Lánasýsla ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er auðvitað ljóst að það er mjög mikilvægt að vel sé fyrir því séð að umsjón með erlendum lánum og lántökum sé svo fyrir komið í ríkiskerfinu að það geri hvort tveggja í senn að tryggja það, eftir því sem hægt er, að þau kjör sem við búum við séu þau bestu sem kostur er á á hverjum tíma og hins vegar að vel sé með því fylgst að okkur Íslendingum takist að standa við skuldbindingar okkar, en þau mál hafa verið í mjög góðu lagi eins og kemur fram í þeim lánskjörum sem við Íslendingar höfum notið á almennum fjármálamarkaði. Þessi fáu orð mín lúta af þeim sökum ekki að þeim hluta málsins heldur vil ég, hæstv. forseti, vekja sérstaka athygli á því að fyrir nokkrum árum þegar Framkvæmdastofnun ríkisins var brotin upp og hún klofin í tvær stofnanir, annars vegar Byggðastofnun sem átti að hafa veruleg umsvif og hins vegar Framkvæmdasjóð, var út frá því gengið að Framkvæmdasjóður yrði mjög lítil stofnun og menn töldu að draga mundi úr hlutverki sjóðsins, það mundi minnka, en verkefni hans færast yfir á aðrar stofnanir.
    Nú hefur það gerst gegn vilja löggjafans að Framkvæmdasjóður hefur hlaðið utan á sig og nú síðast fengum við fregnir af því að hugmyndin sé að ráða sérstakan aðstoðarframkvæmdastjóra fyrir Framkvæmdasjóð og hefur meira að segja verið haft í flimtingum að sá sem það embætti eigi að hreppa sé af fjölskyldu sem vel hefur verið séð fyrir af flokkssystkinum hennar eftir að hinir pólitísku vinir fjölskyldunnar komust til áhrifa og metorða í þjóðfélaginu.
    Nú þarf það ekki að þýða, hæstv. forseti, að þessi fjölskylda sé ekki vel af guði gerð og geti ekki gert þjóðinni gagn og má enginn skilja orð mín svo að ég sé að draga það í efa. Ég er einungis að draga fram að hugmyndin er enn að auka umsvif Framkvæmdastofnunar, gagnstætt því sem löggjafinn ætlaðist til þegar Framkvæmdastofnun ríkisins var lögð niður.
    Nú hefði ég, hæstv. forseti, undirbúið tillögu um það í tengslum við lánastofnun ríkisins að leggja starfsemi Framkvæmdasjóðs ríkisins niður og láta verkefni hans, eftir því sem við á, falla undir Lánasýslu ríkisins ef ég hefði haft tök á og ef mér hefði verið kunnugt um það með lengri fyrirvara að stofnun þessarar sérstöku ríkisstofnunar væri á döfinni. Þó svo að ekki gefist svigrúm til þess nú að flytja um það frv. hér á Alþingi að Framkvæmdastofnun ríkisins verði lögð niður og verkefnum hennar skipt eftir atvikum milli einstakra stofnana, aðallega kannski Lánasýslu ríkisins, sé ég ekki ástæðu til að setja fótinn fyrir það frv. sem við erum að ræða en lýsi þeirri skoðun minni að brýnt sé að Framkvæmdasjóðurinn verði lagður niður til þess að spara opinber útgjöld og koma í veg fyrir að ráðherrarnir hafi svona einhvern prívatsjóð eins og Bör Börsson á sínum tíma átti sinn prívatbanka Öldurdæla sem að vísu var miklu betri stofnun en þeir

prívatsjóðir sem ráðherrar Íslands eru að leika sér að núna.