Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu málaflokkur sem er ákaflega fjárfrekur, stór og þýðingarmikill, skiptir miklu fyrir mjög marga í landinu, hefur mjög mikil áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar og er að öllu leyti stór í sniðum og þannig að hann skiptir miklu máli. Maður hefði þess vegna getað ímyndað sér þegar hæstv. félmrh. ákvað að láta fara fram algjöra endurskoðun á þessu fyrirkomulagi að um það yrði reynt að ná mikilli pólitískri samstöðu í landinu. Samstöðu með hagsmunasamtökum, samstöðu með öllum stjórnmálaflokkum í landinu. Með öðrum orðum að reynt yrði að standa svipað að málum og gert var þegar hið almenna húsnæðiskerfi tók stakkaskiptum með breytingu sem urðu á lögum þar að lútandi fyrir ekki löngu síðan. Þannig yrðu kallaðir til verksins fulltrúar allra stjórnmálaflokka í landinu, ekki síður stjórnarandstöðu en stjórnaraðstöðu. Þegar þessa er gætt kemur fram í aths. við frv. að hlutverk nefndarinnar sem skipuð var var ekki mjög lítið. Það var hvorki meira né minna en að leggja fram tillögur um endurbætur á fyrirkomulagi lánveitinga til félagslegra íbúðabygginga með það að markmiði að einfalda lánafyrirkomulag og auka skilvirkni félagslega íbúðalánakerfisins.
    Nefndinni var jafnframt falið að gera tillögur um breytt fyrirkomulag á stjórnun og úthlutun á félagslegri aðstoð í húsnæðiskerfinu. Enn fremur að gera tillögur um framkvæmd ráðstafana og leiða til að auka framboð leiguhúsnæðis og jafna húsnæðiskostnað leigjenda til samræmis við húseigendur, eins og efnislega stendur í skipunarbréfi nefndarinnar. Þegar þess er líka gætt að það er jú á stefnuskrá hæstv. félmrh. að auka vægi þessa kerfis í húsnæðismálum landsmanna, bæði hlutfallslega og eins að raungildi, hefði mátt vænta þess að kostað yrði kapps um það að leita sem mestrar samstöðu um svona þýðingarmikið mál. Þessu er þó ekki að heilsa. Það eru að vísu kallaðir til fulltrúar einhverra hagsmunasamtaka í landinu en þess hins vegar vandlega gætt
að fulltrúar stjórnarandstöðunnar, m.a. fulltrúar Sjálfstfl., stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar, kæmu hvergi nærri því verki.
    Með þessu var auðvitað girt fyrir það að hægt væri að tryggja eða a.m.k. stefna að pólitískri samstöðu um þetta mál sem þó er í eðli sínu bæði umfangsmikið og viðkvæmt. Þetta vekur auðvitað mjög mikla undrun en hlýtur jafnframt að kalla á ýmis viðbrögð, ekki síst þegar getur að líta afrakstur nefndarstarfsins, sem að ýmsu leyti hefur að vísu orðið málinu til framdráttar, en er líka því marki brenndur að mjög skortir á að hægt hafi verið að taka á þeim vandamálum sem uppi hafa verið í þessu félagslega íbúðakerfi og hafa m.a. gert það að verkum að þetta kerfi hefur engan veginn þjónað þeim markmiðum sem því voru sett í upphafi og hefur verið að stefnt allt frá árinu 1929 þegar lög um þessi mál voru fyrst sett.
    Það er ljóst að þáttur hins félagslega íbúðakerfis

hefur á undanförnum árum vaxið mjög mikið. Fyrstu 40 árin voru einungis teknar í notkun á vettvangi þessa kerfis um 1750 íbúðir. Á næstu 20 árum voru hins vegar teknar í notkun 5200 íbúðir. Þannig hefur þetta kerfi verið stigvaxandi og þó sérstaklega á síðustu árum, enda er svo komið að það er markmið húsnæðiskerfisins í landinu nú að stefna að því að a.m.k. þriðjungur húsnæðis í landinu verði innan vébanda hins félagslega húsnæðiskerfis. Að þriðjungur af árlegri íbúðaþörf landsmanna skuli vera innan vébanda hins félagslega húsnæðiskerfis.
    Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir þá staðreynd að ár frá ári hafa fjárveitingar til félagslega íbúðakerfisins vaxið og þrátt fyrir að útlán hins félagslega íbúðakerfis verða eitthvað nálægt 5 milljörðum á þessu ári, þá er undan því kvartað í aths. frv. að biðlistar séu langir og við séum enn þá ekki búin að ná því að uppfylla þarfirnar, eins og komist er að orði í frv. og aths. víða. Það er engan veginn búið að ná því að uppfylla þarfirnar sem sagðar eru vera á hinu félagslega íbúðakerfi í landinu.
