Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Geir H. Haarde (frh.) :
    Herra forseti. Ég var þar kominn máli mínu í dag að ég var að gera athugasemd við það með hvaða hætti þessi nefnd sem undirbjó frv. var skipuð vegna þess að þar var blandað saman faglegum aðilum, opinberum aðilum og fulltrúum almannasamtaka, annars vegar og fulltrúum stjórnarflokkanna hins vegar. Og ég tel að það sé ekkert sérstaklega eðlilegt fyrirkomulag að stjórnarflokkarnir, hverjir sem þeir eru á hverjum tíma, blandi þessum utanaðkomandi aðilum inn í þau verkefni sem þeir eru að vinna fyrir sína ríkisstjórn eða á hennar vegum. Ég tel ekkert athugavert við það að fulltrúar slíkra aðila starfi að nefndarvinnu á vegum allra þingflokka, en ég tel að þetta sé ekki til eftirbreytni, að standa svona að málum. Það er ekkert við því að segja ef stjórnarflokkarnir óska ekki eftir tilnefningum frá stjórnarandstöðu og þeir vilja vinna sín mál þannig, en það er óeðlilegt að það sé jafnframt leitað til almannasamtaka og opinberra stofnana því með því er verið að gefa í skyn miklu víðtækari samstöðu og miklu víðtækari meðferð en raunin er. Þannig sátu í nefndinni sem frv. samdi fulltrúar frá Húsnæðisstofnun, frá ASÍ og BSRB, frá Verkamannasambandi Íslands, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, auk stjórnarflokkanna og auk samtakanna Þak yfir höfuðið sem af einhverjum ástæðum hafa flotið hér með og auk þess ritari sem Kvennalistinn fékk náðarsamlegast að tilnefna þó að ritarinn hafi ekki verið, að því er fram kemur, sérstakur nefndarmaður heldur starfsmaður nefndarinnar. Samt ber nú svo undarlega við að ritarinn skrifar undir nefndarálitið eins og ekkert sé, eins og hver annar nefndarmaður. Allt er þetta hið undarlegasta án þess að ég ætli að gera frekara mál úr því.
    Hins vegar er annað atriði í sambandi við svona vinnubrögð í tengslum við þetta sem ég vil nefna í upphafi og það er það að við höfum nú á hverju þinginu á fætur öðru verið að fjalla um einstaka þætti í lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er verið að taka út úr á hverju einasta þingi eitthvert eitt atriði eða einhvern einn þátt í þessari mikilvægu löggjöf og endurskoða þann þátt sérstaklega í staðinn fyrir að taka á þessum málum í heild sinni. Þannig var fyrir tveimur árum síðan, á þinginu þá, fjallað um svokallaðar kaupleiguíbúðir og bætt inn í lögin sem þá giltu löngu máli um þær. Í fyrra var fjallað um húsbréf og bætt inn í lögin ákvæðum um þau, að vísu ekki mjög löngu máli, þ.e. í lögunum. Og nú í ár er fjallað um Byggingarsjóð verkamanna og endurskoðun á verkamannabústaðakerfinu með því frv. sem hér hefur verið lagt fram.
    Ég held að þetta séu ekki skynsamleg vinnubrögð vegna þess að menn missa heildarsýn yfir þennan málaflokk ef sí og æ er verið að rýna í eitthvert eitt horn eða einhvern einn kafla í þessum málum. Það væri hyggilegra og skynsamlegra að taka þessi mál fyrir í heild sinni í stað þess að standa svona að málunum.

