Héraðsskógar
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um héraðsskóga sem er 547. mál á þskj. 944. Frv. þetta er fram komið í framhaldi af þáltill. sem samþykkt var hér á Alþingi í maímánuði 1988. Þar var landbrh. falið af Alþingi að láta semja tíu ára áætlun um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði og skyldi áætlunin m.a. taka til ræktunar nytjaskóga og viðhalds og hirðingar skóglendis sem fyrir er. Í sömu tillögu var reyndar að því vikið að undirbúa skyldi flutning aðalstöðva Skógræktar ríkisins austur á Fljótsdalshérað. Ég skýt því hér að í leiðinni til þess að gleðja hv. alþm., sem kunna að hlýða á mál mitt, að í þessu tilviki hefur vilji Alþingis náð greiðlega fram að ganga því að nýjar höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins tóku til starfa 1. jan. á Fljótsdalshéraði. Hér er þá má segja seinni hlutinn af þessari tillögu Alþingis kominn fram í frumvarpsformi. Í millitíðinni hefur það svo gerst að ríkisstjórnin samþykkti á fundi 27. maí 1989, ágætum fundi sem ríkisstjórnin hélt á Þingvöllum, að hrinda í framkvæmd stórátaki í ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði sem miði að því, eins og segir í nefndri samþykkt, með leyfi forseta: ,,að fullnýta skógræktarland þar á næstu 40 árum``. Ríkisstjórnin samþykkti enn fremur að verja 12 millj. kr. til undirbúningsvinnu og byrjunarframkvæmda svo sem kortlagningar, áætlanagerðar, undirbúnings, plöntuframleiðslu og hirðingar skóglendis og fleira á því sama ári, þ.e. á árinu 1989 og var veitt aukafjárveiting í þessu skyni.
    Strax í framhaldi af áðurnefndri samþykkt var haldið áfram vinnu sem reyndar hafði þegar verið í gangi til undirbúnings á framkvæmd þessarar ályktunar Alþingis frá 1988. Það var hafin vinna og sérstök verkefnisstjórn var þá komin til starfa. Ráðinn var starfsmaður í ágústmánuði til að gera tillögur um fyrirkomulag þessa skógræktarátaks sem fékk svo í framhaldinu vinnuheitið héraðsskógar eða héraðsskógaáætlun og hefur það heiti haldist hér á lagafrv.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um þá vinnu því að menn sjá hennar stað, bæði með því að kynna sér betur fskj. sem hér eru allítarleg og sömuleiðis lesa athugasemdir við lagafrv.
    Það má segja að höfuðmarkmið þessarar áætlunar sé að gera í raun og veru fyrstu alvörutilraunina, ef ég má leyfa mér að kalla það svo, til nytjaskógræktar á Íslandi í stórum stíl. Ég held, með fullri virðingu og reyndar mikilli virðingu fyrir brautryðjendastarfi skógræktarmanna sem unnið hefur verið það sem af er þessari öld, sem er nú reyndar langt komin, að tæplega sé hægt að tala um að alvörutilraunir til nytjaskógræktar í stórum stíl flokkist þar undir. Hér er auðvitað um að ræða verk af allt annarri stærðargráðu og er þar sótt fyrirmynd í raun til þeirra skógræktarverkefna og átaksverkefna sem menn hafa nú í 100--200 ár framkvæmt í nálægum löndum.
    Þannig háttar til á Fljótsdalshéraði um þessar

mundir að það er mikill samdráttur í hefðbundnum búskap þar á svæðinu, sérstaklega í sauðfjárrækt, m.a. vegna niðurskurðar, og það ásamt með ýmsu fleiru varð til þess að auka áhuga manna á því að reyna að hrinda í framkvæmd slíku skógræktarátaki sem gæti þá að hluta til verið búháttabreyting. Reyndar gerir frv. ráð fyrir því að þeir sem láta af sauðfjárrækt og snúa sér að skógrækt njóti nokkurs forgangs í verkefnin.
