Áfengislög
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Flm. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt nokkrum hv. þm. í þessari deild að flytja frv. til laga um breytingu á áfengislögum. Það er endurflutt. Málið var einnig flutt í fyrra, er nú flutt með nokkurri breytingu. Efni þess er það að Áfengisverslun ríkisins skuli að höfðu samráði við landlæknisembættið og Umferðarráð merkja allar umbúðir undir áfengi sem selt er hér á landi með viðvörun þar sem fram kemur að áfengisneysla barnshafandi kvenna geti valdið fósturskaða og að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman.
    Um það leyti sem frv. var flutt hér á þinginu í fyrra komu fram nýjar upplýsingar um skaðsemi áfengisneyslu fyrir barnshafandi konur. Flm. gat þess þá í framsögu að eðlilegt væri að viðvörun um þessa hættu yrði einnig á áfengisumbúðum, ekki bara um akstur og áfengisneyslu.
    Í Bandaríkjunum var á döfinni og er á döfinni að taka upp slíkar merkingar á öllu áfengi sem selt er þar í landi, þ.e. vara við hættu á fósturskemmdum hjá barnshafandi konum. Ég hef gert ráðstafanir til að afla mér upplýsinga um stöðu þess máls í Bandaríkjunum en til stóð að þetta yrði gert frá og með 1. nóv. á síðasta ári. Ég hef grun um að það hafi ekki verið gert þá og málinu hafi verið frestað en því miður hafa ekki enn borist þær upplýsingar sem ég hef lagt drög að að afla um þetta efni en væntanlega berast þær til hv. nefndar. Ég tel að hér sé um brýnt mál að ræða. Við höfum tekið ákvörðun um að merkja tóbaksumbúðir með hættuaðvörun. Það er að vísu deilt um gagnsemi slíkra hluta en ég held að þetta sé rétt og ég held að þetta hafi áhrif og ég held að það sama eigi að gilda um áfengi, einkanlega með tilliti til þess að vísindarannsóknir hafa leitt í ljós með óyggjandi hætti að áfengi sem konur neyta á meðgöngutíma veldur fósturskemmdum og skaða.
    Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.