    En hvað sem því líður, herra forseti, hefur verið lagt hér fram frv. sem varðar Byggingarsjóð verkamanna og hæstv. félmrh. mælti fyrir hér í gær en ekki varð samstaða um í hv. efri deild þar eð ákveðnir þingmenn úr stjórnarandstöðunni sátu hjá við afgreiðslu málsins á þeim forsendum að ekki hefði gefist nægilegur tími til að fara yfir málið allt og reyna að átta sig á hvaða afleiðingar frv. hefði í heild sinni. Þannig segir í nál. minni hl. félmn. Ed., með leyfi forseta:
    ,,Þó að ýmis atriði frv. séu til bóta miðað við núgildandi lög þá eru margir óvissuþættir sem orka tvímælis, og ekki liggur ljóst fyrir hver áhrif þess verða á lánakerfið í heild, m.a. á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Ein veigamesta breytingin varðar skipan í húsnæðisnefndir sveitarfélaga. Samkvæmt frv. bera sveitarstjórnir í landinu alfarið fjárhagslega og framkvæmdalega ábyrgð á félagslega húsnæðiskerfinu. Þess vegna ber að tryggja það með lögum að meiri hluti sveitarstjórna eigi ávallt meiri hluta í húsnæðisnefndum. Ekki náðist samstaða um það atriði í nefndinni.``
    Síðan segir áfram: ,,Minni hl. nefndarinnar ítrekar að nauðsynlegt hefði verið að nefndin fengi lengri tíma og ítarlegri upplýsingar til að vinna að málinu. Slíkt reyndist ekki unnt. Því treystir minni hl. sér ekki til að taka afstöðu til frv. á þessu stigi og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.``
    Ég tek undir það sem þarna kemur fram að ekki gafst kostur á því í þeirri deild að fara jafnrækilega í saumana á frv. og nauðsynlegt hefði verið. Það ber vissulega að harma. Hér er um að ræða málaflokk sem vissulega skiptir miklu máli þar sem um er að ræða mikla hagsmuni fyrir þá sem þarna eiga hlut að máli í nútíð og framtíð. En þarna er líka um að ræða málefni sem skiptir miklu fjárhagslegu máli fyrir ríkissjóð og fyrir efnahagskerfið í landinu vegna þess að hér er milljarða sjóður á ferð og það skiptir vissulega miklu máli hvernig fjármagni úr honum er ráðstafað. Menn verða að gera sér grein fyrir afleiðingum allra breytinga þannig að menn sjái nokkuð fyrir sér afleiðingar gerða sinna þegar verið er að gera breytingar á þessum lögum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara sérstaklega hratt yfir sögu á meðan ráðherra er fjarverandi, en það hlýtur að koma að því að hún þurfi að vera hér viðstödd þó ég hafi gefið henni til kynna að hún gæti brugðið sér frá. Það er reyndar þannig að málefni þetta varðar sömuleiðis hæstv. fjmrh. þannig að það hlýtur líka að vera ástæða til að óska eftir nærveru hans, en ég ætla að bíða aðeins með það. Mér er kunnugt um að hann situr á þýðingarmiklum fundi. En nú held ég að ég komist ekki mikið lengra án þess að hafa hæstv. ráðherra málaflokkins viðstaddan. ( Forseti: Já, forseti upplýsir að hæstv. félmrh. mun hafa brugðið sér í efri deild samkvæmt ósk forseta þar. Ráðherrann hlýtur að koma að vörmu spori.) Já.
    Ég get út af fyrir sig haldið áfram, herra forseti,

og vikið að því máli sem kemur fram í nál. félmn. Ed. vegna þess að það er ekki nýtt mál hér til umræðu fyrir ráðherra og var töluvert rætt í efri deild við umfjöllun málsins þar. Það er spurningin um þá nýskipan þessara mála sem lýtur að húsnæðisnefndum sveitarfélaga. Það er ætlunin að flytja stóraukna ábyrgð, fjárhagslega ábyrgð á hendur sveitarfélaganna án þess að auka að sama skapi hina stjórnunarlegu ábyrgð sveitarfélaganna. Þannig er ljóst, þrátt fyrir þá breytingu sem gerð var í efri deild, að sú staða getur auðveldlega komið upp að í húsnæðisnefnd sem starfar á vegum sveitarfélags sé annar meiri hluti en í stjórn sveitarfélagsins. Þetta er ekki eðlilegur hlutur, að annar pólitískur meiri hluti sé í húsnæðisnefndinni en í sveitarfélaginu sjálfu, vegna þess að frv. flytur aukin verkefni og aukna fjárhagslega ábyrgð til sveitarfélaganna. Þess vegna hlýtur að verða að gera þá kröfu að stjórnendur sveitarfélaganna beri líka fulla stjórnunarlega ábyrgð á málinu.
    Ég er hér að rifja upp, virðulegi ráðherra, aðeins eitt atriði sem ég taldi að kæmi ekki að sök, þó að ráðherrann hlustaði ekki á, vegna þess að það er ekki nýtt. Það er spurningin um skipan í húsnæðisnefndirnar sem var mikið rædd í Ed. og er kannski ekki ástæða til að ræða í mjög ítarlegu máli, en ég sem sagt notaði tímann og drap á það atriði og mun koma aftur að því síðar í minni ræðu.
    En ég ætla þá að víkja að því sem ég tel vera meginatriði þessa frv. og þeim atriðum sem ég tel að sé ábótavant í frv. En ég vil þó áður segja að vissulega horfir eitt og annað til bóta í frv. enda væri það nú einkennilegt, þegar fram fer heildarendurskoðun á þessu málefni eftir allmargra ára hlé, ef ekki kæmu fram tillögur sem allir væru sammála um að væru til bóta. Engu að síður er ýmislegt í þessu frv. sem ég tel að sé ábótavant, sé ekki til bóta og sé ýmist ófullnægjandi eða beinlínis rangt að leggja til.
