Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar að koma með nokkur atriði til umhugsunar varðandi einstaka þætti er varða afgreiðslu þessa máls. Fyrst langar mig þó að lýsa ánægju minni yfir því að fram skuli vera komið frv. sem gerir ráð fyrir réttargæslu fyrir brotaþola í opinberum málum, en svo sem fram kemur í skýrslu nefndar þeirrar sem fjallaði um meðferð nauðgunarmála er mjög brýnt að lögfesta slík ákvæði. Það mun ég þó ekki gera hér að aðalumræðuefni mínu í dag þótt vissulega sé þarna um stóran þátt að ræða.
    Frv. mun að þessu sinni vera lagt fram til kynningar en vonandi verða örlög þess ekki þau sömu og annarra frumvarpa og þingsályktana sem lögð hafa verið fram með svipuð sjónarmið í huga, þ.e. að tryggja það að allir eigi í raun kost á ráðgjöf og aðstoð í mikilvægum málum, t.d. sifjaréttarmálum og öðrum persónuréttarmálum, þar sem sérfræðiaðstoðar getur verið þörf.
    Svo sem fram kemur í athugasemdum við frv. og raunar kom fram í framsögu hæstv. dómsmrh. eru þau mál orðin allmörg sem ekki hafa náð fram að ganga. Ég vil rétt drepa á þáltill. þá sem Ragnar Arnalds og Svava Jakobsdóttir fluttu á Alþingi veturinn 1974--1975, um lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk, frv. til laga um lögfræðiaðstoð sem flutt var sem stjfrv. á 101. löggjafarþingi 1978--1979 og aftur á 102. löggjafarþingi veturinn 1979--1980 en náði ekki fram að ganga. Og loks má nefna mál sem einnig snertir sifjaréttarmál en það er stjfrv. um fjölskylduráðgjöf sem lagt var fram á Alþingi veturinn 1989--1990, á 111. löggjafarþingi. Þar var gert ráð fyrir að stofnuð yrði miðstöð fjölskylduráðgjafar með fræðslu m.a. sálfræðinga og lögfræðinga. Það frv. var ekki afgreitt úr nefnd en fékk tiltölulega jákvæðar umsagnir.
    Það hefur glöggt komið fram í nágrannalöndum okkar að langstærsti einstaki málaflokkurinn þar sem lögfræðiráðgjafar og aðstoðar er þörf er sifjaréttarmálin. Á Norðurlöndunum og í Bretlandi mun þessi prósenta vera um
það bil 60%. Í athugun sem lögmennirnir Atli Gíslason, Skúli Thoroddsen og Steinþór Haraldsson gerðu, að vísu fyrir um það bil 10 árum, um þörf á ókeypis eða ódýrri lögfræðiaðstoð hér á landi komu fram svipaðar vísbendingar en þess má geta að lögfræðiráðgjöf Orators varð til í kjölfar þessarar athugunar þótt með óbeinum hætti megi telja.
    Sex ára starfsemi Kvennaráðgjafarinnar hefur enn frekar orðið til að gefa til kynna að þörfin sé mikil á þessu sviði og þess má auk þess geta að fráskildu fólki hefur fjölgað um þriðjung á aðeins fimm undanförnum árum sem bendir til þess að upplausn fjölskyldu, sem sumir vilja nefna svo, sé orðin nokkuð mikil og í sumum tilvikum mætti ætla að ráðgjöf um réttarstöðu og aðstoð í slíkum málum gæti leitt til þess að e.t.v. þyrfti ekki alltaf til skilnaðar að koma þótt í mörgum tilvikum verði ekki hjá því komist að vísu.

    Í ljósi þessara staðreynda ákváðu þingkonur Kvennalistans að leggja fram frv. um lögfræðiráðgjöf og aðstoð vegna hjúskapar-, sambúðar- og sifjaréttarmála. Málmfríður Sigurðardóttir, þingkona Kvennalistans, mælti fyrir því máli þann 10. apríl sl. og er það að finna á þskj. 718.
    Í þessu frv. kvennalistakvenna er að finna nokkuð ítarlegri tillögu um framkvæmd lögfræðiráðgjafar og aðstoðar í hjúskapar-, sambúðar- og sifjaréttarmálum en fram koma í því frv. sem hér er til umræðu. Ég mun nú tíunda í stuttu máli það helsta sem mér finnst þörf á að geta um í þessu sambandi.
    Það ber þá fyrst að nefna skilgreiningu þess hóps sem rétt á á aðstoð samkvæmt þessum tveimur frumvörpum. Það er ákaflega mikilvægt að aðstoðin nái til þeirra sem raunverulega þurfa á henni að halda og því mjög nauðsynlegt að skilgreina hvað lágar tekjur séu út frá skynsamlegum forsendum.
