Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Um tilraunastöðina á Reykhólum er fjallað í lögum nr. 57 31. okt. 1944. Samkvæmt þeim lögum á reyndar að reka tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum. Þar var enda upphaflega rekin öflug tilraunastöð í jarðrækt. Sú starfsemi er nú og hefur reyndar um nokkurt skeið verið þar hverfandi lítil þrátt fyrir þetta ákvæði laganna. Það er því langur vegur frá því að í raun og veru hafi starfseminni verið í einu og öllu háttað eins og þau þó kveða á um. Þar hefur hins vegar verið rekið sauðfjárbú og sinnt þar merkilegu rannsóknarstarfi, eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda. Svo hefur hins vegar tekist til hin síðari ár að vaxandi efasemdir hafa verið uppi um það að fjárveitingar hreinlega leyfðu Rannsóknastofnun landbúnaðarins að reka alla þá tilraunastarfsemi sem hún hefur haldið uppi að undanförnu og lög gera ráð fyrir að heimilt sé að reka.
    Vísa má í þessu sambandi til umræðna sem urðu hér á Alþingi á árinu 1983 þegar hv. þáv. þm. Kjartan Ólafsson spurði þáv. landbrh. um tilraunastöðina á Reykhólum. Í svari landbrh., Jóns Helgasonar, kom einmitt fram að fjárhagsvandi tilraunastöðvanna hefði farið mjög vaxandi undanfarin ár. Sótt hefði verið um aukafjárveitingar en þær ekki fengist. Stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefði þess vegna ekki séð sér annað fært en að gera tillögur til ráðherra um sparnað í þessum rekstri vegna ónógra fjárveitinga og var þar m.a. með hugmyndir uppi um að leggja af sauðfjártilraunabúið á Reykhólum.
    Sérstaklega rammt hefur þó kveðið að þessu frá og með árinu 1988. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 voru fjárveitingar til tilraunastarfsemi á verksviði Rannsóknastofnunar landbúnaðarins skornar mjög niður. Samþykkti Alþingi þá fjárveitingu til tilraunastarfseminnar, óskipta, þannig að ekki var um að ræða fjárveitingu til einstakra tilraunastöðva, eins og verið hafði, heldur fékk Rannsóknastofnun landbúnaðarins mjög svo nauma fjárveitingu sem var óskipt til tilraunastarfsemi.
    Ég hygg að hv. alþm. þekki þessa sögu. Hún er í raun og veru meginskýringin á því að stjórnvöld, stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og landbrn. hafa séð sig knúin til þess, vegna ákvarðana fjárveitingavaldsins, ákvarðana Alþingis, að gera ráðstafanir til þess að ekki legðist af með öllu allt tilraunastarf í landbúnaðinum að þessu leyti.
    Þegar spurt er um hvaða lagaheimildir séu til þess að ekki sé haldið úti einhverri starfsemi, sem lög heimili eða geri ráð fyrir, þá er svarið af minni hálfu þetta: Lagaheimildin er sú ákvörðun Alþingis sjálfs að veita ekki peninga til þess að halda úti umræddri starfsemi. Í því felst að sjálfsögðu ákvörðun löggjafarvaldsins um það. Ég bendi hv. þm. á að í grg. með fjárlögum undanfarin ár hefur skýrður vandi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins af þessum sökum. Það hefur verið skýrt af hálfu Rannsóknastofnunar og landbrn. að öllum tilraunastöðvunum yrði ekki haldið

úti við þær fjárveitingar sem skammtaðar hafa verið undanfarin ár. Þar bera allir stjórnmálaflokkar ábyrgð, að einum eða tveimur undanskildum, og bæði fyrri og núverandi ríkisstjórnir.
    Varðandi sauðfjárstofninn á Reykhólum og það hvort ákvörðun hafi verið tekin um að skera hann niður þá er svarið nei. Þvert á móti er þegar búið að flytja hluta af stofninum á sauðfjárbúið á Hesti og þar verður hann ræktaður og varðveittur. Í öðru lagi geri ég ráð fyrir því að unnt verði að halda sauðfjárstofninum við í Reykhólasveit eða á Barðaströnd. Í þriðja lagi kunna að vera möguleikar á hinu sama í gegnum sæðingarstöðvar. Og ég hef ekki hugsað mér að flytja fullvirðisrétt burtu úr Reykhólasveit eða af Barðaströnd með tilliti til byggðaaðstæðna þar.