Fjarvera ráðherra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. hélt því fram að engu máli skipti hvort formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., sæti á Alþingi eða ekki eða væri hér viðstaddur umræðu mála. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara að deila við hv. þm. um tilgang eða tilgangsleysi þess að formaður Alþfl. sitji á þingi. Ég tel að umræður af því tagi eigi varla heima undir þingsköpum. Hitt er staðreynd að hann hefur verið kjörinn til setu á Alþingi og honum ber þess vegna að gegna þingskyldum sínum.
    Það liggur líka fyrir að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að það mál sem hér er verið að fresta vegna fjarveru hans hafi verið slys af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, með öðrum orðum hér er um það að ræða að hæstv. ráðherra hefur viðurkennt eitt af hinum fjölmörgu slysum sem hæstv. ríkisstjórn hefur valdið með ákvörðunum sínum. Með því að formaður Alþfl. situr á Alþingi og er ráðherra í ríkisstjórn, sem valdið hefur því slysi sem hann hefur hér lýst, þá er eðlilegt að hann sé kallaður til umræðunnar. En deilurnar um það hvort þörf sé á því að formaður Alþfl. sitji á þingi eða taki þátt í umræðum ætla ég að leiða hjá mér, það er meira innanbúðarmál í Alþfl.
    En vegna áminningar forseta um að hæstv. ráðherra sé á leiðinni til þess að gegna þingskyldum sínum ætla ég ekki að gera neinar athugasemdir við forseta en aðeins minna á að í lögum, sem kveða á um skyldur þingmanna, er kveðið á um að þeir skuli gegna þeim en hvergi talað um að þeir fullnægi því með því að vera á leiðinni til þess að gegna þeim. Það er þess vegna ekki fullnægjandi að hæstv. ráðherra sé á leiðinni til þess að gegna þingskyldum sínum. Hann verður að gegna þeim með nærveru sinni hér í þingsalnum og þátttöku í umræðum.