    Menn kunna að spyrja hvers vegna Fljótsdalshérað sérstaklega verður fyrir valinu. Því er til að svara að þar er lengri og meiri reynsla af skógrækt með nytjatrjátegundum en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Menn hafa fyrir sér, einkum og sér í lagi í lerkiskógum á Hallormsstað, sannanlega reynslu fyrir því að trjávöxtur og viðgangur allur er með þeim hætti á Héraði, þar sem skógræktarskilyrðin eru best, að mjög vel viðunandi er og telst í góðu meðallagi miðað við vöxt á sambærilegum breiddargráðum í nágrannalöndunum, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, þar sem skógrækt er stunduð með ágætum árangri. Það er þess vegna næsta sjálfgefið í ljósi þessarar reynslu og þeirrar vitneskju sem þar er saman komin að Fljótsdalshérað verði fyrir valinu sem fyrsta héraðið, ég undirstrika það, sem fyrsta héraðið þar sem menn fara út í nytjaskógræktarátak í stórum stíl.
    Þess er rétt að geta að í mörgum öðrum landshlutum þar sem skógræktarskilyrði eru góð eru þegar í gangi minni átök. Má þar nefna nytjaskógrækt bænda í Eyjafirði þar sem 40--60 bændur taka þátt í nokkurri gróðursetningu og einnig í uppsveitum Suðurlands og í Borgarfirði.
    Það er von mín, og ég vil láta það koma fram við þessa umræðu, að þetta geti orðið ekki eina heldur fyrsta af mörgum sambærilegum átaksverkefnum sem ráðist verði í á næstu árum og áratugum á bestu fjórum eða fimm landsvæðunum.
    Ég hvet svo hv. þm. til þess að kynna sér þau fskj. sem fylgja frv. vegna þess að það yrði of langt mál að fara að rekja allt sem í þeim felst. Þar er nokkuð rækilega gerð grein fyrir þeirri hugsun sem að baki frv. og verkefninu hvílir. Þar eru ítarlegar og verulega mikið unnar kostnaðaráætlanir fyrir skógræktarátakið, bæði tíu ára tímabil þess, en það er hugsunin að skipta því
upp í fjögur slík tímabil, og einnig heildartímann, 40 ára fjárhags- og framkvæmdaáætlun, á fskj. III.
    Þá er og aftast í fskj. sýnishorn af samningi eins og frv. gerir ráð fyrir að gerður yrði milli einstakra þátttakenda í skógræktarátakinu og landbrn. eða Héraðsskóganna sem síðan yrðu verkefni sem slík og yrðu síðan staðfestir af landbrn.
    Um arðsemisútreikninga og líklegan afrakstur skógræktarverkefnisins kunna menn að spyrja. Því er til að svara að í raun og veru hafa ekki verið gerðar mjög ítarlegar rannsóknir á slíku hér á landi. Þó hygg ég að í tvígang a.m.k. hafi verið gerð allheiðarleg tilraun til þess að meta mögulegan afrakstur og afkomu í nytjaskógrækt hér á landi. Í fyrra skiptið var það um 1970, áður en farið var í skógrækt í

samráði við og af bændum á Fljótsdalshéraði. Mun það hafa verið nefnd Fljótsdalsáætlun eða eitthvað því um líkt. Síðan var það aftur upp úr 1980 að gerð var allítarleg rannsókn af hálfu Skógræktarinnar og Háskóla Íslands um mögulega arðsemi og afrakstur í nytjaskógrækt og var það hliðarverkefni í því starfi sem svonefnd framtíðarkönnunarnefnd forsrn. stýrði um þær mundir. Þessar tvær skýrslur liggja fyrir og er auðvelt að útvega mönnum þeim sem áhuga hafa á og vilja reyna að kynna sér mögulega afkomu í þessari grein hér á landi.