    Manni verður kannski ljóst við lestur þeirrar skýrslu sem liggur að baki frv. hvaða hugsunarháttur hefur legið þarna að baki og það er áberandi að það orð sem ég nefndi hér í ræðu minni í dag, orðið ,,félagslegur`` í ýmsum beygingum og föllum, tröllríður allri hugsun í sambandi við þetta mál og það meira að segja svo að í markmiðskafla frv. er talað um að gefa fólki kost á því að eignast húsnæði á félagslegum kjörum án þess að það sé nokkuð nánar tilgreint hvað þarna er átt við. Ég hygg þó að meiningin sé að gefa fólki kost á því að eignast húsnæði á niðurgreiddum vöxtum, þ.e. meira niðurgreiddum en í Byggingarsjóði ríkisins. En auðvitað er engin skynsemi í því að setja í markmiðskafla í lögum eitthvert hugtak sem enginn veit hvað þýðir og er óskilgreint að öðru leyti í lögunum, og það kemur reyndar fyrir tvívegis í þessum markmiðskafla laganna. Höfundum þessa frv. er svo hugleikið hið félagslega kerfi að þeir freistast til þess að draga inn í það þætti úr hinu almenna kerfi sem ekkert eru félagslegir, ef ég má leyfa mér að nota það orð, sem hingað til hafa ekki verið taldir sérstaklega til aðstoðar við þá sem minna mega sín,

en það er skilningur minn á því hvert sé hlutverk og eigi að vera hlutverk Byggingarsjóðs verkamanna og þess fyrirkomulags sem upp hefur verið byggt í tengslum við þann sjóð. En með frv. er m.a. gerð tillaga um að flytja hinar svokölluðu almennu kaupleiguíbúðir yfir í félagslega þáttinn, yfir í verkamannabústaðakerfið þó svo að í almenna kaupleiguíbúðakerfinu séu ekki þær kvaðir varðandi tekjuhámark og annað þess háttar eins og í til að mynda hinum félagslegu kaupleiguíbúðum. Þetta er ekki skynsamlegt að mínum dómi og reyndar hreinn óþarfi. Það er engin haldbær skýring á þessu í frv. eða grg. þess.
    Það segir í niðurstöðum þess nefndarstarfs sem fyrir liggur að helstu niðurstöður nefndarinnar séu að einfalda beri lánakerfið og fækka lánaflokkum. Niðurstaðan er samt sú, þegar frv. er skoðað, að einungis er fækkað um einn lánaflokk og ég er ansi hræddur um að ekki hafi tekist að einfalda lánakerfið með þeim tillögum sem hér liggja fyrir, og ekki verður séð að það sé sérstök einföldun í því fólgin að flytja almennu kaupleiguíbúðirnar úr almenna kerfinu yfir í félagslega hlutann sem svo er kallaður.
    Ýmsar rósir eru líka hér í nefndaráliti þessu sem ástæða er til að vekja athygli á og hljóta að vekja furðu þeirra sem lesa þetta álit því að hér segir m.a. á einum stað í nál., með leyfi forseta:
    ,,Aðall félagslegs húsnæðis er notagildi þess en ekki skiptagildi á markaði.``
Aðall með tveimur ellum sem að vísu er nú rangt en látum það liggja á milli hluta. ,,Aðal félagslegs húsnæðis er notagildi þess en ekki skiptagildi á markaði.`` Hvers konar orðfæri er nú þetta? Ég held að það ætti að spyrja hæstv. viðskrh. og efnahagssérfræðing Alþfl. um það hvað svona setning þýðir því að ég fæ ekki séð að hún þýði nokkurn skapaðan hlut. Hún er hins vegar til marks um ákveðnar hugmyndir sem virðast hafa svifið yfir vötnum í þessu nefndarstarfi og gefa til kynna sósíalhugmyndir, ef ég mætti orða það þannig, sem eru meira orðagjálfur en raunverulegar hagnýtar hugsanir. ,,Aðal félagslegs húsnæðis er notagildi þess en ekki skiptagildi á markaði.``
    Með þetta sem bakgrunn skýrist þess vegna kannski ýmislegt annað sem fram kemur í nefndarálitinu, m.a. það að þeir sem frv. sömdu vildu gera það að skyldu að byggt yrði svokallað félagslegt húsnæði sem svaraði a.m.k. 1 / 3 af árlegri íbúðaþörf landsmanna og fjáröflun til sjóðsins skyldi haga samkvæmt því. Í upphaflegum hugmyndum þessarar nefndar var sem sagt gert að skyldu að byggja sem svaraði a.m.k. einum þriðja af árlegri íbúðaþörf í hinu svokallaða félagslega kerfi og það var gert að skyldu að haga fjáröflun til sjóðsins í samræmi við það. Þetta er náttúrlega algjörlega fráleitt, að ætla sér að binda það í lögum að íbúðabyggingum í landinu skuli stýrt með þessum hætti af hinu opinbera. Auðvitað má svo sem túlka þetta þannig að ætlunin sé að koma þriðja hverjum manni sem er að byggja undir þau tekjumörk sem sett eru í þessu kerfi. Það held ég að sé ekki

þjóðfélag sem við kærum okkur um að ímynda okkur sem okkar framtíðarþjóðfélag hér. En sem betur fer breytti félmrh. þessu ákvæði og það er öðruvísi í frv. sem er til meðferðar núna. Það er líkara því sem er í gildandi lögum, en ég tel að vísu að svona ákvæði eigi ekki að vera í lögum, hvorki eins og það er í núgildandi lögum né eins og það er fyrirhugað í frv. eins og það liggur hér fyrir. Ég tel að það sé ekki skynsamlegt.
