Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. sagðist hafa metið það út frá ræðu minni áðan að ég mundi vera mótfallinn því frv. sem hér er til umfjöllunar. Ég man ekki eftir því að hafa gefið neinar sérstakar yfirlýsingar þar um. Ég lýsti því aftur á móti yfir að ég teldi að þetta frv. væri óþarft og það breytti litlu sem engu fyrir verksmiðjuna. Þó væri í því tilætlun sem ég felldi mig ekki við, þ.e. möguleikar á því að selja, þó síðar verði, einhvern hluta af eign ríkisins í verksmiðjunni.
    Það er kannski rétt að ég segi það hér í ræðustól að ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessu frv. Ég tel heldur ekki ástæðu til þess að veita því brautargengi með atkvæði mínu. Þess vegna mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið.
    Mér fannst eftirtektarvert það sem hv. 4. þm. Vestf. sagði um þann þátt sem kemur fram í 2. tölul. í athugasemdum við frv. þar sem segir: ,,Skattgreiðslur breytast nokkuð, aðallega að verksmiðjan greiðir aðstöðugjald í stað landsútsvars. Einnig myndi verksmiðjan greiða eignarskatt og hugsanlega tekjuskatt.``
    Hv. 4. þm. Vestf. benti á að til þess að svo mætti verða þyrfti að breyta lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ég tek undir skoðun hv. þm. að með því frv. sem við erum að fjalla um kemur ekkert fram um neina breytingu á skattgjöldum verksmiðjunnar. Í 9. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, III. kafla, um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, segir, með leyfi forseta:
    ,,Landsútsvör greiða eftirtaldir aðilar: a) Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, 5% af hagnaði, b) Áburðarverksmiðja ríkisins, Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, Sementsverksmiðja ríkisins`` o.s.frv.
    Hér er sem sagt svart á hvítu bundið í lögum um tekjustofna sveitarfélaga að Sementsverksmiðja ríkisins greiði landsútsvar. Þar af leiðandi er ekkert að breytast í þeim þætti þó að þetta frv. hér verði að lögum.