    Það er nefnilega þannig að hugtakið þörf í þessu sambandi er býsna afstætt. Þarfirnar eru býsna afstæðar og það er athyglisvert að þrátt fyrir þessa miklu aukningu þá erum við enn þá að elta skottið á okkur, við erum enn þá að glíma við biðlistana og við erum enn þá að glíma við það ,,vandamál`` sem vissulega er vandamál á ýmsan hátt en þó ekki að öllu leyti, því að sumu leyti er hér um að ræða tilbúið vandamál, þá erum við að glíma við þetta vandamál að þrátt fyrir sívaxandi fjárstreymi innan þessa kerfis erum við ekki enn þá búin að ná því markmiði að ná utan um þarfirnar.
    Þetta er reyndar ákaflega vel rakið í bókun sem fulltrúi Vinnuveitendasambandsins gerði á fundi í húsnæðismálastjórn sem haldinn var 4. apríl sl. þegar verið var að fjalla um tillögur um lánveitingar til byggingar á félagslegum íbúðum á þessu ári. Þar er einmitt dregið fram hversu skilgreiningin á hugtakinu ,,þarfir`` sé lausbeisluð í þessu kerfi og fjarri því að vera fullnægjandi. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í greinargerð fulltrúa Vinnuveitendasambandsins, Pálma Kristinssonar, þar sem hann víkur að þessu. Hann segir svo:
    ,,Þá tel ég orðið löngu tímabært að endurskoða opinbera stefnu og skilgreiningu á þörfunum fyrir félagslegar íbúðir. Svo virðist sem þessi íbúðaþörf, nú talin vera rúmlega 6000 íbúðir samkvæmt skilgreiningu umsækjenda, sé nánast ótakmörkuð á hverjum tíma og að mestu óháð ytri aðstæðum í þjóðfélaginu. Spurningin er sú hvort ekki sé ástæða til að opna félagslega kerfið, sem nú telur um 7000--8000 íbúðir, í hinn endann þannig að þeir sem búa í félagslegum íbúðum og ekki þurfa lengur á félagslegri aðstöðu að halda víki fyrir þeim sem sannanlega þurfa á aðstoðinni að halda, svo sem fólki með lágar tekjur, einstæðum foreldrum og fólki sem býr við skerta starfsorku vegna heilsufars.``
    Í þessu frv. er sannast sagna lítt tekið á þessu vandamáli. Og enn þá, ef fram heldur sem horfir,

verður um það að ræða að bilið milli þarfanna og framboðsins mun aukast þrátt fyrir stórvaxandi fjárveitingar inn í þetta kerfi. Við verðum stöðugt að halda áfram að elta skottið á okkur í þessum efnum og frv. leysir engan veginn þetta stóra vandamál sem þó er við að glíma.
    Sumt er það í þessu frv. þó sem er til bóta. Ég nefni sem dæmi, og tel það kannski hvað þýðingarmest, að með þessu frv. er viðurkennt að það skipulag sem gilt hefur um yfirstjórn þessa bákns hefur gjörsamlega gengið sér til húðar. Þetta úrelta, stirða og stundum jafnvel hálfspillta kerfi stjórna verkamannabústaða hefur gengið sér til húðar og verður ekki lengur á vetur setjandi. Húsnæðisnefndirnar, sem ætlað er að leysa þetta kerfi af hólmi, eru vissulega til bóta þó að taka beri undir þá ábendingu sem fram kom í áliti minni hl. hv. félmn. sem hafði þetta mál til umsagnar í hv. efri deild, þar sem bent var á þessa undarlegu mótsögn að þrátt fyrir að allri ábyrgð sé lýst á hendur húsnæðisnefndunum getur svo farið að húsnæðisnefndirnar verði í andstöðu við sveitarstjórn og þar getur auðvitað komið upp ákaflega ankannaleg aðstaða. Vitanlega ætti það að vera þannig að meiri hluti sveitarstjórnar á hverjum stað hefði vald til þess að skipa meiri hluta húsnæðisnefndanna ef samræmi á að vera á milli þess markmiðs frv. að gera ábyrgð framkvæmdaraðila skýrari, eins og talað er um í aths. frumvarpstextans. Þetta er auðvitað sjálfsagt leiðréttingarmál sem undarlegt er að meiri hl. hv. efri deildar skyldi ekki taka undir.
