norðurl. v., flutti ágæta og skilmerkilega ræðu við 1. umr. en ekki gafst tækifæri til þess þá í þeim tímaskorti sem hrjáði deildarfundi á laugardaginn að gera þessu máli ítarlegri skil.
    Þetta er í annað sinn sem frv. er flutt af hv. nefnd um það efni sem hér er til umræðu. Ég tel ástæðu til að þakka hv. nefnd sérstaklega fyrir að hafa fjallað mjög ítarlega í vetur um annars vegar lögin nr. 9 frá 1984 og hins vegar um lögin nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ég tel ástæðu til að það komi hér fram skýrt og greinilega að nefndin hefur reynt að átta sig á því hvernig unnt er að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði í þeim tilgangi að hlutabréf verði gefin út í stærri stíl en verið hefur til þess að freista þess að styrkja þannig eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja. Það er ljóst að á nokkrum undanförnum árum hefur eiginfjárstaða fyrirtækja versnað. Því miður hefur þá oft verið gripið til þeirra úrræða að skuldbreyta lánum fyrirtækjanna í stað þess að annars vegar reyna að bæta rekstrarskilyrðin og hins vegar freista þess að fá fleiri til þess að leggja fram eigið fé í fyrirtækin. Nú er það svo með hlutafé, eigið fé fyrirtækjanna, að auðvitað þarf að greiða af því fjármagni arð, eins og menn þurfa að borga vexti af lánsfé, en munurinn er þó
sá, sem er mjög mikill, að hlutaféð situr eftir í fyrirtækjunum en lánsfé verður að greiða til baka, ekki einungis vextina heldur einnig stofninn sjálfan. Hins vegar geta hlutabréf gengið kaupum og sölum en sjálfur stofninn, sjálft hlutaféð, situr eftir í fyrirtækinu og verður þar áfram fyrirtækinu til styrktar.
    Ég tel að hv. nefnd hafi í vetur unnið mjög gott starf á þessu sviði. Ástæðan fyrir því að nefndin tók þetta mál upp á sína arma, og ræddi það með þessum hætti og flutti sjálf þessi tvö frv., er að fyrir nefndinni lágu nokkur frv. um þessi tilteknu mál. Annars vegar voru frv. frá sjálfstæðismönnum, hins vegar var frv. frá nokkrum framsóknarmönnum, undir forustu hv. 10. þm. Reykv., sem flutti frv. fyrr í vetur sem hlaut afgreiðslu nefndarinnar.
    Ef litið er á einstakar greinar frv. sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það sem hv. formaður nefndarinnar sagði skilmerkilega í ræðu sinni. Mér finnst þó ástæða til þess að benda sérstaklega á þær breytingar sem gerðar eru annars vegar með 3. gr. frv. og hins vegar 5. gr. þess.
    Það hagar þannig til, samkvæmt tekju- og eignarskattslögum, að kaupi fyrirtæki hlutabréf í öðrum fyrirtækjum og selji þau síðan með tapi þá er ekki heimilt að nota það tap til gjaldfærslu á rekstrarreikningi félagsins sem á hlutabréfin. Það er ekki einu sinni þannig að hægt sé að draga það tap frá þeim ágóða sem fyrirtækin geta fengið við sölu hlutabréfa. Ástæðan fyrir þessu virðist vera sú að löggjafinn taldi þegar lögin um tekjuskatt og

eignarskatt voru samþykkt að kaup fyrirtækja á hlutabréfum annarra fyrirtækja væru áhættusöm í eðli sínu og ef fyrirtæki töpuðu á slíkum viðskiptum ættu þau að bera tapið. Ef þau hins vegar græddu hlyti sá gróði að koma eins og hver annar ágóði til tekna á rekstrarreikningi viðkomandi félags.
    Þetta hefur ýmsum þótt nokkuð ósanngjörn regla og þess vegna var reynt að koma því fram í nefndinni með tillöguflutningi að fyrirtæki sem tapaði vegna sölu á hlutabréfum fengi að draga það tap frá tekjum fyrirtækisins með því að gjaldfæra slíkt tap. Um þetta náðist ekki samkomulag. Hins vegar náðist samkomulag um þá tillögu sem er gerð í 3. gr. frv. Þar segir að tapi fyrirtæki hlutafé vegna bréfa sem fyrirtækið hefur eignast sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu megi draga verð slíkra hutabréfa frá tekjum á því tekjuári þegar hlutafé var sannanlega tapað.