    Hér segir sem sagt í brtt. við 64. gr. núgildandi laga sem er enn liður í 3. gr. frv. að því er best verður séð: ,,Stefna skal að því að byggja félagslegt húsnæði sem nemur a.m.k. einum þriðja af árlegri íbúðaþörf landsmanna og skal fjáröflun til sjóðsins hagað samkvæmt því.`` Það sem áður var afdráttarlaus skylda hefur þó verið breytt í stefnuákvæði en auðvitað er ekki skynsamlegt að setja slík ákvæði í lög almennt séð fyrir utan það að stefnan í þessu tilliti er að mínum dómi ekki rétt.
    Það má færa rök fyrir því, virðulegi forseti, að með frv. sé verið að stíga skref í átt frá þeirri sjálfseignarstefnu sem hér hefur verið fylgt á Íslandi, ekki síst fyrir frumkvæði Sjálfstfl., á undanförnum áratugum vegna þess að það er leynt og ljóst stefnt að því með frv. að takmarka hóp þeirra sem geta orðið íbúendur í sínum eigin íbúðum og það tel ég að sé mjög miður. Það er t.d. fallið frá því að lána fólki allt að 100% þess fjár sem íbúð úr Byggingarsjóði verkamanna kostar en eins og kunnugt er eru núna til sérstök viðbótarlán til skamms tíma til þess að gera fólki kleift að brúa bilið á milli 85% láns og þess sem upp á vantar í útborgun í íbúð úr Byggingarsjóði verkamanna. Og það er rökstutt með því að oft hafi komið fyrir að einstaklingar eða fólk sem hefur notið þessa viðbótarláns hafi ekki getað staðið undir því. Sjálfsagt eru til ýmis dæmi þess að fólk standi ekki undir því að taka 100% lán þó að 15% séu til skamms tíma, til þriggja ára. Það getur vissulega vel verið að þess séu einhver dæmi að fólk geti ekki staðið undir slíkri fjármögnun. En þess eru líka vissulega mörg dæmi að einmitt þetta hafi hjálpað fólki til að komast í eigið húsnæði og það vantar um þetta upplýsingar í frv. Það segir bara: Það hefur oft komið fyrir að menn geti ekki staðið undir skuldbindingum sem þessu fylgja. En hve oft? Hvert er hlutfallið milli þeirra sem hafa getað eignast íbúð með þessum hætti og hinna sem hafa reist sér hurðarás um öxl með þessu viðbótarláni? Það kemur ekki fram. Og það er sagt að þeir sem missa þennan rétt, þeir aðilar sem hefðu fengið viðbótarlánið, en fá það ekki ef frv. nær fram að ganga, eigi að leita út á leigumarkaðinn. Það er reyndar sett í 1. gr. þessara laga, allra laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér er verið að breyta, að markmiðið sé ekki lengur eingöngu að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika manna til þess að eignast húsnæði, heldur er bætt við: eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
    Húsnæðisstofnun ríkisins hefur til þessa verið

hugsuð sem sá aðili á vegum íslenska ríkisins sem veitir mönnum aðstoð við að eignast húsnæði. En hér er verið að gera tillögu um grundvallarbreytingu í þessu efni, þ.e. breytingu í þá átt að verkefni stofnunarinnar sé ekki eingöngu þetta heldur líka það að hjálpa fólki að komast í leiguhúsnæði. Þetta tel ég ekki vera hyggilega stefnubreytingu í þessu efni, enda má færa margvísleg rök fyrir því að það sé ódýrara, það má sýna fram á það með dæmum að það geti verið ódýrara fyrir fólk að borga það sem þarf að borga af íbúð, vexti og afborganir í þessu félagslega íbúðakerfi, en að leigja íbúð. Þannig að hér er ekki stefnubreyting á ferð sem hefur ekki neinar afleiðingar, heldur er hér stefnubreyting á ferð sem beinlínis getur skaðað hagsmuni þeirra sem ætti heldur að rétta hjálparhönd vegna þess að með þessu er ákveðinn hópur manna útilokaður frá því að fá
