Umferðarlög
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Það hefur stundum kostað harðar deilur hér á Alþingi þegar rætt hefur verið um notkun bílbelta. Í þessari deild, þegar horft er til baka, hafa þingmenn haft frumkvæði í þessum efnum og a.m.k. einu sinni voru hér samþykkt ákvæði um notkun bílbelta en síðan felld í hv. Nd. Ég tel að þetta sýni að hér hafi menn ríkan skilning á mikilvægi þessa máls. Bílbeltin hafa löngu sannað gildi sitt, notkun þeirra er óumdeild, hún er mikil slysavörn og það er tvímælalaust tímabært að stíga það skref nú að lögleiða skyldunotkun bílbelta í aftursætum, og þess vegna er þetta tímabært frv. sem við eigum að keppa að að samþykkja nú á þessu þingi.