    Mér finnst ástæða til að fara örfáum orðum um það hvað þetta þýðir í raun. Við skulum bregða upp dæmi og kannski á best við að hugsa sér byggð úti á landi. Aðalfyrirtæki staðarins er frystihús sem hefur átt í erfiðleikum, eins og svo mörg önnur slík fyrirtæki hafa átt á undanförnum missirum, jafnvel árum. Þetta fyrirtæki skuldar vegna viðskipta ýmsum öðrum fyrirtækjum, þar á meðal ýmsum þjónustufyrirtækjum á staðnum, netagerðum, vélsmiðjum og öðrum slíkum fyrirtækjum. Banki frystihússins ákveður að freista þess, ásamt jafnvel einhverjum sjóðum landsmanna, Byggðasjóði eða slíkum sjóðum, að láta fara fram fjárhagslega endurskipulagningu á fyrirtækinu. Það er gert með þeim hætti að lofa framlagi eða betri og meiri lánum gegn því að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Þetta þýðir að eigendur fyrirtækisins þurfa að leggja meira fjármagn fram, en getur einnig þýtt að nýir aðilar komi til samstarfs um rekstur frystihússins. Þá er ekki óeðlilegt að leitað sé til þeirra aðila sem eiga í mestum viðskiptum við viðkomandi frystihús og eðlilegt að freista þess að fá þá til að leggja fram nýtt hlutafé. Í mörgum tilvikum er hægt að gera þetta með því að breyta viðskiptaskuldum í hlutafé.
    Hingað til hefur þetta verið nánast útilokað af þeirri einföldu ástæðu að heppilegra hefur verið fyrir fyrirtækin sem áttu kröfu á frystihúsið að segja sem svo: Við skulum frekar hafa biðlund, jafnvel lækka dráttarvexti eitthvað. Svo þegar til gjaldþrots kemur, ef um gjaldþrot verður að ræða síðar, getum við tekið þessa töpuðu kröfu og fært hana til gjalda á rekstrarreikningi félagsins. Ef viðkomandi fyrirtæki, til að mynda vélsmiðjan eða netagerðin, hefðu breytt viðskiptaskuldum í hlutabréf og gjaldþrot hefði skollið á væri ekki heimilt samkvæmt gildandi lögum að nota það tap sem varð vegna gjaldþrotsins heldur hefði viðkomandi fyrirtæki, sem átti viðskiptakröfuna hjá frystihúsinu, orðið að sætta sig við að tapið hefði orðið án þess að það kæmi til gjalda hjá fyrirtækinu. Þetta hefur leitt til þess að mjög erfitt hefur verið að endurskipuleggja fjárhag slíkra fyrirtækja, jafnvel þótt þau hafi verið móðurskip atvinnulífsins á viðkomandi

stöðum og í raun skapað öðrum fyrirtækjum atvinnutækifæri og þá undirstöðu sem þarf til þess að hægt sé að reka slík þjónustufyrirtæki við sjávarútveg. Ég hef, virðulegur forseti, reynt að bregða upp þessu dæmi til þess að skýra út hve mikilvæg þessi regla er, sem er í 3. gr. frv., jafnvel þótt við hefðum ýmsir viljað ganga enn lengra.
    Í 5. gr. frv. er breyting sem lætur mjög lítið yfir sér. Hún segir að séu verðbréf, önnur en hlutabréf, skráð á opinberu kaupþingi skuli telja þau til eignar á kaupþingsverði síðasta kaupþingsdags fyrir lok reikningsárs. Hér er skotið inn orðunum: ,,önnur en hlutabréf``. Þetta þýðir að skuldabréf og ýmis verðbréf, viðskiptabréf sem eru til sölu eða eru skráð á t.d. Verðbréfaþingi Íslands skal telja til eignar á síðasta skráðu gengi síðasta söludags á viðkomandi ári. Mynda þau þannig eignarskattsstofn viðkomandi eigenda. Ef þetta frv. verður samþykkt verða hlutabréfin undanskilin og hægt verður að telja hlutabréf fram á nafnverði bréfanna. Þessi regla er þá samsvarandi þeirri reglu sem notuð er um húseignir þar sem einstaklingar telja fram til eignarskatts húseignir á fasteignamatsverði, jafnvel þótt kaupverð sé miklu hærra en fasteignamatið á hverjum tíma.
