Veiting ríkisborgararéttar
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar.
    Nefndin hefur fjallað um frv. Haft hefur verið sama vinnulag og verið hefur, að formenn allsherjarnefnda Ed. og Nd. hafa farið yfir allar umsóknir um ríkisborgararétt sem borist hafa og kannað að þær séu í samræmi við þær reglur sem settar eru áður en þær eru bornar undir nefndirnar.
    Frá því að frv. var afgreitt úr allshn. Ed. hafa fimm nýjar umsóknir um ríkisborgararétt borist. Þær uppfylla allar þau skilyrði sem allsherjarnefndir hafa sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Lagt er til að nöfn þeirra umsækjenda verði tekin upp í frv. en þau eru á brtt. 1021.
    Ég vil sérstaklega benda á að í nál. frá allshn. Ed. eru prentaðar þær reglur sem farið er eftir. Í nefndunum hefur verið rædd og samþykkt ein ný vinnuregla eða skýrari vinnuregla en verið hefur. Sú regla er nr. 4 á þskj. 910 og hún er svohljóðandi:
    ,,Karl eða kona, sem býr í óvígðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og bæði eru ógift, fái ríkisborgararétt ef sambúðin hefur varað í fimm ár og þau átt sameiginlegt lögheimili þann tíma enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.``
    Rétt þótti að skýra þessa reglu nánar og festa hana í nál. því ekki hefur verið alveg ljóst til þessa hvernig með þetta ætti að fara en hefur að sjálfsögðu verið matsatriði nefndarinnar. En rétt þykir að hafa skýrar starfsreglur í þessum efnum.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. eins og því var breytt í Ed., ásamt brtt. á þskj. 1021. Undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Ólafur G. Einarsson, Ingi Björn Albertsson, Guðni Ágústsson, Friðjón Þórðarson, Sighvatur Björgvinsson og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.