Fjarvera ráðherra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. 1. þm. Suðurl. Þegar er komið undir þinglok og það þarf að láta hlutina ganga, fá mál afgreidd. Ríkisstjórnin óskar eftir því og ég efast ekkert um að hæstv. forsrh. vill koma hlutunum þannig fyrir að hægt verði að ljúka þingi á þeim dögum sem fyrirhugað er í næstu viku. Til þess að hægt sé að gera slíkt er núv. hæstv. forsrh. mikill vandi á höndum í því að halda utan um þingliðið. Það er ekki svo auðvelt, að manni sýnist, þessa dagana. Við getum talið stjórnarliðana hér í deildinni í dag. Það þarf ekki nema fingur annarrar handar til þess að telja þá.
    Mér er fullkomlega ljóst hversu erfitt það er fyrir forseta þingsins að stýra hlutunum, að stýra þinginu, stýra fundum, koma málum fram en það er auðvitað reynt að gera í samstarfi við ríkisstjórn og við ráðherra. Til þess að hægt sé að gera þá hluti, til þess að hægt sé að koma málum fram, verður ríkisstjórnin, sem hefur forustu í þeim málum sem hér eru til umræðu, að sjálfsögðu að vera viðstödd. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki verið að tefja fyrir málum hér en þingmenn stjórnarinnar sjást varla í þingsölum, eins og ég sagði hér áðan. Ég beini því til forseta að gerð verði gangskör að því að hóa þingmönnum saman, boða þá til fundarins, þannig að þeir geri sér grein fyrir því hvað líður þinghaldi þessa dagana.
    Mér er kunnugt um að hæstv. forsrh. hafi á ríkisstjórnarfundi gert athugasemdir við ráðherrana. Á myndinni sem við sáum var enginn viðstaddur á ríkisstjórnarfundi, en ég geri ráð fyrir að það hafi verið svona fremur grín heldur en hitt. En það er virkilega ástæða til þess að hæstv. forsrh. veiti ráðherrunum tiltal og hafi þá viðstadda til að tefja ekki gang mála.