Stjórnarfrumvarp um áburðarverð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Fyrst vegna þess frv. sem óskað hefur verið eftir að veita afbrigði fyrir, þá tek ég undir það með hæstv. forsrh. að það er ekki tilefni til að ræða það efnislega. Vegna ummæla hans er rétt að minna á að fulltrúar stjórnarflokkanna í stjórn Áburðarverksmiðjunnar hafa með afstöðu sinni tekið alveg skýrt fram að það þarf að leysa rekstrarvanda verksmiðjunnar og hann er ekki leystur með einhliða ákvörðun um 12% hækkun á áburðarverði heldur er hann skilinn eftir. Það kemur glöggt fram í þeim gögnum sem fyrir liggja þannig að eftir stendur sú fullyrðing sem hér kom fram að hæstv. ríkisstjórn getur ekki leyst þetta mál af sinni hendi og staðið við sín fyrirheit með þessum hætti, en hún getur það með því að breyta fjáraukalögunum og til þess þarf ekki afbrigði. Það hefði þar að auki greitt enn frekar fyrir lokum þinghalds og eðlilegum störfum hér í þinginu. Þetta er staðreynd sem fyrir liggur nema að um sé að ræða mikinn ágreining milli ríkisstjórnarinnar og fulltrúa hennar um afkomu verksmiðjunnar.
    Að því er varðar þá umræðu sem hér hefur farið fram um lok þinghaldsins vil ég taka fram að þó samtöl hafi eðlilega átt sér stað milli manna og menn hafi velt upp bæði löngum málalistum og hugmyndum um það hvenær ljúka megi þinghaldi, þá hafa engir, hvorki formlegir né óformlegir, samningar verið gerðir þar um. Það er auðvitað alfarið á valdi hæstv. ríkisstjórnar hvort hún óskar eftir slíkum samningum. Fram til þessa hefur hún ekki óskað eftir því að slíkir samningar verði gerðir um lok þinghaldsins þó að samtöl hafi farið fram á milli manna. Það er ekkert sem mælir á móti því að ljúka þinghaldi 4. eða 5. maí, en ég ítreka að það er líka alveg sjálfsagt að halda þingstörfum áfram ef málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar er með þeim hætti að nauðsyn krefur.
    Ég veit ekki hvernig skilja á ummæli hæstv. forsrh. Hann segir að það séu aðeins eitt eða tvö mál sem máli skipta og þau þurfi að fá afgreiðslu fyrir þinglok. Það er frv. um stjórn fiskveiða og Úreldingarsjóð. Ég veit ekki hvort skilja beri þessi ummæli á þann veg að þar með sé það upp talið eða svo hafi fækkað á forgangslistanum upp á nokkra tugi mála að hæstv. ríkisstjórn sætti sig við það að ná ekki fleiri málum fram. Þannig hefði mátt skilja hæstv. ráðherra. En nú er það oft á þann veg að þegar hann gefur yfirlýsingar þá má skilja þær á marga vegu og alveg óþarfi að vera fyrir fram með einhverjar fullyrðingar í þeim efnum vegna þess að hitt er algengast að hann hagi orðum sínum á þann veg að skilja megi á fleiri en einn veg. Þess vegna vildi ég í fullri vinsemd óska eftir því að fá nánari skýringu á þessum ummælum, hvort það sé í raun svo að það séu aðeins þessi tvö frv. eða hvort um sé að ræða fleiri frv. og þá að hæstv. ráðherra geri nokkuð gleggri grein fyrir því hvaða mál það eru, ef það er svo að hæstv. ríkisstjórn stefni að þinglokum í næstu viku því enn eru svörin af hálfu ríkisstjórnar býsna óljós.