    Í frv. því er hæstv. dómsmrh. mælti fyrir er skv. 8. gr. ekki tiltekið hvar tekjumörkin eigi að vera til þess að fólk njóti aðstoðar og í skýringum við greinina er gert ráð fyrir að þau ákvæði verði sett í reglugerð. Ég vík að þessu atriði ekki síst til þess að benda á að til að frv. nái tilgangi sínum verður þjónusta þessi að standa þeim til boða sem ekki hafa efni á að greiða hana fullu verði. Lögfræðiþjónusta getur verið mjög dýr og ef um aðstoð er að ræða sem tekur mikinn tíma, eins og raunar síðasti ræðumaður kom inn á, þá er hér um tiltölulega umfangsmikið mál að ræða. Framfærslukostnaður fólks er hár og þar af leiðandi má vera að fólk með tekjur sem taldar eru til meðaltekna eigi erfitt með að greiða fullu verði þá aðstoð sem það í raun þarf á að halda. Ég vil benda á hvaða viðmiðun kvennalistakonur ákváðu í sínu frv. um lögfræðiráðgjöf og aðstoð vegna hjúskapar-, sambúðar- og sifjaréttarmála, en þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Rétt til lögfræðiráðgjafar og lögfræðiaðstoðar samkvæmt lögum þessum eiga allir þeir sem eiga lögheimili hérlendis og hafa ekki hærri árstekjur en sem nemur tvöföldum þeim tekjuskattsstofni sem ekki greiðist tekjuskattur af, sbr. ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt. Mæðralaun skulu í þessu tilviki ekki teljast til tekjuskattsstofns. Sá sem hefur barn eða börn á framfæri sínu
hefur enn fremur rétt til að draga frá tekjuskattsstofni upphæð sem svarar til meðlags, barnabóta og barnabótaauka.``
    Með þessu viljum við kvennalistakonur benda á að þær tekjur sem t.d. skattur er heimtur af eru fjarri því að nema því sem þarf til framfærslu fjölskyldu og það er ekki svigrúm til þess að greiða af slíkum tekjum fyrir nauðsynlega aðstoð eins og lögfræðiaðstoð getur verið. Mér þykir full ástæða til að benda á að hér verður að taka afstöðu út frá þeim forsendum og þeim markmiðum sem frv. sem hér er til umfjöllunar hlýtur óhjákvæmilega að hafa.
    Ég hef lítillega borið saman önnur atriði sem eru í þessum tveimur frumvörpum, hliðstæð og ekki hliðstæð. Ég vil benda á að í frv. kvennalistakvenna

er ákvæði í 4. gr. á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Skal lögfræðiaðstoðin miða að því að endanleg niðurstaða eða samkomulag náist í málinu.``
    Hér er beinlínis verið að benda á að þessum málum þurfi að fylgja eftir og jafnframt benda á að í umfangsmiklum málum þarf að gefa tíma og svigrúm til þess að fylgja þeim eftir. Hér er því ekki um einfalt mál að ræða en svo brýnt að nágrannaþjóðir okkar hafa ekki talið rétt að sitja hjá. Það hefur komið fram hér á Alþingi hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndunum og mun ég ekki tíunda það hér í smáatriðum.
    Um aðrar greinar frv. mun ég ekki fjölyrða að svo stöddu. Ég bendi þó á mismunandi útfærslur í þessum tveimur frumvörpum um það hverjum beri að veita annars vegar ráðgjöf og hins vegar aðstoð og ég ítreka að ég teldi eðlilegt að í lögum en ekki reglugerð yrðu skýrari ákvæði, bæði um tekjumörk þau sem höfð eru til viðmiðunar þegar ákveðið er hverjir eigi kost á aðstoð og einnig hver háttur skuli hafður á því að ákvarða upphæð þóknunar fyrir veitta aðstoð, en hér er ég að vísa til 9. gr. frv. til laga um opinbera réttaraðstoð.
    Að öðru leyti mun ég ekki fjalla um þetta mál að svo stöddu en þótti nauðsynlegt að þessar ábendingar kæmu fram og áskil mér rétt til þess ef málið mun fara í áframhaldandi umfjöllun á þessu þingi. Ef ekki, þá verður málið vonandi tekið upp á næsta þingi, svo það dagi ekki uppi. Mun ég þá benda á fleiri atriði. En ég endurtek að þarna er að mörgu leyti um mjög mikilsvert mál að ræða sem vonandi nær fram að ganga.