Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Hér er rætt um frv. til laga um opinbera réttaraðstoð, eins og það er kallað. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að sýna frv. og leggja það hér fram því að sannarlega er hér um mikið mál að ræða, en að sama skapi er löggjöf um þetta efni vandasöm. Aðalatriðið er að einstaklingar glati ekki rétti sínum sökum lítilla efna. En það er jafnástæðulaust að styðja þá sem leggja stund á málaferli, liggur mér við að segja, til þess að iðka þann leik því að það er kunnara en frá þurfi að segja að besta meðferð mála er að sætta þau á réttum tíma, stór og smá.
    Hér hefur þetta mál verið nokkuð rætt. Hv. 3. þm. Reykv. fjallaði um það í ýmsum greinum. Hv. síðasti ræðumaður fjallaði ekki síður um frv. kvennalistakvenna, en eins og málið er búið má að sjálfsögðu margt um það ræða þegar á þessu stigi. Ég ætla ekki að þræða kaflaskiptingu eða greinaskiptingu frv. en aðeins geta þess sem segir hér í athugasemdum, að þetta efni er ekki nýtt af nálinni. Það sýnir best að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Það er nokkuð rakið í athugasemdunum hvenær þessu var fyrst hreyft, bæði getið höfunda og efnisþátta úr frumvörpum. Hér er talað um að skipaður hafi verið haustið 1978 starfshópur til að huga að lagareglum um ókeypis lögfræðiþjónustu við efnalítið fólk. Þetta er nefnilega það sem ég tel að sé hættulegt, að opna flóðgátt þar sem hver sem er getur fengið ókeypis aðstoð. Þó að margt mætti segja um reglurnar sem gilt hafa samkvæmt gömlu einkamálalögunum frá 1936 var það þó skilyrði sem framfylgt var í ráðuneytinu að enginn fékk ókeypis aðstoð nema glöggir menn væru áður búnir að leggja nokkurt mat á málið og væri sýnt að þessi aðili hefði lög að mæla ef svo má segja.
    Á 5. blaðsíðu er rætt um það að hinn 17. apríl 1989 hafi Alþingi samþykkt þál. þar sem það ályktar að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða ákvæði laga um gjafsókn í ljósi fenginnar reynslu með það fyrir augum að auðvelda efnalitlu fólki að ná rétti sínum að lögum. Höfundar er ekki getið hér í athugasemdunum, hins vegar kom það fram hjá hæstv. dómsmrh. En í frv. því sem hér liggur fyrir er reynt að sameina ákvæðið um lögfræðilega aðstoð við almenning, aðstoð við brotaþola og ákvæði um gjafsókn og gjafvörn í einum lagabálki og tel ég það merkilegt út af fyrir sig.
    Um þetta mál mætti margt og mikið ræða þegar á þessu stigi og það er rétt að reglur um réttaraðstoð við tekjulítið fólk er að finna í flestum nágrannaríkjum okkar og hér er á fylgiskjali greint frá því hvernig þessu er hagað á Norðurlöndum og í Bretlandi og er ekki nema gott eitt um það að segja. En þar sem þetta er 544. mál þessa þings og nú líður að síðustu dögum þingsins og það er aðeins lagt fram hér til kynningar, þá tel ég ekki beina ástæðu til að fara um það fleiri orðum að sinni. Ég vil aðeins ítreka það að lokum að ég tel hér um merkilegt mál að ræða, vandasamt mál og þess vegna er mjög gott að

fá að líta á það nánar og til þess gefst tími að því er dómsmrh. hefur greint frá.