    Hver er ástæðan fyrir því að við leggjum til þessar breytingar? Hún er sú að ekkert fyrirtæki hefur skráð hlutabréf sín á Verðbréfaþingi Íslands til þessa dags, jafnvel þótt verðbréfaþingið hafi starfað um nokkurra ára skeið. Með þeirri breytingu sem hér er lagt til álítum við, og reyndar þeir sem þekkja þessi mál til hlítar, að breyting verði á og ýmis fyrirtæki láti skrá hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands. Það er ein besta trygging fyrir því að hlutabréfaviðskipti geti farið fram með eðlilegum hætti. Og að almenningur jafnt sem sjóðir og aðrir sem hyggja á hlutabréfakaup geti treyst því að
þessi skráning sé dæmi um það hvert sé markaðsverð bréfanna og að óhætt sé að kaupa bréf í slíkum fyrirtækjum án þess að eignarskattsstofn kaupendanna þjóti verulega upp því þeir sem eiga bein viðskipti sín á milli geti eftir sem áður, hvort sem þessi breyting nær fram að ganga eða ekki, skráð til eignar hlutabréf á nafnverði bréfanna, auðvitað með þeim breytingum sem gerðar hafa verið með útgáfu jöfnunarbréfa. Þannig getur þessi lagabreyting orðið til þess að koma af stað skráningu á hlutabréfum á Verðbréfaþingi Íslands.
    Mér finnst ástæða til að fagna þeim umskiptum, sem ég vil kalla svo, sem hafa orðið á sjónarmiðum ýmissa stjórnmálaflokka á síðustu árum og vaxandi skilningi á því hve nauðsynlegt það er fyrir Íslendinga að feta í fótspor annarra þjóða og reyna að auka eigið fé fyrirtækja og styrkja hlutabréfamarkaðinn. Einmitt slíkur fjármagnsmarkaður hefur verið einn veigamesti grundvöllur batnandi lífskjara þar sem frjálsræði ríkir í efnahagsmálum. Ég tel þess vegna ástæðu til að hæla þeim mönnum sem hafa barist fyrir því í sínum flokkum að gera þær breytingar á stefnuskrám og yfirlýsingum flokkanna sem hafa orðið til þess að nú má segja að yfirgnæfandi meiri hluti íslenskra

stjórnmálaflokka sé á því að gera gagngerar breytingar á þessum málum. Ég veit að ég móðga engan þó að ég nefni nafn eins manns sérstaklega, en það er hv. 10. þm. Reykv. sem hefur sýnt þessum málum sérstakan áhuga og mikinn skilning. Og reyndar einnig þeir menn sem mest hafa starfað með honum innan Framsfl. og gert, að mínu áliti, mjög veigamiklar breytingar á yfirlýsingum flokksins sem gera það að verkum að búast má við því að auðveldara og einfaldara verði fyrir okkur að undirbúa okkur undir þá miklu samkeppni sem vænta má þegar sú breyting verður í Evrópu sem leiðir af hinum sameiginlega innri markaði Evrópubandalagsins.
    Menn hafa rætt um það hvort Íslendingar eigi að lýsa því yfir að aðild að slíku bandalagi sé ekki á dagskrá eða hvort við ættum að sækja um aðild til að láta á samninga reyna. Það er allt saman aukaatriði á þessari stundu. Það er ljóst að enginn sækir um aðild, enginn fær viðræður við bandalagið, aðildarviðræður á þessu stigi málsins, ekki fyrr en eftir 1992. En það skiptir hins vegar afar miklu máli að við högum okkar löggjafarstarfsemi þannig að við séum sem best í stakk búin til að takast á við þau miklu umskipti sem verða þegar til starfa tekur sameiginlegur innri markaður Evrópubandalagsins því það mun hafa áhrif hér á landi hvort sem við ætlum okkur aðild að bandalaginu eða ekki.