    Ég vek athygli á því að það kerfi sem við erum hér að tala um veltir um það bil 5 milljörðum kr. á þessu ári hvað lánveitingar áhrærir. Til samanburðar vil ég geta þess að áætlað er að lánaúthlutanir Byggingarsjóðs ríkisins verði á þessu ári ekki nema 7,7 milljarðar kr., sem er ekki há upphæð í samanburði við kerfi hins félagslega þáttar, þegar þess er nú gætt að í lagatextanum, og raunar því frv. sem hér liggur fyrir, er það markmið sett að stefnt skuli að því að um þriðjungi af árlegri íbúðaþörf landsmanna skuli fullnægt í gegnum hið félagslega kerfi. Eins og málunum er stillt upp í ár er greinilega ætlunin að ganga miklu, miklu lengra. Það verður ekkert um að ræða að einungis þriðjungnum af íbúðaþörfinni verði fullnægt í gegnum hið félagslega kerfi, hér er verið að tala um nálægt 55% af árlegri nýbyggingaþörf, samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá stjórn Húsnæðisstofnunar, að 55% af árlegri nýbyggingaþörf á þessu ári fari inn í þetta kerfi. Hér er þess vegna um það að ræða að vitandi vits er verið að gerbreyta húsnæðiskerfinu í landinu á þann veg að það er verið að rýra gildi séreignarstefnunnar, koma í veg fyrir að séreignarfyrirkomulagið hafi þá stöðu sem það hefur haft í landinu um áratuga skeið og hefur verið aðalsmerki okkar og hefur verið lengst af þegjandi samkomulag um að halda sem mest og best á lofti. Hér er greinilega verið að reyna með þessu frv. að festa í sessi algjöra stefnubreytingu að þessu leytinu og það er vissulega miður.

    Ég held nefnilega að þrátt fyrir hin fögru orð og þrátt fyrir orðaleppa eins og félagslegar íbúðir, félagslegt kaupleigukerfi og félagslegt kerfi að öllu leyti, þá fari því víðs fjarri að það kerfi sem hér er verið að tildra upp af veikum mætti sé á einn eða annan hátt líklegt til að tryggja þá kjaralegu jöfnun sem að er stefnt í orði kveðnu og vissulega var stefnt að af þeim frumherjum sem fyrstir manna lögðu í það að reyna að byggja upp félagslegt íbúðakerfi í landinu. Ég held nefnilega að á margan hátt, og sérstaklega séð frá sjónarhóli landsbyggðarinnar, sé þetta kerfi í andstöðu við allar hugmyndir um félagslegt réttlæti í landinu. Þetta kerfi er í eðli sínu biðraðakerfi, þetta er kerfi biðraða að pólskri fyrirmynd, kerfi sem býður upp á hættuna á pólitískri misnotkun, kerfi sem aldrei getur svarað þörfunum sem því er ætlað að svara og getur jafnvel orðið til þess að auka vanda þess fólks sem vísað er inn í þetta kerfi til þess að leita lausnar á sínum húsnæðisvanda. Þetta kerfi getur orðið til þess að binda fé sveitarfélaganna meira en góðu hófi gegnir og það eru raunar mörg dæmi um það að kaupskylduákvæði laganna hafi orðið til þess að stefna fátækum, smáum sveitarfélögum í stór vandræði. Ég þekki m.a. dæmi um lítið sveitarfélag þar sem þannig háttaði til að þar var mikil vinna, fólk vann mikið og vegna þessa náði það því að hafa miklar tekjur. Þetta gerði það að verkum að það fannst ekki í þessu litla sveitarfélagi einn einasti umsækjandi sem fullnægði þeim
reglum sem uppi voru um lágmarkstekjur til þess að komast inn í þetta kerfi. Vegna kaupskylduákvæða þá sat sveitarfélagið hins vegar uppi með það að vera búið að binda stórfé í þessu kerfi og gat sig hvergi hrært. Og þetta var allt saman gert í nafni einhvers byggðarlegs réttlætis, í nafni þess að styrkja ætti dreifðar byggðir í landinu með þessu kerfi.
    Hafi framkvæmdaraðili áður hafnað forkaupsrétti að félagslegri íbúð skal ekki veitt lán úr Byggingarsjóði verkamanna næstu þrjú ár frá því að forkaupsrétti var hafnað. Það á sem sagt að loka sjóðnum, það skulu ekki veitt frekari lán úr Byggingarsjóði verkamanna. Það er það sem stendur hérna í textanum. Það á að loka sjóðnum ef einhver framkvæmdaraðili hefur hafnað forkaupsrétti að félagslegri íbúð. Textinn segir það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé ekki þetta sem vakir fyrir flm. frv., að loka sjóðnum ef einhver einn framkvæmdaraðili hafnar forkaupsrétti. En það er það sem stendur í frv.
