Starfsmenntun í atvinnulífinu
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Mikilvægi þessa máls ætti öllum að vera ljóst. Undanfarna áratugi hafa orðið miklar breytingar á atvinnulífinu í heiminum og margt bendir til þess að þær verði hraðari og byltingarkenndari en áður. Þessar breytingar hafa það í för með sér að öll störf og vinnuaðferðir munu breytast og miklar tilfærslur verða á vinnuafli milli atvinnuvega, starfsgreina, verkefna og vinnustaða. Sjálfvirkni og vélvæðing mun hafa það í för með sér að mörg störf munu annaðhvort taka miklum breytingum, þ.e. úreldast, eða ný störf taka við sem gera sífellt auknar kröfur til starfsfólks um endurmenntun. Ef ekki er brugðist við með réttum hætti í tíma er mikil hætta á því að það muni hafa í för með sér versnandi lífskjör og atvinnuleysi hér á landi.
    Þær gífurlegu breytingar sem tæknivæðingin hefur á allt atvinnulíf á komandi árum gera kröfu til þess að tilfærslur eigi sér stað á mannaflanum milli verkefna og atvinnugreina með eðlilegum hætti. Forsenda þess er að starfsfólki sé gert kleift að njóta endurmenntunar og starfsþjálfunar í miklu ríkara mæli en nú er.
    Frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu er afrakstur vinnu sem hefur átt sér stað í félmrn. allt frá árinu 1983. Í kjölfar fjölmennrar ráðstefnu um starfsmenntun í atvinnulífinu sem félmrn. stóð fyrir í nóvember 1987 skipaði ég vinnuhóp sem fékk það verkefni að setja fram tillögur og valkosti um starfsmenntun í atvinnulífinu. Ein meginniðurstaða vinnuhópsins varð sú að það bæri að setja löggjöf um þetta málefni. Í álitsgerð voru síðan talin upp þau atriði sem fjalla þyrfti um í löggjöfinni.
    Í ágúst 1989 skipaði ég síðan nefnd til þess að semja rammalöggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu og jafnframt var skipaður ráðgjafarhópur til að vinna með nefndinni. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar tilnefndir af ASÍ, menntmrn., VSÍ, BSRB og fulltrúi félmrn. var skipaður formaður nefndarinnar. Helstu atriði frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu eru eftirfarandi:
    Í frv. er ítarlega kveðið á um markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu sem er m.a. að stuðla að aukinni framleiðni og greiða fyrir tækninýjungum og framþróun í íslensku atvinnulífi. Einnig að bæta verkkunnáttu og auka hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum o.fl.
    Markmiðum laganna skal m.a. náð með stuðningi við skipulega starfsfræðslu og með frumkvæði og mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Kveðið er á um skipan í stjórnkerfinu og lagt til að starfsmenntun í atvinnulífinu heyri undir félmrn. sem ráðuneyti vinnumála.
    Tillaga er gerð um stofnun starfsmenntaráðs sem úthluti styrkjum til starfsmenntunar og verði stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á sviði starfsmenntunar. Í starfsmenntaráði eiga sæti sjö fulltrúar, þrír fulltrúar samtaka launafólks

og þrír fulltrúar samtaka atvinnurekenda. Félmrh. skipi einn fulltrúa án tilnefningar.
    Tillaga er um að félmrn. safni upplýsingum um starfsmenntun og miðli þeim til hlutaðeigandi aðila. Með því verði stuðlað að betri nýtingu þess
fjármagns sem nú er varið til starfsmenntunar á vinnumarkaði og komið í veg fyrir tvíverknað.
    Aðilum sem fá stuðning samkvæmt lögunum verði skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar um menntun og/eða þjálfun sem boðið hefur verið upp á.
    Framlög hins opinbera til starfsmenntunar í atvinnulífinu verði ákveðin árlega á fjárlögum samkvæmt tillögum félmrh. og renni í ákveðinn sjóð. Það verður því fjárveitingavaldsins að ákveða framlög hins opinbera til starfsmenntunar.
    Af frv. má ljóst vera að ekki er stefnt að uppbyggingu sjálfstæðs starfsmenntunarkerfis að erlendri hugmynd. Þvert á móti er stefnt að fyrirkomulagi sem tekur mið af íslenskum aðstæðum. Í þessu felst að ekki er gert ráð fyrir frumkvæði félmrn. að starfsmenntunarframkvæmdum af þess hálfu. Hins vegar er hugmyndin sú að byggt verði sem mest á því frumkvæði sem ýmsir aðilar hafa tekið á þessu sviði á undanförnum árum. Benda má á starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og ýmsar aðrar sameiginlegar starfsmenntunarnefndir atvinnurekenda og launafólks. Afskipti ráðuneytisins felast í skipun starfsmenntaráðs sem úthluti styrkjum til framangreindra aðila sem verða í raun ábyrgir fyrir framkvæmdinni. Þeir geta valið um það hvort þeir kjósa að standa sjálfir fyrir starfsmenntuninni eða leita til annarra aðila, t.d. skóla eða annarra stofnana sem sérhæfa sig í fræðslustarfsemi.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að starfsmenntaráð verði stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun á þessu sviði. Í þessu felst að starfsmenntaráð verði að fylgjast náið með þróuninni á vinnumarkaðinum og í atvinnulífinu. Á grundvelli þess sem þar er að gerast gerir starfsmenntaráðið tillögur um forgangsverkefni og nauðsynlegt fjármagn til framkvæmda. Það verður síðan á valdi Alþingis að taka afstöðu til fjárveitinga til þessa málaflokks.
    Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að með því fæst yfirlit yfir það sem er að gerast í starfsmenntunarmálum. Eins og áður hefur komið fram eru margir aðilar að fást við þessa hluti og samstarf og samráð er í lágmarki. Oft hendir
það að fleiri aðilar eru að vinna að sama verki, t.d. að semja svipað námsefni með stuðningi opinberra aðila. Með skipun starfsmenntaráðs er stefnt að því að heildaryfirsýn fáist yfir þetta svið þannig að það stuðli að betri nýtingu vinnu og fjármuna.
    Í þriðja lagi vil ég leggja áherslu á að fram kemur í lokaákvæði frv. að lögin skuli endurskoðuð eigi síðar en að fjórum árum liðnum.
    Það er ljóst að hér er um að ræða svið sem verður sífellt mikilvægara fyrir þjóðfélagið allt, atvinnuvegina jafnt sem einstaklinga. Ég er því ekki í nokkrum vafa um að fjármagn það sem til þessa verður varið mun skila sér til baka til þjóðfélagsins með aukinni

framleiðslu og í betra og meira atvinnuöryggi til launafólks.
    Virðulegi forseti. Ég vil í lokin leggja áherslu á að það var samstaða um þetta mál í nefndinni sem um það fjallaði. ASÍ og VSÍ hafa lagt mikla áherslu á framgang þessa máls á yfirstandandi þingi. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.