Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Frsm. iðnn. (Karl Steinar Guðnason):
    Virðulegi forseti. Það vekur furðu mína að hv. 4. þm. Vesturl. skuli leggjast gegn þessu frv. og tína til hin undarlegustu rök. Það er flestum ljóst að menn hafa í auknum mæli horfið frá ríkisrekstri. Ég tala nú ekki um skoðanabræður hans í Austur-Evrópu sem nú keppast við að koma á öðru formi í rekstri fyrirtækja en ríkisrekstri og mætti hann læra af því. Þær aðstæður sem voru fyrir hendi þegar Sementsverksmiðjan var stofnuð eru náttúrlega allt aðrar en eru í dag. Það liggur alveg ljóst fyrir og þess vegna hefur maður eins og Pétur Ottesen mælt með því að þetta yrði ríkisfyrirtæki. Hann hefur mælt með því vegna þess að stofnkostnaður svona fyrirtækis var það mikill að ekki voru önnur ráð til þess að koma því á fót.
    Það er skoðun mín að sú breyting sem felst í brtt. nefndarinnar breyti ekki því að hægt er að selja hlutabréf verksmiðjunnar ef mönnum þykir ástæða til, en það þarf að bera það undir Alþingi. Það verður ekki gert öðruvísi þannig að sá hemill er fyrir hendi enn þá.
    Ég vil líka geta þess að Akraneskaupstaður kemur til með að hagnast verulega á þessari breytingu. Ég minni á að Akranesbær hefur lægri tekjur en aðrir bæir í landinu og svo mikið lægri að það er með ólíkindum. Þeir búa líka við það að þeir eru með verksmiðju í næsta nágrenni sem greiðir landsútsvar. Mannskapurinn sem vinnur í verksmiðjunni er mestallur frá Akranesi. Akranesbær þarf að leggja götur og byggja skóla og hafa aðra þjónustu fyrir þessa starfsmenn en fær ekki nokkrar tekjur af þessari starfsemi sem mjög væri eðlilegt. Sú mynd sem þar blasir við segir að mínu mati að það beri að endurskoða þau lög sem varða landsútsvar. Ég tel að hreppamörk sem skapa þvílíkt óréttlæti og þarna er þurfi að upphefja eða koma málum þannig fyrir að þær verksmiðjur sem eru í næsta nágrenni leggi eitthvað til í bæjarsjóð sem þarf að útvega alla þá þjónustu sem starfsmenn þurfa á að halda.
    Ég vænti þess að, eins og reyndar í nefndinni, að hv. deildarmenn samþykki þetta frv. Sú skoðun kom hvergi fram hjá umsagnaraðilum að eina breytingin yrði sú að einn ráðherra skipaði alla stjórnina. Það datt engum í hug að ætla að breytingin væri til þess gerð. Mönnum er það ljóst almennt að breyting frá því formi sem nú er skapar sveigjanlegri rekstur og möguleika á að reka fyrirtækið hagkvæmara. Ég vænti þess að það sé skilningur hv. deildarmanna líka.