Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Málið sem hér er til umræðu fer væntanlega til hv. iðnn. deildarinnar að tillögu hæstv. ráðherra þannig að sá sem hér stendur fær þar tækifæri til að fjalla um þetta mál ítarlegar en hér gefst kostur á við 1. umr. málsins í þessari hv. deild. Málið hefur reyndar verið rætt og afgreitt af hv. Ed. og um málið er víðtæk samstaða eins og kemur fram í sameiginlegu nál. hv. iðnn. Ed.
    Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að full ástæða er til að skera upp sjóðakerfi atvinnuveganna. Það var gert á sínum tíma varðandi sjóðakerfi sjávarútvegsins. Vissulega þarf að þróa sjóðakerfi íslenskra atvinnuvega hraðar og setja því reglur og hlutverk sem hæfir nútímanum sem allra best. Þetta mál, sjóðakerfið, hefur verið til umræðu hjá síðustu hæstv. ríkisstjórnum aftur og aftur. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar og þó sérstaklega á Iðnlánasjóði á sínum tíma, en einnig hafa verið gerðar nokkrar breytingar á öðrum sjóðum. Við höfum fyrir skömmu fjallað um Búnaðarmálasjóð og nokkrar breytingar hafa jafnframt verið gerðar á Fiskveiðasjóði. Eftir stendur þó að löggjafinn hefur ekki skoðað nægilega vel hvernig hann hyggst halda á þessum málum í framtíðinni og kemur þá einmitt sérstaklega til skoðunar hverjir eigi þessa sjóði. Um það hefur verið deilt. Þó er ljóst að flestir lögfræðingar hallast að því að ríkið eigi sjóði eins og Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins með beinum eða óbeinum hætti. Hins vegar hafa verið uppi þær skoðanir og réttlættar með rökum að Iðnlánasjóður sé ekki í eigu íslenska ríkisins heldur þeirra sem greiða gjald til sjóðsins.
    Ég er sammála hæstv. ráðherra um það að ástæða er til að einfalda þetta sjóðakerfi. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á lögum um innlánsstofnanir, viðskiptabanka, sem hljóta að leiða til þess að skoða verður sjóðakerfið upp á nýtt. Sú skoðun verður auðvitað að gerast með hliðsjón af þeirri þróun sem nú er að eiga sér stað í breyttum viðskiptaháttum sem koma til með að gerast í nágrannalöndum okkar og hafa áhrif hér á landi fyrr en varir.
    Það er kannski einkum d-liður 2. gr. sem ástæða er til að fjalla örlítið um og spyrja hæstv. ráðherra út í. Ég skil vel, og tel það augljóslega bestu leiðina, að hlutabréf, lausafé og skuldabréfaeign sjóðsins renni í Iðnlánasjóð og myndi sérstakan sjóð innan vöruþróunar- og markaðsdeildar. Það þarf út af fyrir sig ekki að gerast með breytingu á lögum um Iðnlánasjóð. Samkvæmt þeim lögum er sá sjóður tvískiptur, annars vegar í almennu deildina og hins vegar í vöruþróunar- og markaðsdeildina sem var eins konar arftaki annars sjóðs sem ég man nú ekki alveg að nefna. ( Gripið fram í: Iðnrekstrarsjóðs.) Iðnrekstrarsjóðs, ég horfi nú til eins af fyrrum hæstv. ráðherrum þegar minnst er á hann. Þetta tel ég rétt en þegar sagt er í síðasta málslið þessarar greinar að heimilt skuli að breyta útlánum í hlutafé í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu einstakra

fyrirtækja þá vakna að sjálfsögðu ýmsar spurningar, t.d. þær hvað verði um hugsanleg töp vegna gjaldþrota þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga.
    Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að svo háttar til í núgildandi lögum að þau fyrirtæki sem lána fjármuni rétt eins og Iðnlánasjóður og aðrir slíkir sjóðir, jafnvel fyrirtæki og sjóðir sem sérstaklega eru stofnaðir til þess að kaupa hlutabréf, verða að sætta sig við það, ef skuldum er breytt í hlutabréf, að mega ekki færa til gjalda töp vegna gjaldþrota fyrirtækja. Þetta þarf að skýrast betur í lögum því að ég held að það sé ljóst að sjóði eins og þessum sem við erum hér að leggja af ber að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja. Heppilegast væri að það gæti gerst með þeim hætti að útlánum yrði breytt í hlutafé. Það sem mundi þá hvetja aðila til slíks væri að tapað hlutafé vegna gjaldþrota kæmi til gjalda á rekstrarreikningi viðkomandi aðila.
    Um þetta ræddum við fyrr í dag þegar annað frv. var til umræðu þar sem gert er ráð fyrir að heimilt verði að færa til gjalda það tap sem kynni að verða við gjaldþrot fyrirtækis ef um er að ræða hlutafé sem orðið er til með þeim hætti að viðskiptaskuld sé breytt í hlutafé. Þetta er vandamál sem ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á og tel að hann þurfi að skoða gagngert á næstunni því að þetta hefur þýðingu í þeirri umsköpun sem þarf að eiga sér stað í íslenskum atvinnurekstri einmitt þegar verið er að einfalda sjóðakerfið og freista þess að laga þannig umhverfi atvinnurekstursins og rekstrarskilyrðin að því að fyrirtæki geti starfað sem mest óháð duttlungum ríkisvaldsins á hverjum tíma og afskiptum þess af atvinnustarfseminni.
    Það er einkum ástæða til að nefna eitt atriði til viðbótar nú þegar við erum að ræða frv. sem snertir jafnviðkvæma starfsemi og lagmetisiðnaðinn, sem er mjög háður markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Það er hvort sveiflujöfnunarsjóður, eins og sjálfstæðisþingmenn lögðu til fyrr í vetur, gæti ekki komið að verulegu gagni einmitt fyrir fyrirtæki á borð við þau sem hafa sameinast í Sölusamtökum lagmetis, eins og þessi samtök heita réttu nafni.
    Mig hefði langað til þess að heyra álit hæstv. ráðherra á því. Hæstv. ráðherra hefur oft á tíðum á undanförnum missirum látið í ljós skoðanir sínar á málum sem þessum. Ég tel fulla ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji sveiflujöfnunarsjóði eins og þá sem voru í frv. sjálfstæðismanna ekki einmitt eiga rétt á sér til þess að tryggja það að hægt sé að fresta skattlagningu á fyrirtækjum sem hafa sveiflukennda afkomu og gefa þeim þannig kost á því að geyma fjármuni í góðærum og nýta þá aftur þegar verr árar.
    Aðalatriði þessa máls er auðvitað það að með þessari breytingu er verið að stefna að því að treysta fjárhag þessara fyrirtækja með þeim hætti að þau geti starfað á eigin fótum, án þess að sérstök aðstoð komi frá hinu opinbera önnur en sú sem kemur fram í lögum sem heimila gjaldtöku í Iðnlánasjóð. Þá munu þessi fyrirtæki fá sömu úrlausn úr Iðnlánasjóði og þau

hafa fengið hingað til og önnur iðnfyrirtæki fá.
    Ég tel ekki, virðulegur forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni. Ég skil það svo að allir aðstandendur málsins, bæði stjórnendur Sölusamtaka lagmetis og þau fyrirtæki sem störfuðu innan samtakanna, en a.m.k. eitt stórt fyrirtæki hefur sagt sig úr samtökunum, séu sátt við þessar breytingar, svo og þeir sem koma til með að sinna þessu hlutverki í framtíðinni. Þá á ég við yfirstjórn Iðnlánasjóðs en hér er gert ráð fyrir því að vissir fjármunir gangi til vöruþróunar- og markaðsdeildarinnar og myndi þar sérstakan sjóð, án þess að breytt sé lögum um Iðnlánasjóð. Telja verður það tryggara að skilningur stjórnenda sjóðsins sé fyrir hendi til þess að hægt sé að aðskilja þessa fjármuni, án þess að gengið sé tryggilegar frá því í lögum en gert er í þessu frv.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Það virðist vera allvíðtæk samstaða um málið. Ég veit að það mun fá eðlilega skoðun í nefnd og þess freistað að afgreiða málið áður en þingi lýkur.