viðbótarlán, þar með í raun útilokaður frá því að geta haslað sér völl með eigin íbúðarhúsnæði innan þessa kerfis og þess í stað vísað út á leigumarkaðinn. Algerlega er óvíst hvort sú greiðslubyrði sem þar er er nokkuð lægri, en alla vega er alveg víst að eignamyndun hjá þessum aðilum verður engin í stað þess að geta orðið einhver í því kerfi sem ætlunin er hér að yfirgefa varðandi þetta atriði. Ég hygg að þetta sé ekki skynsamlegt, en ég geri mér grein fyrir að um þetta eru skiptar pólitískar skoðanir og það er kannski ástæðan fyrir því að ekki var leitað eftir því að Sjálfstfl. tilnefndi í þessa nefnd, að auðvitað eru skiptar pólitískar skoðanir um mjög margt í þessum efnum og ekki ástæða til að fara neitt í felur með það. Ég tel að miklu skynsamlegra sé að veita styrk til fólks sem er að mynda sér eign í íbúð en að veita sama styrkinn til fólks sem er að leigja vegna þess að þá fer fólkið á mis við þessa eignamyndun sem ég hef nefnt. Það er vitað að hér á höfuðborgarsvæðinu er það gjarnan svo að það getur kostað meira að leigja íbúðarhúsnæði en að standa undir mánaðarlegum afborgunum af húsnæðislánum innan þessa kerfis.
    Hins vegar er það auðvitað ekki þannig að ástæða sé til þess að amast í sjálfu sér við leigumarkaðnum eða því að fólk skuli vilja leigja, þvert á móti. Ég hygg að flestir einstaklingar þurfi á því að halda einhvern tímann á lífsleiðinni að leigja sér íbúðarhúsnæði. Það geta verið alls kyns aðstæður sem því valda. Flestir byrja sinn búskap í leiguhúsnæði í einhverju formi og það geta alls kyns aðstæður á lífsleiðinni orðið þannig að fólk kjósi frekar eða þurfi óhjákvæmilega að leigja sér húsnæði og þess vegna er auðvitað mjög brýnt að til sé virkur leigumarkaður, markaður fyrir leiguhúsnæði þar sem fólk getur fengið leigt húsnæði og þar sem eigendur slíks húsnæðis eru viljugir til þess að leigja það öðrum til afnota. En ég tel að breytingin í frv. sé ekki heppileg.
    Síðan má af annarri ástæðu færa rök fyrir því að þetta frv. sé ekki til þess fallið að greiða fyrir sjálfseignarstefnunni, heldur þvert á móti. Það er það ákvæði sem sett er um hámark þeirrar greiðslubyrðar af tekjum sem menn mega eða verða að lúta til þess að geta fengið lán samkvæmt þessu nýja skipulagi

eftir að búið er að gera þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir. Það er gert ráð fyrir því að menn verji ekki meiru en þriðjungi tekna sinna til að standa undir greiðslubyrði af lánum í þessu kerfi, jafnvel þó að menn séu fúsir til þess að borga meira og hafi hugsanlega aðstöðu til þess. Ég er ekki á því að það eigi að skipa fyrir um það með lögum að menn megi ekki verja meiru en þriðjungi tekna sinna til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið á einhverju tímabili ævi sinnar ef þeir vilja það sjálfir. Ég tel að það stangist á við vilja mjög margra, sem vilja hart að sér leggja til þess að eignast eigið húsnæði, að setja slíkt skilyrði fyrir því að menn fái lán. Ég tel að það sé ekki eðlilegt og hamli gegn, eins og ég segi, þeirri eðlilegu sjálfsbjargarviðleitni manna að vilja eignast eigið húsnæði.