    Síðan er það að sjálfsögðu þannig og liggur í hlutarins eðli, þar sem hér er um langtímafjárfestingu að ræða, að markaðsaðstæður þá og þegar hljóta auðvitað að endingu að ráða mestu um það hver afraksturinn verður. Það hygg ég að flestum muni reynast nokkuð erfitt að spá nákvæmlega fyrir um hvernig markaðsverð á timbri eða pappír verði að þeim 40--60 árum liðnum þegar þessir skógar sem nú yrði gróðursett til færu að skila umtalsverðum afrakstri.
    Við höfum í raun kannski ekki mikið annað á að byggja en það að vaxtarhraðinn og framgangur skóganna hér á að geta verið í góðu lagi borið saman við það sem gerist í ýmsum nálægum löndum þar sem menn eru í óða önn að gróðursetja og ætla þá væntanlega að út úr því geti komið sæmilega ábatasamur atvinnuvegur.
    Eitt verða menn þó að hafa í huga og því verða menn í raun og veru að sýna skilning, að það sem verið er að gera hér og er auðvitað verið að gera nánast alls staðar þar sem gróðursett er á Íslandi, að við erum að koma upp bústofninum, ef svo má að orði komast. Það er auðvitað sitt hvað, annars vegar skógrækt sem er í fullum gangi og jafnvægi og þarf ekki á öðrum tilkostnaði að halda en þeim að endurnýja sífellt það sem tekið er út og hins vegar það verkefni að búa til fyrstu kynslóð skóganna. Þar er auðvitað um hina upphaflegu fjárfestingu að ræða en við vonumst síðan til þess að þegar það er komið í gang og í jafnvægi þá geti menn rekið skógræktina sem ábatasama atvinnugrein þegar ekki er um meiri tilkostnað að ræða en þann sem nemur endurnýjun þeirra skóga sem höggnir eru á hverjum tíma.
    Ef ég leyfi mér svo í lokin, virðulegur forseti, að renna kannski aðeins yfir frumvarpstextann sjálfan, þá er í raun og veru ekki margt um það að segja umfram það sem ég hygg að ég hafi skýrt í mínu framsögumáli þó að auðvitað geti vaknað fjölmargar spurningar og okkur mundi sjálfsagt ekki endast nóttin ef við vildum ræða þær allar til þrautar.
    Í 1. gr. er vikið að því, sem eðlilegt má telja, að tilgangur laganna sé að stuðla að þessari ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og að verkefnið skuli vera sjálfstætt skógræktarverkefni. Um það er mikil samstaða að heppilegast sé að haga því svo að hér sé á ferðinni sjálfstætt verkefni sem tengist bændum og heimamönnum á héraði sérstaklega, en sé í samvinnu við Skógrækt ríkisins og landbrn.
    Í 2. gr. er vikið að stjórn verkefnisins og er hún að

sama skapi hugsuð þannig að Félag skógarbænda á Fljótsdalshéraði, Skógrækt ríkisins og landbrn. tilnefni þar menn.
    Í 3. gr. að gera skuli sérstaka áætlun sem reyndar liggja þegar fyrir drög að hér í fskj. og skuli áætlunin ná yfir 40 ár og skiptast í fjögur tíu ára tímabil. Einnig er í 3. gr. vikið að þeim samningum sem verkefnið gerir við einstaka þátttakendur og landbrh. skal staðfesta. Það þótti eðlilegt að láta sýnishorn af hvernig þeir gætu litið út fylgja frv. þessu.
    Í 4. gr. er kveðið á um kostnaðarþátttöku ríkissjóðs og er hún þannig að ríkissjóður greiði undirbúnings- og rekstrarkostnað verkefnisins, laun stjórnar og fastra starfsmanna og enn fremur að fullu samþykktan kostnað við skógrækt á jörðum í ábúð og 80% á eyðijörðum. Þessi skógræktarkostnaður skal sérstaklega metinn af ráðuneytinu að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins og að sjálfsögðu ekki greiddur neinn sá kostnaður sem fer út yfir þann er samþykktur er.
