Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram nokkuð oft hér á hv. Alþingi að það eru nokkuð mismunandi viðhorf til ýmissa meginatriða varðandi stefnu í skattamálum. Sumir hafa verið þeirrar skoðunar að eingöngu ætti að leggja á almenna skatta og draga úr og jafnvel afnema algjörlega sérstaka skatta sem bundnir væru við ákveðin verkefni eða ákveðnar tegundir gjalds.
    Það er kannski rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því að í þeirri umræðu sem orðið hefur um umhverfismál á allra síðustu missirum hefur komið í ljós að þau gjöld sem eru bundin við sérstakar tegundir gjaldenda eða sérstakt atferli eiga aftur vaxandi fylgi að fagna og ráðstöfun þess fjármagns síðan í afmörkuð verkefni vegna þess að svo virðist sem almennir skattborgarar séu reiðubúnari til að samþykkja umhverfisskatta ef slík gjöld ganga sérstaklega til umhverfisverndar. Þannig hefur umræðan um verndun umhverfisins haft þau áhrif að svokölluð eyrnamerking skatta á sér á ný ýmsa formælendur sem kannski fyrir fáeinum árum voru fylgjandi þeirri almennu stefnu að úr slíkri eyrnamerkingu ætti að draga.
    Ég nefni þetta hér sem inngang að svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Friðriks Sophussonar. Það hefur löngum verið skoðun Alþb. að ýmsir kostir fylgdu því að merkja skatta sérstaklega, bæði í tilteknum útgjöldum og tiltekinni innheimtu, vegna þess að þar með væri búið til skýrt samhengi fyrir greiðendur milli gjaldanna og þess í hvað peningunum yrði varið. Það hefur verið trú okkar að þar með gæti skapast skýrari skilningur og um leið stuðningur skattborgaranna við einstök og afmörkuð verkefni sem fjárfrek eru. Þess vegna höfum við verið fylgjandi því að gjald vegna málefna aldraðra yrði innheimt sérstaklega og því varið í þágu málefna aldraðra og m.a. stóðum við þess vegna að lagasetningu um það efni fyrir skömmu síðan.
    Ég ætla ekki að rekja viðhorf annarra flokka í ríkisstjórninni en það er auðvitað ljóst að innan stjórnarinnar eru mismunandi viðhorf í þessum efnum eins og ég held hér á þinginu. Ég get þess vegna ekki gefið neitt bindandi svar um það hver kynni að vera afstaða ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, kjósi þingið að vísa málinu til hennar til nánari skoðunar og umfjöllunar. Slíkt yrði þó til þess að málið yrði tekið fyrir og rætt að nýju og menn hefðu tækifæri til að skoða hug sinn í ljósi nýrra upplýsinga og, hugsanlega einnig, breyttra viðhorfa bæði hér á landi og erlendis. Ég vona að þetta veiti fullnægjandi svör við þeirri spurningu sem hv. þm. Friðrik Sophusson bar fram.