Fjarvera ráðherra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Án þess að ræða almennt um það sem hér hefur komið fram þá vil ég í fyrsta lagi taka undir það að að sjálfsögðu ber ráðherrum að sækja þingfundi, en eins og einnig kom fram hér hjá einum ræðumanni þá hafa ráðherrar einnig mörgum öðrum skyldum að gegna og þurfa þar oft að sigla á milli skers og báru og vera á hlaupum á milli sinna verkefna.
    Fyrst og fremst stóð ég upp til þess að andmæla því sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni. Þegar ég hef verið fjarverandi hef ég haft fjarvistarleyfi. Í þau skipti sem ég var fjarverandi þegar á dagskrá var frv. um umhverfismál þá var ég erlendis og hafði leyfi frá þingstörfum. Ég tel því að það hafi verið fullkomlega eðlilega á málum haldið. Vitanlega kemur oft fyrir að ráðherrar þurfa að gegna störfum erlendis og fá þá fjarvistarleyfi frá þinginu.