Stjórnarfrumvarp um áburðarverð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Farið er fram á að leyfa umræðu um mál sem útbýtt var í deildinni í gær. Það er svo sem engin nýlunda að afbrigða sé leitað og að afbrigði séu leyfð fyrir því að mál megi koma fyrir sem of seint eru fram komin. Það gerist oft í sambandi við þingmál þegar sérstaklega stendur á.
    Nú er staðan sú að skammt er til þinglausna og eru 15 dagar liðnir frá því að leggja mátti fram þingmál ef þau ættu að koma til umræðu eða afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Ástæða fyrir þeirri beiðni ríkisstjórnarinnar um að þetta mál á dagskránni megi koma til umræðu er sú að ríkisstjórnin varð of sein til að leggja frv. fram. Hæstv. ríkisstjórn hefur það svo væntanlega sér til afsökunar að hún sá ekki fyrir þá ákvörðun sem stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins tók varðandi áburðarverðið. Það er auðvitað rétt að hún sá ekki þá ákvörðun stjórnarinnar fyrir.
    Ég ætla að taka fram að ég læt það afskiptalaust hvort þessi afbrigði verða veitt. Efnisleg rök fyrir þessu eru engin önnur en þá þau að hæstv. ríkisstjórn unir ekki þeirri niðurstöðu sem þingkjörin stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins komst að. Það er út af fyrir sig alvarlegt mál þegar hæstv. ríkisstjórn unir ekki ákvörðun þingkjörinnar stjórnar en ég ætla ekki að ræða það núna. Það gefst auðvitað tækifæri til þess við efnislega umræðu um málið sem væntanlega fer fram hér á eftir. Ég bendi hins vegar á að
þegar hæstv. ríkisstjórn er að koma með mál hér á síðustu dögum þingsins og það deilumál, þá hlýtur það að hafa áhrif á afgreiðslu annarra mála sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að fái afgreiðslu á þessu þingi. Það sneyðist sem sagt um tímann fyrir þessi önnur áhugamál hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég ítreka sem sagt að ég læt það afskiptalaust þótt þessi afbrigði verði veitt en bendi á þetta, að þeim mun minni tími gefst hæstv. ríkisstjórn til að koma öðrum áhugamálum sínum í gegnum þingið.