    Þetta er til marks um þá hroðvirkni sem einkennir þessi vinnubrögð og þetta er til marks um það að þessu frv. hefur verið kastað hér inn í skyndingu án þess að hafa fengið nægilegan yfirlestur og umfjöllun. Eins og þetta frv. er núna, ef það verður að lögum, þá á að hætta að veita lán úr Byggingarsjóði verkamanna í þrjú ár eftir að einhver framkvæmdaraðili hefur hafnað forkaupsrétti. Síðan segir til viðbótar: ,,Þetta á þó ekki við ef íbúðin hentar ekki að teknu tilliti til fyrirliggjandi umsókna.`` En villan er þarna fyrir hendi. Ég held að þetta hljóti

að vera villa vegna þess að ég held að það geti ekki verið ætlun nokkurs manns að skrúfa fyrir kerfið þó einhver einn aðili hafni forkaupsrétti. Það vantar auðvitað inn í þessa setningu: skal ekki veitt lán ,,til viðkomandi framkvæmdaraðila`` úr Byggingarsjóði verkamanna næstu þrjú árin, eða eitthvað í þeim dúr. Mér sýnist að það hljóti að liggja í augum uppi. Þetta atriði er náttúrlega nokkuð sem ég geri ráð fyrir að nefndin leiðrétti og þess vegna ástæðulaust að hafa um það fleiri orð.
    Ég skal reyna að draga saman mitt mál, herra forseti. Ég tel að vissulega séu ýmis atriði til bóta í frv., m.a. þau sem ég hef nefnt og sem varða endurskoðun vaxtakjara og hugsanlega almenna hækkun á vöxtum, þó með því skilyrði að vaxtabætur nýtist þeim verr settu, ákvæðið um hækkun tekjumarks hjá hjónum miðað
við einstaklinga, ákvæðið um viðurlög við óleyfilegri útleigu og til að mynda ákvæðið um að lána megi til bílskýla. Þessi ákvæði eru öll til bóta. Ég tel engu að síður að í frv. sé mörkuð stefna sem ekki sé í rétta átt og með þessu sé leynt og ljóst verið að koma sem flestum inn í eitthvert, það sem ég hef leyft mér að kalla hér í þessum ræðustól, eitthvert skandinavískt kratakerfi þar sem allir eru annaðhvort í leiguhúsnæði, eða sem flestir, eða þá í einhvers konar félagslegri náð þar sem umboðsmenn valdsins deila, drottna og úthluta. Þetta er ekki það sem Íslendingar vilja, þetta er ekki það. Og það er óskynsamlegt að banna mönnum að verja meiru en einum þriðja af sínum tekjum til húsnæðisöflunar ef menn vilja gera það og ef menn treysta sér til þess og hafa til þess aðstæður.
    Ég hef rakið, herra forseti, ýmis önnur atriði þeirri skoðun minni til stuðnings að stefnan með frv. sé ekki sú rétta. Og ég hef rakið nokkrar meinlokur sem ég tel mig hafa fundið í þessu frv. og nokkur atriði sem ég sé ekki ástæður fyrir, eins og þetta með 50 ára lánstíma á tilteknum lánaflokki. Ég vil ljúka máli mínu með því að láta það enn á ný koma fram að engar upplýsingar hafa fylgt þessu frv. þar sem úttekt er gerð á fjárhagsstöðu sjóðsins, annars vegar án þess að frv. verði samþykkt, að óbreyttum lögum, og hins vegar eftir þá breytingu sem hér er lögð til. Og þó það séu einhverjar óljósar upplýsingar um að þetta hafi engin áhrif á fjárhagsstöðu sjóðsins eða þetta komi allt saman út á sléttu, þá held ég að það sé lágmarkskrafa að lögð séu fram haldbær gögn um þetta atriði, hvaða áhrif frv. hefur á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna og þar af leiðandi á útgjaldaþörf ríkissjóðs til þessa málaflokks í framtíðinni. Vegna þess, eins og ég sagði í upphafi, að þetta eru ekki bara húsnæðismál, þetta eru ekki bara hagsmunamál fyrir þá sem njóta góðs af þessu kerfi í nútíð og framtíð, þetta er líka spurning um fjárhagsskuldbindingar ríkissjóðs í framtíðinni. Og allir vita hvernig komið er fjárhag ríkissjóðs undir núverandi stjórn þeirra mála. Ef verið er að binda ríkissjóði nýjar skuldbindingar fram í tímann er full ástæða til þess að það liggi skýrt fyrir. Það þarf þá ekki að koma neinum á óvart og menn geta ekki sagt

eftir á að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Það vantar sem sagt þessar upplýsingar.