    Síðan má líka færa þriðju rökin fyrir þeirri skoðun að frv. dragi úr möguleikum manna til þess að eignast íbúðir eða hamli gegn sjálfseignarstefnunni í húsnæðismálum. Það er að það á að hækka vextina í kerfinu. Ég er að vísu þeirrar skoðunar af öðrum ástæðum að sú hækkun sé ekki óskynsamleg. Ég tel rétt að opna fyrir þennan möguleika að því þó tilskildu að þeir sem lægstar hafa tekjurnar fái það bætt í gegnum vaxtabótakerfið og það skilst mér að sé hugmyndin í þessu frv. Þannig að ég geri ekki athugasemd við þetta né heldur þá endurskoðun á vaxtakjörum, sem fyrirhuguð er í frv., gagnvart því að ef hagir manna breytast síðar á lífsleiðinni þá geti menn ekki um aldur og ævi notið góðs af því að hafa einhvern tímann haft lágar tekjur og komist inn í verkamannabústaðakerfið. Ég held að það sé æskileg breyting á þessu fyrirkomulagi og þess vegna tel ég að sú breyting sé í sjálfu sér til bóta. Það er gert ráð fyrir því að sú endurskoðun fari fram átta árum eftir lántökuna þannig að þá verði komið fram hvort menn séu hugsanlega komnir í betri efni en þeir voru þegar þeir fengu lán upphaflega. Það má hugsa sér að sú endurskoðun fari jafnvel fram fyrr. En í grundvallaratriðum tel ég að sú breyting sé til bóta vegna þess að það er ekki eðlilegt að menn geti setið að því um aldur og ævi að fá stórkostlega niðurgreidda vexti af almannafé vegna þess að þeir voru einhvern tímann á ævinni með litlar tekjur. Það er ekki eðlilegt að menn geti setið ævilangt að slíkum forréttindum þegar þeir eru jafnvel komnir í miklu betri efni en þeir voru þegar þeir fengu upphaflega lánið. Ég tek undir það atriði í frv.
    Ég tek líka undir það, svo ég klári það sem ég er sammála, að tekjumörk hjóna verði hækkuð um 25% miðað við einstaklinga. Ég tel það eðlilegt ákvæði. Ég tel líka eðlilegt að taka á því með einhverjum hætti ef íbúðir í þessu kerfi eru leigðar út með óleyfilegum hætti eins og mun hafa tíðkast. Ég tel ekki óeðlilegt að setja inn ákvæði sem hamla gegn slíku eða annars konar misnotkun á þessum réttindum sem menn fá vissulega og hægt er að meta til verulegra fjármuna í gegnum þennan sjóð. Ég ætla ekki á þessu stigi að gera athugasemdir við það ákvæði sem samþykkt hefur verið um það atriði þó svo að

vafalaust megi hugsa sér fleiri möguleika til þess að ná utan um þann vanda.
    Engu að síður er ýmislegt annað í frv., fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt, sem veldur mér umhugsun og nokkrum áhyggjum í þessu efni. Ég ætla að koma að því atriði núna sem ég vék lítils háttar að þegar ráðherra var fjarverandi. Það er spurningin um ábyrgð sveitarfélaga á svokölluðum húsnæðisnefndum sem koma eiga í staðinn fyrir stjórnir verkamannabústaða og húsaleigunefndir sveitarfélaga og eiga vissulega að gegna miklu hlutverki og hafa mikil völd. Það segir í þessu frv. að sveitarfélag beri ábyrgð á félagslegu húsnæði á vegum þess. Það segir jafnframt að sveitarstjórn beri fjárhagslega ábyrgð á félagslegum íbúðum þess og enn fremur ábyrgð á framkvæmdum.
    Hér er ítarlega upp talið hverjar séu skyldur sveitarstjórna í þessu sambandi. Sveitarstjórn er skylt að hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Það er engin smá skylda. Sveitarfélaginu ber að kanna heildarþörf á félagslegu húsnæði í umdæminu og gera áætlanir í því sambandi sem á að endurskoða árlega. Sveitarfélagið skal jafnframt lána 10% kostnaðarverðs hverrar íbúðar með því að kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun ríkisins. Hér stendur jafnframt að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir framkvæmdum, á framlagi hennar sem framkvæmdaraðila, á nýtingu fjármagns, uppgjöri og ráðstöfun þeirra íbúða sem eru á vegum sveitarfélagsins. Jafnframt segir að sveitarfélagið beri fjárhagslega ábyrgð á þeim umsýslukostnaði sem endursala íbúðar hefur í för með sér. Einnig að sveitarfélagið beri þann kostnað sem kann að eiga sér stað ef íbúð stendur auð við innlausn eða endursölu.
    Það er því alveg ljóst að með þessu frv. er ætlunin að eigi sér stað verulegur tilflutningur ábyrgðar til sveitarfélaga varðandi þessi málefni. Það er vissulega ástæða til að taka undir það, það er ástæða til þess út af fyrir sig að fagna því, en slíkri skyldu og ábyrgð hlýtur líka að eiga að fylgja möguleiki og ábyrgð á stjórnun viðkomandi verkefnis.
