Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Reykv. er þetta í annað skiptið sem fjh.- og viðskn. Nd. flytur frv. á þessu þingi er varðar málefni hlutabréfa. Ég er ekki alveg viss um að þingmenn geri sér almennt grein fyrir því hversu merkilegt mál hér er á ferðinni, ekki bara efnislega, heldur líka vegna þeirrar vinnslu sem málið hefur fengið í þinginu. Ég tel að þessi tvö frv. séu dæmi um það hvernig þjóðþing Íslendinga á að starfa í reynd. Þau mjög svo mikilvægu mál sem hér er fjallað um hafa í för með sér grundvallarbreytingu og þróun í rétta átt í því er lýtur að eiginfjármögnun fyrirtækja og fjármagnsmarkaði Íslendinga. Það er athyglisvert að þessi frv. eru ekki flutt að frumkvæði ríkisstjórnar, þau eru flutt að frumkvæði þingmanna. Og ekki bara það heldur eru þessi frv. bæði, svo mikilvæg sem þau eru, eiginlega sérstakt dæmi um það hvernig stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn geta unnið saman. Í þessum málum hefur tekist að yfirstíga venjulega flokkadrætti og ríg um að eigna sér ákveðna þætti í lagabreytingum. Tekist hefur samvinna um mjög merkileg mál. Þingið hefur haft frumkvæði að því sjálft. Ég tel að hér sé um að ræða dæmi um hvernig þingið eigi að starfa og að það eigi að láta til sín taka fleiri slík mál. Það eykur sjálfstæði þingsins og sýnir fremur vilja þess.
    Það hefur þegar komið fram, og er hygg ég lýðum ljóst, að bæði þessi frv. sem flutt eru af fjh.- og viðskn. Nd. eru að stofni til byggð á frv. sem nokkrir sjálfstæðismenn hafa flutt hér í deildinni að frumkvæði og undir forustu hv. 1. þm. Reykv. Í nefndinni hafa þessi frv. verið unnin frekar og ég held að mér sé óhætt að segja að það sé á engan hallað þó að sagt sé að hv. 1. þm. Reykv. hefur manna mest flutt þessi mál hér inn í þingið á undanförnum missirum og mælt fyrir þeim. Hann á þakkir skildar fyrir sinn þátt í því.
    Það er líka rétt sem kom fram í máli hans að skilningur á þessum málum hefur mjög verið að aukast, að ég hygg í öllum stjórnmálaflokkum. Þær breytingar sem hér er um að ræða eru mjög víðtækar. Þær miða í fyrsta lagi að því að auðvelda fyrirtækjum almennt að auka sitt eigið fé. Fátt er nauðsynlegra til að styrkja atvinnulíf í landinu en einmitt það og auðvitað hlýtur það að vera grundvöllurinn undir velferð landsmanna og góðum lífskjörum.
    Jafnframt miða þessi frv. að því að gera hlutabréf að sambærilegra sparnaðarformi við önnur sparnaðarform, samanber skuldabréf. Og í þriðja lagi miða þau að því að auka þátt og hlutdeild almennings í atvinnurekstri.
    Ég vil sérstaklega, með leyfi forseta, vekja athygli á því að nefnd þingflokks Framsfl. um efnahags-, atvinnu- og byggðamál, sem skilaði áliti í október sl., fjallaði mjög um þessi mál og lagði þar fram tillögur í nokkrum liðum. Fyrsti liður var um að skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa verði hækkaður. Það hefur tekist. Það hefur þegar verið samþykkt á

þessu þingi þó menn greini kannski á um hvort nægilega stórt skref hafi verið stigið. Í öðru lagi segir í áliti nefndarinnar að ákvæði sem fyrirtæki þarf að uppfylla til þess að hlutabréfakaup móti skattfrádrætti verði rýmkuð, það er lágmarksfjöldi hluthafa, lágmarks hlutafé o.s.frv. Þessi ákvæði hafa einnig verið löguð, þau hafa verið rýmkuð mjög með lagasamþykkt hér á Alþingi.
