Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um opinbera réttaraðstoð. Frv. er flutt á þskj. 941. Tilgangurinn með því að leggja fram þetta frv. til laga um opinbera réttaraðstoð er að veita efnalitlu fólki möguleika á að leita sér lögfræðiaðstoðar þannig að fólk þurfi ekki vegna fátæktar að missa þau réttindi sem það raunar hefur. Ef hafa á í heiðri þá grundvallarreglu íslensks réttarfars að allir séu jafnir fyrir lögum þá verður að búa svo um hnútana að allir geti leitað réttar síns án tillits til efnahags. Réttaraðstoð af þessu tagi er jafnframt varnaðarstarf, meiri líkindi eru til þess að mál leysist farsællega á frumstigi, þ.e. án þess að til málshöfðunar þurfi að koma, ef fólk fær fullnægjandi lögfræðilega aðstoð sér að kostnaðarlitlu í tæka tíð. Raunar má benda á að hér á landi er tiltölulega sjaldgæft að leitað sé lögfræðiaðstoðar í sumum málaflokkum, svo sem í sifjamálum, en algengt er hins vegar erlendis að leitað sé lögfræðiaðstoðar vegna þessara mála þar sem settar hafa verið reglur um opinbera réttaraðstoð. Löggjöf um lögfræðiaðstoð við almenning hefur verið í gildi í flestum nágrannalöndum okkar í 15--20 ár.
    Frv. þetta sem hér er lagt fram er samið af nefnd sem Jón Sigurðsson dómsmrh. skipaði í maímánuði 1988. Í nefndinni sátu Björn Friðfinnsson, þáv. aðstoðarmaður dómsmrh., Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður og Björn Þ. Guðmundsson prófessor. Haustið 1989 bættist Sigurður Jónsson, aðstoðarmaður dómsmrh., í nefndina. Ritari nefndarinnar hefur frá upphafi verið Skúli Guðmundsson skrifstofustjóri.
    Lögfræðiaðstoð við almenning hefur áður verið á dagskrá hér á landi og má minna á till. til þál. sem Ragnar Arnalds og Svava Jakobsdóttir fluttu á Alþingi veturinn 1974--1975, um lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk. Tillögunni var vísað til ríkisstjórnarinnar en haustið 1978 skipaði Ólafur Jóhannesson dómsmrh. starfshóp til að huga að lagareglum um ókeypis lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk undir forystu Eiríks Tómassonar, þáv. aðstoðarmanns dómsmrh.
    Við samningu þess frv. sem hér liggur fyrir hefur verið höfð hliðsjón af lagareglum um þetta efni annars staðar á Norðurlöndum. Fyrir um það bil einu ári eða 17. apríl 1989 var samþykkt á Alþingi að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða ákvæði laga um gjafsókn í ljósi fenginnar reynslu með það fyrir augum að auðvelda efnalitlu fólki að ná rétti sínum að lögum. Flm. þeirrar þáltill. var hv. 2. þm. Vesturl. Friðjón Þórðarson.
    Undanfarið hefur mikið verið rætt um nauðsyn aðstoðar við brotaþola í nauðgunar- og líkamsárásarmálum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að settar verði reglur um einn þátt þessarar aðstoðar, þ.e. um lögfræðilega aðstoð við þolendur tiltekinna afbrota.
    Það er ekki ætlun mín að rekja öll efnisatriði frv. en hins vegar drepa aðeins á fáein aðalatriði. Í frv. er gert ráð fyrir að allir þeir einstaklingar sem fasta búsetu hafa hér á landi eigi rétt til opinberrar

réttaraðstoðar.
