Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð. Þetta er 508. mál á þskj. 891. Eins og sjá má er frv. í sex greinum. Málið á sér nokkra forsögu sem hv. þm. er væntanlega flestum kunnug. Það nýjasta af því má telja að 8. ágúst sl. skipaði ég starfshóp til að fjalla um hugmyndir og tillögur sem uppi höfðu verið um samgöngur undir eða yfir utanverðan Hvalfjörð. Það varð niðurstaða starfshópsins að nefnd vegtenging um utanverðan Hvalfjörð, á svæðinu frá Hnausaskeri inn undir Hvalfjarðareyri, væri fýsileg framkvæmd. Kostnaður við þetta mannvirki er talinn nálægt 3000--3500 millj. kr. og rekstrarkostnaður 70--90 millj. kr. á ári. Þessar tölur miðast við verðlag í desember sl.
    Þessari tengingu mun fylgja mikil stytting akstursleiða fyrir Hvalfjörð, 45--60 km eftir því hvar tengingin yrði nákvæmlega staðsett. Það er mat starfshópsins, og kemur það heim og saman við fyrri athuganir, að framkvæmdin eigi að vera þjóðhagslega hagkvæm og sömuleiðis líkleg til að hafa mjög jákvæð áhrif á þróun byggðar á Vesturlandi, auk þess sem hún kæmi umferð til annarra landshluta norðan- og vestanverðs landsins og höfuðborgarsvæðisins til góða.
    Vegtengingin um utanverðan Hvalfjörð hefur, eins og kunnugt er, ekki verið tekin inn í áætlanir þær sem gerðar hafa verið um almenna vegagerð í landinu, þ.e. langtímaáætlun og vegáætlun. Hún er heldur ekki inni í röð framkvæmda um jarðgangagerð.
    Eins og fram hefur komið er hér um allmikla og dýra framkvæmd að ræða og því mundi óhjákvæmilega raskast verulega framkvæmdaáætlun samkvæmt vegáætlun ef framkvæmdin yrði fjármögnuð með hefðbundnum hætti, út úr vegáætlun eða af vegafé. Starfshópurinn komst þess vegna að þeirri niðurstöðu, reyndar var það sú hugmynd sem lögð var til grundvallar vinnuhópsins, að vænlegast væri að stofna sjálfstætt félag sem annaðist mannvirkjagerðina og útvegaði fjármagn til framkvæmdarinnar gegn rétti til þess að taka veggjald af umferðinni sem um göngin eða veginn færi og reka fyrirtækið á þeim grunni.
    Frv. það sem hér liggur fyrir er í samræmi við þetta álit starfshópsins, en skýrsla hans fylgir frv. sem fskj. Hygg ég að þar muni menn finna allar helstu upplýsingar um málið. Það er rétt og skylt að taka það fram að í frv. þessu felst engin fjárhagsleg skuldbinding af hálfu ríkissjóðs, hvorki um öflun lánsfjár til framkvæmdanna, veitingu ábyrgða eða annarra slíkra hluta. Slíkt yrði þá, ef til kæmi, síðari tíma mál og sjálfstætt ákvörðunaratriði.
    Ég vísa sérstaklega til bls. 5 og 6 í fskj. þar sem raktar eru helstu niðurstöður starfshópsins, samanteknar í skýru máli og hygg ég að menn verði strax nokkurs vísari með því að fara í gegnum þær upplýsingar.

    Frv. gerir, eins og áður sagði, í 1. gr. ráð fyrir því að ríkisstjórninni sé heimilt að fela sjálfstæðu hlutafélagi, sem stofnað yrði í því skyni, að annast að nokkru eða öllu leyti undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir við vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, svo og rekstur þess mannvirkis um tiltekinn tíma.
    Í 2. gr. segir að til að bera kostnað af framkvæmdinni sé nefndu félagi heimilt að taka umferðargjald af umferð sem um veginn fer og sé það gert á grundvelli ákveðinna samninga sem gerðir yrðu við samgrh. um verkefnið og réttindi til gjaldtökunnar.
    Í 3. gr. er ákvæði um að Vegagerðinni skuli falið eftirlit með gerð og rekstri mannvirkjanna og Vegagerðin skuli sjá til þess að fylgt sé vegalögum og að öllu öðru leyti þannig frá hlutunum gengið að með viðunandi hætti sé.
    Í 4. gr. er kveðið á um að þegar nefndri vegtengingu er lokið skuli vegurinn teljast til þjóðvegakerfisins og falla undir ákvæði vegalaga þar um með þeim undantekningum sem þessi lög fela í sér. Ef ekki náist samkomulag um kaup á landi og efni skuli heimilt að beita eignarnámsákvæðum X. kafla vegalaga sem Vegagerð ríkisins hefur.
    Í 5. gr. segir að nánari ákvæði um gerð, rekstur, tilhögun mannvirkja, gjaldtökutíma og önnur atriði sem þurfa þykir skuli öll vera í samningi sem samgrh. gerir við framkvæmdaaðilana, en slíkur samningur ekki öðlast gildi fyrr en hann hefur hlotið staðfestingu Alþingis. Ég vek athygli á þessu ákvæði. Það var ákveðið eftir nokkra athugun að eðlilegt væri, þar sem um svo stóra og sérstaka framkvæmd væri að ræða, að þannig yrði staðið að málum að fyrst afgreiddi Alþingi, ef það svo vildi, lög sem heimiluðu stofnun fyrirtækisins og allan undirbúning verksins. Síðan skyldi, þegar samningar hefðu verið gerðir og samkomulag náðst um hin einstöku atriði framkvæmdanna og þær væru tilbúnar, slíkt aftur lagt fyrir Alþingi til endanlegrar staðfestingar. Það þarf ekki að taka það fram að hér væri um algert nýmæli að ræða í tilhögun að þessu leyti og er því ekki nema von að menn vilji búa þannig um hnúta að hv. Alþingi geti ásamt ríkisstjórn fylgst mjög vel með málinu og komið að endanlegri ákvörðun þess á lokastigi.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál frekar, virðulegur forseti. Ég hygg að hér sé á ferðinni afar stórt og mikilvægt mál sem varðar miklu fyrir okkar samgöngukerfi og væri mjög æskilegt og ég er þess mjög fýsandi að látið verði á það reyna hvort unnt sé að ráðast í framkvæmdina á þessum grundvelli. Ég tel fyllilega réttmætt og tímabært að gera slíka tilraun. Við horfum upp á það að í ýmsum nágrannalöndum eru mörg stærstu grettistökin í samgöngumálum einmitt leyst með þessum hætti, þar sem aðstæður eru þannig að þær bjóða upp á arðbæra fjárfestingu í samgöngumannvirkjum sem geta með þessum hætti rentað sig sjálf og séð um sig sjálf.
    Það kann ýmsum að koma það nokkuð á óvart að ég sem sósíalisti skuli mæla fyrir þessu máli. Ég hef