    Það væri vissulega freistandi, þegar við erum að fjalla um breytingar á tekju- og eignarskattslögunum með tilliti til hlutafjármarkaðar, að fara nokkrum orðum um undirbúning okkar undir það sem er að gerast í Vestur-Evrópu og væntanlega einnig í Austur-Evrópu á næstu árum. En ekki er til þess tóm og kannski ekki ástæða til að gera það nákvæmlega þegar við ræðum þetta frv., enda gefst tækifæri til þess síðar þegar önnur skyld málefni verða til umræðu hér í hv. deild.
    Ég vil aðeins geta þess, því það hefur kannski farið fram hjá ýmsum, en þannig er að á undanförnum árum hefur hlutafjármarkaðurinn íslenski verið að vaxa, jafnvanþróaður og hann er. Á árunum 1984--1988 nýttu sér frádráttarheimildir skattalaganna 900--1300 manns. Það er talið að á síðasta ári hafi þessi hópur allt að því þrefaldast. Meginástæðan er sú að á hinu háa Alþingi var vaxandi skilningur fyrir því að hægt væri að nota hlutafé og hlutafjármarkað til að treysta betur eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja. Það kann að koma á óvart, en það er talið að um það bil 17 þús. einstaklingar notfæri sér frádráttarheimildir vegna arðs og hlutabréfa hér á landi, 17 þús. framteljendur, samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra. Er það auðvitað miklum mun stærri hópur en flestir gætu ímyndað sér, en sannleikurinn er sá að við eigum hér á landi ýmis stór almenningshlutafélög. Ég spái því að á næstunni muni þeim fjölga, ekki síst vegna þess að ýmis þau félög sem hafa starfað undir merkjum samvinnuhreyfingarinnar hljóti að aðlaga sig breyttum tímum, annaðhvort að breyta starfsemi sinni í hlutafélagsform, eins og reyndar hefur gerst hér í Reykjavík þegar Mikligarður hf. hefur tekið við

starfsemi KRON. Við sem erum aldir upp hér á mölinni munum vel eftir nákomnum ættingjum sem voru í KRON. Ég man eftir að ég varð að ganga fram hjá tveimur kaupmönnum þegar ég þurfti að kaupa fyrir ömmu mína sem var mikil stuðningskona KRON til þess að fá miða frá KRON og síðan um áramót náttúrlega almanak frá KRON. Það var held ég það eina sem blessuð gamla konan fékk frá KRON yfirleitt því að KRON átti ekki mikið aflögu alltaf. En trúin var sterk hjá ýmsu þessu fólki sem hafði trú á samvinnuhugsjóninni.
    Smám saman hefur það þó gerst að önnur rekstrarform hafa reynst sterkari, ekki síst vegna þess að hægt hefur verið að bæta eiginfjárstöðu þeirra fyrirtækja. En því miður hefur ekki verið nægileg samstaða innan samvinnuhreyfingarinnar til þess að breyta lögum um samvinnufélög með þeim hætti að þau samsvari hlutafjárlöggjöfinni og geti þannig breytt sér í því breytta rekstrarumhverfi sem nú er á Íslandi. Það sem hefur breyst fyrst og fremst er að nú er jafnræði á milli félaga og fyrirtækja og þeirra sem þurfa að taka lán. Nú skiptir ekki lengur máli að eiga fulltrúa í bankaráði, eiga frænda sem bankastjóra eða mann úr sama flokki til þess að fá lán og borga síðan aðeins örlítið af þeim til baka.
