Héraðsskógar
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Það er í sjálfu sér lofsvert og af hinu góða ef menn vilja stuðla að aukinni ræktun skóga og því að græða landið og raunar stendur nú yfir sérstakt átak í ræktun landgræðsluskóga, lofsvert átak sem hefur verið ágætlega kynnt og virðist vel staðið að. Hér er um í eðli sínu gott mál að ræða, en hins vegar er það auðvitað álitamál hvernig að er staðið og hvaða aðferðir og skipulag menn setja sér. Ég verð að játa það að við lestur og athugun þessa máls vöknuðu í mínum huga mjög margar spurningar. T.d.: Er þörf á sérstakri löggjöf um þetta atriði? Hefði ekki mátt ná þessu markmiði með reglugerð?
    Fyrir einhverjum dögum hafði samband við mig maður sem kynnti sig sem framkvæmdastjóra Héraðsskóga. Af því dreg ég þá ályktun að það sé búið að koma hér á laggirnar þessari stofnun, nýrri ríkisstofnun undir landbrn., og satt að segja var mér ekki ljóst að slíkt hefði verið samþykkt. Sú spurning vaknaði hjá mér hvers vegna þetta væri takmarkað við Fljótsdalshérað. Það eru mjög góð skilyrði til skógræktar á mörgum stöðum öðrum, t.d. í Haukadal á Suðurlandi, í Borgarfirði, mjög víða, sem ég hefði nú kannski átt að nefna á undan.
    Ég tek það fram að ég er ekki að ætlast til eða biðja um að ráðherra svari þessum spurningum mínum núna. Það er orðið áliðið og ég geri enga kröfu til þess að hann svari þessum spurningum. Ég er aðeins að nefna þær vegna þess að ég held að það skipti máli í umfjölluninni um þetta mikilvæga mál.
    Ég spurði hvers vegna þetta væri takmarkað við Fljótsdalshérað og það má spyrja þá aftur: Hvers eiga Suðurland, Borgarfjörður og Norðurland að gjalda? Ráðherra svaraði þessu raunar að nokkru leyti í framsöguræðu sinni. Og það vaknar líka sú spurning að ef gert verður ráð fyrir svipaðri starfsemi í öðrum landshlutum, verða þá líka settar upp sérstakar stofnanir til að annast hana? Þetta vekur upp spurningar um framtíðarhlutverk Skógræktar ríkisins sem
er mikilvæg stofnun sem lengi hefur starfað. Í 1. gr. frv. stendur að tilgangur laganna sé að stuðla að ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir. Ég hélt að það væri í umsjá Skógræktar ríkisins og raunar er þetta mjög einkennileg setning vegna þess að það er ekkert annað að finna í frv. um þetta efni, eða ég hef ekki getað fundið það, umhirðu þess skóglendis sem fyrir er. Það er mikilvægt verkefni og ég var satt að segja þeirrar skoðunar að því væri ágætlega sinnt af hálfu Skógræktar ríkisins, t.d. á Hallormsstað og þar í kring.
    Í 3. gr. er talað um að gera sérstaka áætlun, Héraðsskógaáætlun, um nýtingu þess lands sem vel sé fallið til skógræktar á Héraði. Ég sé ekki að fram komi hver á að gera þessa áætlun. Er það þetta nýja ríkisfyrirtæki, Héraðsskógar, þetta nýja ríkisfyrirtæki sem búið er að setja á laggirnar og ég hef efasemdir um að hafi verið nauðsynlegt? Hv. fulltrúi Sjálfstfl. sem talað hér áðan var þessu mjög hliðhollur, heyrðist

mér, en ég hef miklar efasemdir um að það þurfi að setja á stofn sérstakt nýtt ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnun til að hrinda þessu verkefni í framkvæmd. Ég held að það megi gera að öðrum leiðum.
    Í 5. gr. frv. er talað um 5% af heildarframleiðsluverðmæti trjáviðar. Nú ætla ég ekki að gera þá tölu að umtalsefni en ég ætla bara að vekja athygli á því að í athugasemdum við 5. gr. er talað um 5% af heildartekjum og ég held að við þurfum ekki að hafa um það mörg orð, hæstv. landbrh., að heildarframleiðsluverðmæti og heildartekjur eru ekki sama hugtakið. Það er tvennt ólíkt. Ég held að það væri alveg nóg í þessu efni og nægilegt ef hver bóndi sem rækar nytjaskóg er einfaldlega skuldbundinn til að endurnýja þann skóg sem er höggvinn. Þá þurfi ekkert svona ákvæði.
