Ferðamál
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Út af ræðu hv. 4. þm. Suðurl. vil ég gera hv. þingmönnum reglulega ljóst að hér er á ferðinni ansi merkilegt og mikið mál, þessi ferðamálastefna hæstv. samgrh. Mikið plagg bæði að efni til ... (Gripið fram í.) ja, gott plagg bæði að efni til og mikið magn af pappír, en í fyrsta lagi er þetta þáltill. um hvernig skuli framfylgja ferðamálastefnu og fellur því í engu saman við það lagafrv. sem hér er til umfjöllunar og því algjörlega rangt að vera að óska eftir því við hv. deild að þetta frv. verði tekið af dagskrá deildarinnar með tilvísun til þáltill. sem ég var að fjalla um. Það fellur ekki heim og saman, ég vil benda hv. þingmönnum á það, og að nokkru leyti hefur deildin þegar afgreitt þetta mál með því að fella tillögu hv. 4. þm. Vestf. um það að vísa því til ríkisstjórnarinnar. Þar með er eðlilegt að þetta mál gangi sinn rétta veg og verði samþykkt hér í hv. deild og verði síðan sent til neðri deildar til frekari umfjöllunar þar.