    Nú eru allir jafnir, menn borga fyllilega það aftur sem þeir taka að láni. Þá kemur auðvitað í ljós að ýmsir aðilar, þar á meðal samvinnuhreyfingin, hafa sofið á verðinum, starfað í skjóli þess að geta tekið lán og greitt aðeins lítinn hluta þess aftur. Sem betur fer er vaxandi skilningur á þessu meðal forráðamanna Sambandsins. Við höfum heyrt það í umræðunni á hinu háa Alþingi að samvinnulöggjöfinni þurfi að breyta. Og á öðrum sviðum hefur það gerst að samvinnumenn hafa gengið á undan og breytt fyrirtækjum í hlutafélagsform. Nefni ég þá enn á ný Miklagarð sem hefur tekið við verslunum KRON og hafa nú nýlega lýst því yfir að þeir ætli að ná sér í svo sem 150 millj. kr. í nýju hlutafé til þess að geta staðist öðrum félögum sem hér starfa á markaðnum snúning.
    Ég get ekkert sagt um það hvort það tekst, en þetta er auðvitað sú leið sem þeir sjá affarasælasta miðað við þá breytingu á rekstrarskilyrðum sem orðið hefur á undanförnum árum. Og ég verð að segja það að ég tel það vera hól um þá menn sem eru í forustu fyrir samvinnuhreyfingunni að reyna ekki lengur að liggja í faðmi og reyna að kreista út úr sínum mönnum á Alþingi eða í ríkisstjórnum það sem þeir geta, heldur ( Gripið fra m í: Og bankaráðum.) og bankaráðum, að ógleymdum bankaráðum, sem er alveg rétt ábending, að reyna það ekki lengur heldur taka þátt í leiknum á jafnréttisgrundvelli. Og ég held sem betur fer, og ég mæli þar af heilum hug, þá held ég að sem betur fer sé vaxandi skilningur á þessu innan samvinnuhreyfingarinnar.
    Það kemur kannski á óvart til viðbótar að á sl. ári var útboð meðal tíu fyrirtækja, tíu nokkuð stórra hlutafélaga. Þessi fyrirtæki seldu 1200--1300 millj. kr. í hlutafé og þetta var nýtt hlutafé. Að vísu voru það

ekki einstaklingar sem keyptu þetta mestan part heldur lífeyrissjóðir. Þetta voru fyrirtæki eins og Alþýðubankinn, sem var að auka hlutafé sitt vegna þátttöku í nýrra og stærra hlutafélagi. Og auðvitað komu lífeyrissjóðir inn hjá öðrum fyrirtækjum, en þarna voru líka ýmsir einstaklingar sem keyptu hlut.
    Ég sagði 1200--1300 millj. kr. Ef við berum þær tölur saman við árangur hæstv. ríkisstjórnar í sölu ríkisskuldabréfa, eða spariskírteina ríkissjóðs, þá held ég að ég fari rétt með að nettó hafi aukningin orðið innan við 900 millj. kr. Þegar búið er að draga innleyst bréf frá þeim sem seld voru er
aukningin 900 millj. kr. eða rétt innan við það, líklega 880 millj. kr. Með öðrum orðum, nýtt hlutafé í fyrirtækjum varð talsvert miklu meira en það sem ríkissjóður náði með öllu auglýsingabramboltinu til að fá almenning og aðra til þess að kaupa spariskírteini ríkissjóðs. Auðvitað náði ríkissjóður sínum fjármunum en það gerðist fyrst og fremst með sölu ríkisvíxla, en vextir af þeim voru auðvitað miklum mun hærri og þeir ríkinu þess vegna miklu óhagstæðari heldur en ef um sölu ríkisskuldabréfa hefði verið að ræða.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara mörgum fleiri orðum um það sem hefur verið að gerast að undanförnu. Ég þarf ekki að rifja upp í löngu máli það frv. sem samþykkt var fyrir áramót. Það er ljóst að það hefur valdið straumhvörfum og full ástæða til þess að minnast á það sérstaklega, því ég held að það starf sem fór fram á vegum hv. fjh.- og viðskn. fyrir jólin hafi verið mjög til fyrirmyndar og skilað sér í miklum árangri út á markaðinum.
    Fyrir örstuttu lagði hæstv. ríkisstjórn fram frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða. Í 6. tölul. 23. gr. þess frv. er sagt að fé lífeyrissjóðs skuli ávaxtað m.a. með því að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands. Þó er óheimilt, samkvæmt þessari grein í frv., að verja meiru en 5% af árlegu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðs til kaupa á hlutabréfum. Enn fremur er lífeyrissjóði óheimilt að eiga meira en 5% af hlutafé í hverju fyrirtæki. Þetta frv. var lagt fram af hæstv. ríkisstjórn aðeins til sýningar og verður ekki afgreitt í vor.
