Stjórnarfrumvarp um áburðarverð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er um nokkuð óvenjulegt mál að tefla sem hæstv. ríkisstjórn fer fram á að veitt verði afbrigði frá þingsköpum til að það megi ræðast hér í þinginu. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að gera athugasemdir við þá ósk, en fyrir margra hluta sakir kallar þessi ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar á skýringar af hennar hálfu.
    Í fyrsta lagi þarfnast það frekari skýringar, eins og komið hefur fram, hvers vegna hæstv. ríkisstjórn fer ekki þá einföldu og sjálfsögðu leið að taka um þetta ákvörðun í þeim fjáraukalögum sem fyrir liggja og ekki þarf að veita afbrigði fyrir. Benda má á að það er raunverulega eina leiðin sem hæstv. ríkisstjórn hefur til að leysa þetta mál. Það frv. sem hér liggur fyrir og óskað er eftir afbrigðum um felur ekki í sér lausn á vanda Áburðarverksmiðjunnar, eða þeim vanda sem menn standa frammi fyrir vegna áburðarverðs. Hann er á hinn bóginn hægt að leysa með því að breyta fjáraukalögum. En hæstv. ríkisstjórn kýs að fara ekki þá leið sem ein er fær til þess að leysa málið. Það vekur athygli og þarfnast miklu nánari skýringa af hálfu hæstv. forsrh. hvers vegna það er ekki gert.
    Á hinn bóginn er af þessu tilefni ástæða til að hæstv. ríkisstjórn geri þinginu nánari grein fyrir áformum sínum um lok þinghalds og afgreiðslu þingmála. Það hefur komið fram í óljósum yfirlýsingum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að ljúka eigi þinghaldi í næstu viku. Það þýðir að aðeins eru nokkrir dagar eftir af þinghaldi. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki óskað eftir samkomulagi milli þingflokka um afgreiðslu þingmála eins og oft er venja undir lok þinghalds. Auðvitað er það alfarið á valdi hæstv. ríkisstjórnar og enginn sem biður hana um að leita eftir slíku samkomulagi. Oft er það þó gert til þess að greiða fyrir framgangi tiltekinna mála og oft leiðir það til þess að vinnubrögð í þinginu verða skilvirkari og málefnalegri. En hæstv. ríkisstjórn hefur, a.m.k. fram til þessa, ekki óskað eftir neinum slíkum samningum. Fyrir liggja listar þar sem á eru nokkrir tugir áhugamála hæstv. ráðherra.
    Ég vildi gjarnan, af þessu tilefni, fá nánari upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstjórn hvort þessi áhugamálalisti hæstv. ráðherra upp á nokkra tugi mála sé alvörumál, hvort hæstv. ríkisstjórn hafi í raun og veru í hyggju að fá öll þau mál afgreidd á þessum tíma, hvort hún hafi í hyggju að framlengja þinghaldið fram eftir vori, sem er mjög eðlilegur og sjálfsagður hlutur ef því er að skipta. En þingheimur á auðvitað sjálfsagða kröfu til þess að fá að vita hvað hæstv. ríkisstjórn er að hugsa í þessum efnum, ef hún er þá að hugsa eitthvað á annað borð, ef hún hefur sett sér einhver markmið eða náð samkomulagi sín á milli um einhverja hluti. Ef svo er ekki er auðvitað ekkert við því að gera og þá blasir sá glundroði bæði við þingi og þjóð.