    Ég hef rakið það að ekki eru fullnægjandi skýringar á því í frv. hversu margir hafi notið góðs af því að geta keypt sér íbúð í Byggingarsjóði verkamanna með viðbótarláninu. Það liggur ekkert fyrir um það hvað hlutfall þeirra er hátt miðað við hina sem hafa reist sér hurðarás um öxl með því láni. Þar af leiðandi er enginn samanburður gerður heldur í þessum málum um greiðslubyrði þess að leigja, eins og þessu fólki er sagt að gera með þessu frv., og hins vegar því að eignast íbúð í þessu kerfi, hugsanlega með
viðbótarláni upp í 100% eins og nú er möguleiki á. Það eru engin rök fyrir því að sá hópur hafi efni á því að leigja en hafi ekki efni á því að standa undir þeim lánum sem nú eru í boði.
    Það eru heldur engar upplýsingar í þessu frv. um hvaða áhrif þetta mundi hafa á fjárhag sveitarfélaganna eða á íbúðamarkaðinn almennt eða á það sem mönnum verður nú tíðrætt um, skiptingu íbúðarbygginga og íbúðarhúsnæðis milli landsbyggðarinnar annars vegar og Reykjavíkursvæðisins hins vegar. Það eru heldur engar upplýsingar um það hve miklar vaxtaniðurgreiðslur þarf úr ríkissjóði vegna þessa frv. í framtíðinni, en það er auðvitað hluti af dæminu um áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Það er engin haldbær skýring á því hvers vegna á að stefna að því að þriðjungur allra íbúða hér í landinu skuli framvegis byggður í hinu svokallaða félagslega kerfi. Af hverju?
    Er það ekki markmið okkar að reyna að auka tekjur fólksins í landinu þannig að sem flestir geti byggt sér húsnæði án þeirrar niðurgreiðslu sem hér er verið að tefla um? Er það ekki markmið allra stjórnmálaflokka í landinu að bæta kjörin þannig og þess vegna raunverulega fækka þeim sem þurfa á aðstoð sem þessari að halda, þó hún sé vissulega nauðsynleg? Ég hélt að það væri sameiginlegt markmið allra stjórnmálaflokka. En markmiðið með þessu frv. er að hafa sem flesta landsmenn í þeirri stöðu að þeir ráði ekki við að kaupa sér íbúð með almennum kjörum. Auðvitað er þetta kolrangt markmið og enginn rökstuðningur fyrir því í frv. eða í því nál. sem ég gat um, sem liggur að baki frv.
    Herra forseti. Ég hef dregið saman mál mitt og hyggst ekki lengja þessa umræðu að sinni. Ég tel að þetta mál þurfi miklu betri skoðun en raun ber vitni. Ég tel að mun betur þurfi að fara yfir fjárhagslega hlið málsins, eins og ég hef sagt. Ég tel að líka þurfi að móta nýja stefnu í þessum málum almennt sem hefur það að markmiði að gera sem flestum Íslendingum kleift að eignast þak yfir höfuðið, með sem minnstri aðstoð ríkisins en ekki að gera sem flesta Íslendinga að skjólstæðingum þess félagslega kerfis sem hér er ætlunin að þenja út á margvíslega lund, m.a. með því að taka inn í markmiðsgrein laganna um Húsnæðisstofnun sérstakt ákvæði varðandi þá sem leigja. Það hefur einmitt verið markmiðið með Húsnæðisstofnun ríkisins að fækka þeim sem það gera

gegn vilja sínum. Ég tel því að hér þurfi margt að skoða og það þurfi að huga að annars konar stefnumótun sem er meira í ætt við það sem ég hef ástæðu til að halda að sé vilji landsmanna sjálfra, að menn séu sjálf sín húsbændur í eigin húsnæði og geti borið höfuðið hátt en þurfi ekki að lúta vilja valdsmanna, hvorki á vegum ríkis né sveitarfélaga, nema í eins litlum mæli og frekast er mögulegt.
    Ég læt þetta verða mín lokaorð, herra forseti, en áskil mér rétt til þess að fara vandlega í þetta mál í nefndarstarfinu í góðri samvinnu við aðra nefndarmenn, eins og raun hefur orðið á um önnur mál sem fjallað hefur verið um í hv. félmn. á þessum vetri.