    Þá vaknar líka spurning þegar sagt er að 5% skuli lögð á endurnýjunarreikning í vörslu Héraðsskóga. Venjan er sú að slíkir reikningar eru í vörslu banka eða peningastofnana. Ég bendi bara á þetta. Ég held að líka sé vafasamt að setja reglur um skatt af skógarhöggi. Hæstv. ráðherra nefndi hér lerkirækt sem sérstaklega ábatavænlega og ef við erum að tala um skatt af nytjaskógum úr lerki, þá erum við að tala um skatt sem verður lagður á kannski eftir hálfa öld í fyrsta lagi, miklu frekar þó eftir 70--80 ár. Ég held einfaldlega að það sé hvorki rétt eða raunhæft að vera að gera áætlanir um skattlagningu svo langt fram í tímann. Þó að við höfum vissulega skattaglaða ráðherra og ríkisstjórn held ég að þetta sé fulllangt gengið.
    Mér hefur verið bent á að ákvæði um forgang bænda að vinnu á vegum Héraðsskóga kunni að rekast á við ákvæði í vinnulöggjöfinni. Um það skal ég ekkert fullyrða. Það er atriði sem ég mun mælast til að verði athugað sérstaklega í nefnd eins og aðrar þær spurningar sem komu mér í hug við lestur málsins og ég ítreka að ég er ekkert að heimta nein svör eða biðja um nein svör við þeim nú við þessa umræðu. Mér finnst eðlilegt að um það verði fjallað í nefnd.
    Í skýringum við ákvæði til bráðabirgða kemur fram að reisa eigi gróðurhús og er talað um 15 millj. kr. fjárveitingu þar. Ég hafði einhvern veginn á tilfinningunni að það mál hefði ekki verið afgreitt endanlega í fjvn., en vera
má að þar sé ég ekki nægilega kunnugur hnútum, en ég spyr: Hver á að reisa og reka þessi gróðurhús og hvar eiga þau að vera? Það er ekkert um það hér í þessum plöggum eða a.m.k. tókst mér ekki að finna það.
    Og svo spyr ég líka: Nú á að láta mjög mikið fé renna til þeirra bænda sem hefja þessa starfsemi, en ég get hins vegar ekki séð að þeim séu lagðar neinar kvaðir á herðar með þessum lögum og ég sé ekki að það sé neitt sem kemur í veg fyrir það t.d. að bóndi sem hefur tekið þátt í þessu í 10 ár og er búinn að koma upp vísi að skógi geti einfaldlega skipt um skoðun og ákveðið að selja þetta land undir sumarbústaði sem væri áreiðanlega mjög fýsilegur kostur í þessu fallega héraði. Mér sýnist að í frv. sé

ráðherra líka gefin mjög rúm heimild til að skuldbinda ríkið með samningum og ég dreg í efa að við höfum góða reynslu af því fyrirkomulagi. Það er ljóst, eins og fram kom í ræðu ráðherra hér áðan, að samdráttur hefur orðið í hefðbundnum búskap á Héraði, en er það víst og er það tryggt að bændur sem fara út í ræktun nytjaskóga muni hætta hefðbundnum búskap?
    Önnur ábending sem ég held að ástæða sé til að íhuga er hvað verður um gróðrarstöðvar sem nú kunna að vera t.d. á Austurlandi og eru í einkaeign með tilkomu þessa. Ég veit að þeir menn eru til sem halda því fram að þær muni fara lóðbeint á hausinn einfaldlega vegna þess að þær hafi enga stöðu til að keppa um plöntusölu við þetta.
    Annað kom mér í hug við lestur málsins, sem hefur verið í fréttum núna að undanförnu. Komið hefur fram að það er mjög erfitt ef ekki ógerlegt að verja skóg í uppvexti fyrir hreindýrum sem sækja mjög í byggð og sækja í skógarplönturnar og valda miklum spjöllum. Hreindýrum halda engar girðingar, ég tala nú ekki um þegar snjór er yfir landinu og girðingar kannski meira og minna á kafi. Þetta er staðbundið vandamál í þessum landshluta. Þetta er vissulega vandamál og mér leikur nokkur forvitni á að vita hvernig menn ætla að bregðast við þessu. Ég held að eitt af því sem þurfi að gera sé að fækka hreindýrunum til að vernda þann skóg sem er í uppvexti á þessum slóðum. Ég held að það sé raunar orðið mjög brýnt.
    Annað atriði kemur mér í hug sem ég minntist á hér áðan: Hvernig tengist þetta þessu sérstaka átaki sem nú er verið að gera um landgræðsluskóg og verið er að hleypa af stokkunum? Eða er engin tenging þarna á milli? Og hvert er hlutverk Skógræktar ríkisins í þessu? Hvers vegna er þetta bara ekki á vegum Skógræktar ríkisins?
    Það er fjarri mér, virðulegur forseti, að tefja þetta mál með nokkrum hætti. Ég held að það sé margt gott um þá hugsjón og þann tilgang sem er að baki frv. og það markmið. Ég geri ekki minnsta ágreining um það og styð það heils hugar. Ég hef hins vegar, verð ég að játa, verulegar efasemdir um þá framkvæmd sem hér er ráð fyrir gert og held að menn þurfi að verja nokkrum tíma til þess að leita annarra leiða til að gera þetta, liggur mér við að segja, með einfaldari hætti en hér er ráð fyrir gert.