    Í 5. gr. er kveðið á um það að af heildarframleiðsluverðmæti trjáviðar sem úr skógum kemur, þ.e. af brúttóframleiðsluverðmætinu skuli allt að 5% lögð á svonefndan endurnýjunarreikning og þeim fjármunum skuli innan fimm ára frá skógarhögginu varið til endurnýjunar skóglendisins á viðkomandi jörð. Þetta gjald skuli síðan nánar ákveðið í reglugerð með hliðsjón af raunverulegum
kostnaði við endurnýjun skóglendisins eins og hann verður á hverjum tíma. Hér er í raun og veru fylgt fordæmi frá hinum Norðurlöndunum. Þar er einmitt farið svo að að ákveðin prósenta af heildarframleiðsluverðmætinu er tekin frá til þess að endurnýja sífellt skóginn.
    Í öðru lagi er í 5. gr. gert ráð fyrir því að ríkissjóður fái í sinn hlut 15% af hreinum hagnaði sem af nýtingu skógarins leiðir á hverjum tíma og skuli því fé varið til ræktunar nýrra skóga. Þannig kæmi í hlut ríkisins nokkuð af þeim hagnaði sem vonandi leiðir af nýtingu skóganna. Er það í raun ekki nema eðlilegt vegna þess framlags sem ríkið leggur til í upphafi og mætti það þá verða, þegar þar að kemur, til þess að styrkja skógrækt enn frekar í landinu.
    6. til og með 10. gr. fjalla svo um atriði sem eru næsta sjálfsögð að ég tel, um ábúendur, um stjórn, samráð við Skógrækt ríkisins, um ársskýrslu og ársreikninga og þvíumlíka hluti sem ég tel ekki mikla ástæðu til að fjölyrða um.
    Að lokum er svo ákvæði til bráðabirgða og felur það í sér heimild til að veita allt að 15 millj. kr. til plöntuuppeldis og fleiri verkefna til viðbótar því fé sem á fjárlögum er á þessu ári. Því er til að svara að þeirra sjónarmiða gætti nokkuð í meðförum fjvn. á málinu að meiri upplýsingar þyrftu að liggja fyrir áður en fjárveitingavaldið treysti sér til að verja meira fé en gert er ráð fyrir á fjárlögum í það. Sömuleiðis þyrfti m.a. að sjá fyrir lagalegum atriðum, sem augljóslega þurfa að koma til, vegna þess að hér er um verkefni að ræða sem kallar á nokkuð öðruvísi

lagaákvæði en gildandi skógræktarlög gera mögulegt, enda eru þau nokkuð komin til ára sinna og vantar reyndar sárlega á þeim þá heildarendurskoðun sem í tvígang eða þrígang hefur verið gerð tilraun til að framkvæma.
    Virðulegur forseti. Ég læt þá lokið framsöguræðu minni. Ég tek það fram að við þetta verkefni eru bundnar miklar vonir og miklar væntingar á Fljótsdalshéraði meðal skógræktarmanna og reyndar fjölmargra fleiri sem binda vonir við að það geti orðið ákveðin lyftistöng, ákveðinn fáni við hún og gefið mönnum tiltrú á það að áratuga gamlir draumar og miklar umræður um að gera alvöru úr áformum um eiginlega nytjaskógrækt í landinu komist nú loksins myndarlega af stað. Það má fjölmargt fleira til tína sem rök fyrir því að standa þannig að málum og reyna að ráðast í þetta verkefni en ég hygg að ég geymi mér að flytja þau þangað til og ef eftir þeim verður sérstaklega óskað, en treysti því að hv. alþm. séu bæði vel upplýstir og velviljaðir því þjóðþrifamáli sem það er að koma skógræktinni betur á legg í landinu.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.