Stjórnarfrumvarp um áburðarverð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu athugaði ríkisstjórnin þá leið sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi hér áðan. En eins og mun koma fram í málefnalegri umræðu telur ríkisstjórnin að Áburðarverksmiðjan þoli að áburðarverðshækkun verði ekki meiri. Það er reyndar boðið að skoða þá betur hvort eitthvað þyrfti til viðbótar við afgreiðslu fjáraukalaga í haust. Sú ástæða sem ræður því að sú leið er ekki farin, auk þeirrar sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, er að sjálfsögðu sú að fjárhagur ríkissjóðs er mjög þröngur og draga ber úr útgjöldum hans eins og frekast er kostur.