    Í II. kafla frv. er fjallað um almenna ráðgjöf við almenning. Samkvæmt frv. er hér um að ræða munnlegar leiðbeiningar sem veittar eru af lögmönnum eða á vegum samtaka lögmanna. Fyrirkomulagið er á þann veg hugsað að dómsmrh. semji við lögmenn eða samtök þeirra um að skipuleggja slíka ráðgjöf á ákveðnum tímum, t.d. einu sinni til tvisvar í viku, tvo til þrjá tíma í senn. Ráðgjöf þessi er veitt að kostnaðarlausu fyrir þá sem hana nýta sér. Ekki er gert ráð fyrir að hún kosti ríkissjóð mikið fé. Samkvæmt mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, lauslegu að vísu, er gert ráð fyrir að þetta gætu orðið 2--3 millj. kr. á ári.
    Í III. kafla frv. er fjallað um aðstoð hins opinbera í einstökum málum og er framkvæmd þeirra ákvæða sá þáttur frv. sem mestan kostnað mun, án efa, hafa í för með sér. Samkvæmt lauslegu mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, miðað við þær forsendur sem hún raunar gefur sér í þessu sambandi, er gert ráð fyrir að sú aðstoð gæti numið við núverandi aðstæður allt að 25--35 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að í samráði við samtök lögmanna verði ákveðið af ráðherra hvaða lögmenn láti aðstoð í té og skal birta lista um nöfn þeirra. Þeir sem leita aðstoðar snúa sér til lögmanna sem skráðir eru á listann og þeir kynna sér hvort um er að ræða aðila sem á rétt á aðstoð. Aðstoðin er síðan látin í té og lögmaðurinn snýr sér til sýslumanns og leggur þar fram umsókn um kostnaðarþátttöku ríkissjóðs.
    Í IV. kafla er um nýmæli að ræða sem ég minntist á fyrr í máli mínu. Nauðsyn þykir bera til þess að þeir sem orðið hafa fyrir tilteknum refsiverðum brotum njóti lögmannsaðstoðar við kærumeðferð og gerð bótakröfu. Þetta á við um ýmis kynferðisafbrot, grófar líkamsárásir eða ólögmæta frelsisskerðingu. Samkvæmt lauslegu mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar gæti hér verið um að ræða 2--3 millj. kr. kostnað á ári.
    Ákvæði um gjafsókn og gjafvörn í XI. kafla laganna um meðferð einkamála í héraði frá 1936 eru nú úrelt orðin og í V. kafla frv. er leitast við að endurskoða þau í ljósi breyttra aðstæðna. Lagt er til að veiting gjafsóknarleyfis sé miðuð við efnahag umsækjanda, eins og nú er aðalreglan, en formlegri reglur verði settar um tekju- og eignamörk. Einnig skal taka tillit til annarra atriða og er lagt til að sérstök nefnd verði sett á fót til þess að veita umsagnir um gjafsóknarbeiðnir og til að móta starfsreglur um veitingu gjafsóknarleyfa. Felld eru niður ákvæði um gjafsókn til kirkna, skóla, sjúkrahúsa, hreppsfélaga og fleiri aðila og um skilyrði fyrir gjafsóknarleyfi til erlendra ríkisborgara. Þessi þáttur er samkvæmt lauslegu mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar metinn að kostnaði til 2--3 millj. á ári.
    Lagt er til að lög þessi taki gildi, ef af verða, 1. jan. 1991 að undanskildum III. kaflanum. Ljóst er að erfitt verður að áætla kostnað af framkvæmd III. kaflans svo að viðhlítandi sé. Því er lagt til að hann

taki eigi gildi fyrr en 1. júní 1992.
    Hafa verður í huga að hér er, ef frá eru talin ákvæðin um gjafsókn og gjafvörn, um að ræða algjöra nýjung í íslenskum rétti sem brýn þörf er að vísu á en óhjákvæmilegt er að láta reynsluna skera úr um hvort reglur sem hér er gerð tillaga um leysi nægilega úr þeirri þörf sem þeim er ætlað að leysa.
    Að öðru leyti vísa ég til frv. og athugasemda þess.
    Ég vil að loknum þessum kynningarorðum, hæstv. forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.