    Í þriðja lagi segir í áliti þessarar nefndar að útgreiðsla arðs verði frádráttarbær hjá fyrirtæki og skattmörk rýmkuð hjá einstaklingum. Skattmörk eru rýmkuð hjá einstaklingum með því frv. sem nú liggur fyrir, úr 10% af nafnvirði hlutafjár í 15%. Enn er það þó svo að það sem umfram er þau 15%, verði þetta frv. að lögum, verður í raun tvískattað. Þessi tillaga nefndar þingmanna Framsfl. hefur ekki náð fram. Hún var reyndar rædd talsvert í fjh.- og viðskn. Nd., um hana náðist ekki samstaða og verður vafalaust látið á hana reyna frekar á síðari þingum hér.
    Í fjórða lagi lagði þingmannanefnd Framsfl. til að tapað hlutafé verði frádráttarbært í rekstri svipað og tap annarra eigna. Nokkuð er gengið í átt að þeirri samþykkt með því frv. sem hér liggur fyrir. Hv. 1. þm. Reykv. skýrði ítarlega út gildi þeirrar greinar sem um það fjallar þannig að ég þarf ekki að fara frekar í það. Þó er rétt að ítreka það að þingmenn Framsfl., sem þessa nefnd skipuðu, töldu að hér ætti að ganga lengra, ekki ætti að vera um tvísköttun að ræða í þessu sambandi.
    Í fimmta lagi lagði nefndin til að stimpilgjöld af hlutabréfum yrðu lækkuð úr 2% í 0,5%. Sú breyting hefur þegar orðið að lögum hér á Alþingi.
    Í sjötta lagi lagði þingmannanefndin til að lífeyrissjóðum verði heimilað að verja ákveðnu hlutfalli eigna sinna til hlutabréfakaupa í atvinnurekstri. Þetta hefur enn ekki náð fram. Hv. 1. þm. Reykv. gerði grein fyrir ákvæði í frv. um lífeyrissjóði sem liggur fyrir þinginu og vafalaust verður ekki afgreitt á þessu þingi.
    Ég hygg að skilningur sé að verða almennt ríkari á nauðsyn þess að lífeyrissjóðunum verði heimiluð slík hlutabréfakaup. Reyndar hlýtur það að vera hagsmunamál þeirra sem í reynd eiga lífeyrissjóðina að atvinnufyrirtækin séu styrkt með þeim hætti.
    Þess vegna er ljóst að þrátt fyrir þær breytingar, ég vil segja mjög miklu, ákjósanlegu, sem verða með þessum tveimur frv. til laga sem fjh.- og viðskn. Nd. flytur, eru þó enn eftir atriði sem umhugsunar þurfa við og frekari lagfæringar. Það er mjög skiljanlegt að lengra sé ekki gengið í einu skrefi en það sem hér er um að ræða.
    Ég vonast til að þingið taki þessu frv. vel og það verði að lögum nú innan tíðar.
    Ég vil síðan alveg sérstaklega þakka öllum þeim sem hlut áttu að máli í þá átt að þetta samkomulag gæti tekist. Ég ítreka það að ég tel að í þessum mikilsverðu málum báðum sé á vissan hátt um að ræða þáttaskil í starfsemi þingsins því þessi mikilvægu mál eru ekki lögð fram að frumkvæði ríkisstjórnar, Alþingi er oft sakað um að vera afgreiðslustofnun

ríkisstjórnarinnar, þau eru unnin að frumkvæði þingmanna sjálfra hér í þinginu. Og ekki bara það, sú ágæta samvinna sem tókst milli stjórnarandstöðuþingmanna og stjórnarþingmanna í þessum mikilvægu málum hlýtur að verða hvati til þess að vinna áfram á þeirri braut að ná fram mikilvægum lagabreytingum og nauðsynlegum án þess að til sífelldra flokkadrátta komi eins og um of vill verða í mörgum málum.