    Ef þetta frv. verður afgreitt á næsta þingi, eins og ég held að menn búist almennt við, þá mundi þessi litla grein breyta heilmiklu um rétt lífeyrissjóða til þess að kaupa hlutabréf. Auðvitað hafa margir lífeyrissjóðir nú þegar rétt til að kaupa hlutabréf í hlutafélögum og í raun hafa sumir þeirra keypt hlutabréf og hagnast á slíkum hlutabréfakaupum langt umfram það sem þeir hafa gert þegar keyptu annars konar verðbréf á markaðinum því verð á hlutabréfum hefur á undanförnum árum hækkað miklum mun meira en lánskjaravísitalan og ávöxtun annarra bréfa. Ég get giskað á að um það bil 25 milljarðar séu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í ár, samkvæmt nýjustu áætlunum, kannski 23--25 milljarðar, það er nýbúið að hækka þessa tölu, Þjóðhagsstofnun fór yfir þetta fyrir skömmu. Ef helmingur sjóðanna, eða sjóðir sem samsvara helmingi þessa fjármagns hafa ekki enn þessa heimild en mundu nýta hana þá mun koma fram

verulega mikið til viðbótar í eftirspurn eftir hlutabréfum á næstu árum. Það er einmitt álit Enskilda Securities, sem á sínum tíma var fengið til þess að gera úttekt á íslenska hlutafjármarkaðinum, að það þurfi að ýta við eftirspurnarhliðinni. Á þetta vil ég leggja áherslu því mér sýnist að það sé skilningur á þessu, bæði hjá hæstv. ríkisstjórn og eins hjá öðrum sem um þessi mál hafa fjallað.
    Ég veit, virðulegur forseti, að hæstv. viðskrh. hefur mikinn áhuga á þessum málum. Hann hefur þó ekki fylgt sínum hugmyndum eftir. Við vitum hvers vegna það er. Hæstv. fjmrh. svaraði því fyrr í vetur þegar hann sagði að ekki væri ástæða til þess að gera verulegar breytingar á skattalöggjöfinni nú á meðan skattkerfið væri að jafna sig á jafnstórum breytingum og þeim sem urðu þegar annars vegar staðgreiðslukerfið var sett á og hins vegar virðisaukaskattskerfið um síðustu áramót. Hins vegar er farið af stað starf á vegum fjmrn. sem miðar að því að gera nokkrar breytingar á þessari löggjöf til þess að samræma hana sem mest þeirri löggjöf sem er í gildi í nágrannalöndum okkar, ekki síst löndum Vestur-Evrópu.
    Ég held, virðulegur forseti, að ástæðulaust sé fyrir mig að hafa mörg fleiri orð um þetta mál. Mér finnst það svo merkilegt að það þurfi að fá hér nokkra umræðu og ástæða sé til að segja frá því þannig að menn taki eftir hvað Alþingi er að gera hér að eigin frumkvæði. Síðar í dag verður rætt um frv. sem fjallar um að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög. Það frv., sem flutt er af hv. 1. þm. Suðurl. og nokkrum öðrum þingmönnum, er auðvitað liður í þessari sömu starfsemi, liður í því að styrkja eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja. Það kann að koma á óvart að það þurfi að styrkja eiginfjárstöðu íslensku ríkisviðskiptabankanna til þess að þeir geti tekist á við hið nýja verkefni sitt, að keppa við erlenda aðila sem koma til með að fá leyfi til að opna útibú og stunda bankastarfsemi hér á landi þegar fram líða stundir.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú í nokkrum orðum fjallað um það frv. sem hér er til umræðu. Ég vil enn á ný ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem í nefndinni störfuðu og komu nálægt þessu máli og eins embættismönnum sem hjálpuðu til við að ná þessu víðtæka samkomulagi sem hér hefur orðið um þetta mjög svo mikilvæga málefni.