    Húsnæðisnefndirnar, sem starfa munu í umboði sveitarstjórnanna, fá mikil og margþætt verkefni sem upp eru talin í löngu máli og ég skal ekki telja hér upp. En sveitarfélaginu, í hvers umboði húsnæðisnefndin starfar, er ekki tryggt að húsnæðisnefndin starfi í sama pólitíska umboði og sveitarfélagið sjálft eða stjórn þess. Þetta tel ég rangt. Ég tel óhjákvæmilegt að sveitarfélag sem fær á sig jafnríkar fjárhagslegar ábyrgðir og kvaðir og hér er verið að tala um eigi líka að bera hina endanlegu ábyrgð á stjórnun og framkvæmd þessara mála. Þetta er ósköp einfalt mál í raun og veru þó það virðist eitthvað umdeilt. Ég hygg til að mynda að bæjarstjórnarmeirihlutanum í Keflavík þætti það nú eitthvað undarlegt ef í húsnæðisnefnd þess bæjarfélags hefði myndast meiri hluti í andstöðu við stjórn bæjarfélagsins. Vegna þess að það er þannig samkvæmt þessu frv. að minni hluti bæjarstjórnar

getur ásamt utanaðkomandi aðilum myndað meiri hluta í húsnæðisnefndinni.
    Nú er það í tilviki þess bæjarfélags sem ég var að nefna ekki sérstaklega líklegt að svo verði vegna þess að einn af höfundum frv. og einn af okkar félögum hér á hinu háa Alþingi er jafnframt formaður í sennilega stærsta verkalýðsfélaginu í bænum og flokksfélagar hans mynda meiri hlutann í stjórn þessa bæjarfélags. Það er engu að síður möguleiki á því að þetta geti orðið, til að mynda eftir næstu kosningar í því sama bæjarfélagi eða hvaða annarri sveitarstjórn sem er í landinu.
    Þetta býður heim möguleikanum á árekstrum, býður heim möguleikanum á því að húsnæðisnefndir séu í andstöðu við meiri hluta sveitarstjórnar og opnar möguleikann á því að efnt sé til ófriðar innan sveitarfélaganna milli annars vegar sveitarstjórnarinnar sjálfrar og hins vegar meiri hluta í húsnæðisnefnd. Þetta var rætt vel og lengi í hv. Ed. að því er mér er best kunnugt. Á þessu var gerð ákveðin breyting til að koma til móts við þetta sjónarmið, þ.e. í bæjarfélögum sem eru með fleiri en tíu þúsund íbúa. En þau eru ekki nema þrjú talsins --- er það? Ég held ekki, þannig að vandinn er auðvitað fyrir hendi áfram í öðrum sveitarfélögum. Þar að auki gengur brtt. ekki nógu langt til þess að leysa vanda hinna. --- Þau eru reyndar fjögur talsins. Ég ætla ekki að láta uppi hvaða sveitarfélagi ég gleymdi, enda skiptir það engu máli. Brtt. gengur sem sagt of skammt að mínum dómi þó að hún sé viss viðurkenning á þessu vandamáli sem hér er verið að benda á og tala um.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta atriði en tel skylt að um þetta verði fjallað nánar hér í deildinni og þeirri nefnd sem um þetta mun fjalla, hv. félmn., enda hygg ég ekki að það muni koma neinum manni á óvart.
    Í frv. eru jafnframt gerðar nokkrar breytingar á lánstíma að því er varðar lánaflokka hjá Byggingarsjóði verkamanna. M.a. er gert ráð fyrir því að lengja tiltekin lán, lán til félagslegra leiguíbúða og til kaupleiguíbúða upp í 50 ár --- hálfa öld. Ég vil leyfa mér að spyrja ráðherrann að því hvað vaki eiginlega fyrir fólki með því að ætla að veita svo löng lán. Ég held að það sé mjög vandséð hvaða skynsemi geti verið þar að baki. Vissulega eru 43 ár langur lánstími og 40 ár, eins og er í Byggingarsjóði ríkisins, en hvaða ástæða er
til þess að lengja þetta upp í 50 ár? Ég geri mér ekki grein fyrir því hvaða nauður rekur til þess, enda er það ekkert rökstutt, að því að ég fæ best séð, hvorki í nál. né grg. frv. Auðvitað vantar alla útreikninga á því hvaða áhrif slík lántaka hefur á fjárhag sjóðsins. Eins og reyndar vantar í þetta mál allt. Það er engin heildarúttekt sem fylgir. Það er engin úttekt á því í frv. hvað það þýðir fjárhagslega. T.d. þetta atriði að lengja lánstíma upp í 50 ár á einum tilteknum lánaflokki. Það þýðir auðvitað það að endurheimtur í sjóðinn verða lakari á lánstímanum og hefur ekki jákvæð áhrif á fjármagnsstöðu sjóðsins. Þannig að ég fæ ekki séð að neina sérstaka ástæðu hafi borið til að

leggja þessa breytingu til.
    Nú er það þannig að þrátt fyrir allt tal um einföldun í þessum málum, sem vissulega væri full ástæða til að standa að, þá er, eins og ég sagði áðan, eingöngu gert ráð fyrir því að það fækki um einn lánaflokk. Hins vegar er alls kyns svona hlutum bætt inn í. Það er verið að breyta hér lánstíma og breyta ýmsum öðrum framkvæmdalegum atriðum sem síst horfa til einföldunar.