lítillega orðið var við það að mönnum finnst það eitthvert stílbrot af minni hálfu en ég tel nú síður en svo vera. (Gripið fram í.) Málið snýst nú ekki um það, hv. frammíkallandi, heldur tel ég að hér sé ósköp einfaldlega á ferðinni mál sem skynsamleg rök mæla með og sem betur fer er það nú ekki svo að sósíalisminn sé í andstöðu við skynsemina heldur þvert á móti fer þetta mjög gjarnan saman og þess vegna, að vandlega athuguðu máli, tel ég að það sé ekki bara réttlætanlegt og réttmætt heldur tímabært að við látum á það reyna hvort við gætum nýtt okkur þessa aðferð þar sem það á við, þar sem aðstæður eru fyrir hendi til að láta á slíkt reyna til hliðar við þær framkvæmdir í okkar almenna samgöngukerfi sem við ráðumst í á grundvelli vegáætlunar með hefðbundnum hætti.
    Að sjálfsögðu þarf ekki að taka það fram að opinberir aðilar þurfa að búa þannig um hnútana að tryggt sé að bæði gæði framkvæmdarinnar og hvernig að henni verði staðið og rekstrinum háttað á allan hátt samræmist þeim kröfum sem við gerum til samgöngumannvirkja og umferðarinnar.
    Hér vill svo vel til að aðhaldið kemur í raun og veru af sjálfu sér í gegnum þá staðreynd að umferðin mun að sjálfsögðu velja sér þann kost í þessu tilviki sem hagkvæmari telst, þ.e. menn eiga val um að nýta sér þessa leið undir, yfir
eða um utanverðan Hvalfjörð ef til kemur, ellegar keyra hringinn. Sé ég því ekki annað en það sé nokkuð vel fyrir því séð og nokkuð tryggt að ekki verði unnt að standa öðruvísi að rekstrinum en þannig að hagkvæmara sé fyrir menn að nýta sér vegtenginguna, ellegar fara menn krókinn og mundu þá þeir sem að rekstri fyrirtækisins stæðu missa af þeim viðskiptum. Sýnist mér þess vegna í raun og veru að eftirlitsaðilinn sé vegur fyrir Hvalfjörð með bundnu slitlagi og þurfi ekki mikið meira um það að fjalla.
    Virðulegur forseti. Tímans vegna ætla ég ekki að hafa þessi framsöguorð mín fleiri. Ég hefði út af fyrir sig gjarnan viljað fara ítarlegar yfir ýmsa þætti þessa máls, en mér er mikið í mun að það komist áleiðis til nefndar þannig að það fáist þar tekið fyrir og skoðað. Ég ætla þess vegna ekki að eyða öllu fleiri orðum að málinu á þessu stigi, en vil að lokum segja það eitt vegna þess að þess hefur auðvitað nokkuð gætt að kappsamir menn, sem gott er nú að hafa á meðal vor, hafi viljað keyra málið hraðar fram en raun hefur orðið á: Hér er þrátt fyrir allt það stórt og vandasamt mannvirki á ferðinni, sérstaklega ef um yrði að ræða jarðgöng í bergi undir fjörðinn, sem væri auðvitað alger nýbreytni í framkvæmdum hér í landinu, að það er óhjákvæmilegt og það er mat allra fagaðila sem að þessu hafa komið, sérstaklega auðvitað Vegagerðar ríkisins, að það sé tvímælalaust nauðsynlegt að vanda mjög til alls undirbúnings verksins. Þess er enn fremur að gæta að þeim mun vandaðri sem undirbúningurinn er og traustari, þeim mun líklegra er að tilvonandi félagi reynist það auðveldur leikur að finna fjármögnunaraðila sem öðlast þá tiltrú á

verkefninu að þeir séu tilbúnir til að leggja því lið. Þess vegna held ég að þar fari saman hagsmunir allra, að vandað sé til undirbúnings verksins og þeim mun líklegra sem það er betur gert.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég svo til að málinu verði vísað til hv. samgn. deildarinnar.