    Ég vil næst víkja að 69. gr. gildandi laga sem eru í t-lið 3. gr. frv. Það er erfitt að henda reiður á svona frv. sem er raunverulega bara ein grein upp á margar blaðsíður. Það er 3. gr. frv., t-liður, sem fjallar um 69. gr. gildandi laga. Ég bið nú ráðherra og aðra viðstadda að taka vel eftir. Þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Hafi framkvæmdaraðili áður hafnað forkaupsrétti að félagslegri íbúð skal ekki veitt lán úr Byggingarsjóði verkamanna næstu þrjú ár frá því forkaupsrétti var hafnað.``
    Þess má geta að þar sem mest er byggt, hér á suðvesturhorni landsins, er kostnaður við að festa sér húsnæði að jafnaði mun hærri en annars staðar svo ekki bætir það úr skák. Samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar frá því í desember sl. um kostnað þéttbýlismyndunar er sú upphæð sem fjölskyldur á þessu svæði binda í húsnæði yfirleitt 50--60% hærri en gerist annars staðar á landinu. Og samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar frá 1988, sem ég vitnaði til fyrr í máli mínu, hafa um 40% ungs fólks milli tvítugs og þrítugs lent í alvarlegum fjárhagserfiðleikum við að festa sér húsnæði eða byggja og um fjórðungur fólks á aldrinum 30--40 ára hefur sömu sögu að segja. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif slíkt hefur á fjölskyldulífið. Ofan á það bætist að það er á þessum árum sem fólk er að jafnaði að reyna að tryggja sér þak yfir höfuðið að oftar en ekki eru lítil börn á heimilunum. Börn sem eiga í fá hús að venda því ekki eru til dagvistarrými fyrir þau öll, og raunar fyrir skammarlega fá þeirra.
    Um fjölskyldur einstæðra foreldra þarf ekki að fara mörgum orðum í kapphlaupinu um eignarhúsnæði. Líkurnar til að dæmið gangi upp í þeim tilvikum eru sjaldan miklar. Kaup einnar fyrirvinnu og lág meðlög og aðrar bætur hreinlega hrökkva ekki til. Og hverra úrræða annarra er völ? Leiguhúsnæðis að vísu. Flestir byrja á því að leita fyrir sér á svokölluðum frjálsum leigumarkaði, því fram til þessa hafa félagslegar leiguíbúðir þótt neyðarbrauð en ekki raunhæft val. Svo ég skýri þetta dæmi þá bjuggu tæplega 10% íbúa landsins í almennu leiguhúsnæði árið 1988 og liðlega 8% í viðbót í öðru leiguhúsnæði, óskilgreindu. Af þeim hópi töldu um 20% sig búa í lélegu húsnæði eða mjög lélegu, en aðeins örlítið brot, eða 2--3% annarra sem spurðir voru. Ofan á þetta bætist að leiguhúsnæði er oft mjög dýrt og afskaplega ótryggt. Eða hver kannast ekki við sífellda leit leigjenda að nýju húsnæði þar sem smá öryggi fæst eða stundargrið? Þetta veldur mikilli röskun á högum fólks. Börn þurfa að skipta um skólahverfi sí og æ og skjóta ekki rótum

neins staðar þegar illa tekst til. Við verðum að horfast í augu við þennan veruleika og þær aðstæður sem við búum börnum. Skipuleg uppbygging sómasamlegs leiguhúsnæðis er því hagsmunamál þeirra sem nú leigja og réttindamál þeirra sem kjósa að taka ekki þátt í séreignarkapphlaupinu.
    Ég tel það frv. sem hér er lagt fram á margan hátt mæta þeim breyttu áherslum sem þurfa að verða í byggingu húsnæðis þar sem svigrúm fyrir byggingu leiguhúsnæðis er aukið verulega. Bygging félagslegs húsnæðis er sá þáttur húsnæðismála sem kvennalistakonur hafa einatt lagt mesta áherslu á enda brýnast að gæta hagsmuna þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Því fagna ég þessu frv. og vona að það eigi sinn þátt í að breyta aðstæðum fólks til að eignast þak yfir höfuðið til hins betra.
    Ég geri ráð fyrir að fá tækifæri til þess að athuga þær góðu ábendingar sem fram hafa komið fram og munu koma í þessari umræðu í hæstv. félmn. þar sem ég á sæti. Reynslan ein mun að sjálfsögðu skera úr um hver þróun húsnæðismála verður á næstu árum. Vonandi verður meira val um húsnæði til eignar, leigu eða kaupleigu og raunhæfari möguleikar á að tryggja sér öruggt húsnæði en nú er fyrir alla þegna landsins.