Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég met það með sama hætti og hæstv. landbrh. að hann verður ekki einn sakaður um þá ákvörðun, sem hann virðist hafa tekið en sem hann hefur reyndar ekki lög fyrir og hér hefur greinilega verið frá sagt, um að fella niður rekstur á tilraunastöðinni á Reykhólum. Ég minni á að það eru til fleiri lagagreinar um þessi efni. Því að í lögum um Rannsóknastofnun landbúnaðarins, þar sem kveðið er á um tilraunastöðvarnar, er mælt svo fyrir að Rannsóknastofnun landbúnaðarins beri að viðhalda rekstri og tilraunum á tilraunastöðvunum, eins og þær voru þá. Þetta er allt saman tvímælalaust.
    Hæstv. landbrh. sagði að gengið hefði saman um fjárveitingar til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Það fæ ég reyndar ekki séð. Spurningin er hins vegar hvernig þessu fjármagni er ráðstafað. Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur haft, og hefur enn, að umtalsverðu leyti svigrúm til þess að veita fé til hinna einstöku sameiginlegu þátta Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Staðreyndin er hins vegar sú að minnstu stöðvarnar, á Skriðuklaustri og Reykhólum, hafa verið látnar sitja við þrengstan kostinn. Þar sem mest var þörfin, þar sem bændurnir þurftu helst á því að halda, þar var dregið saman í fjármagni, þar var dregið saman í starfsemi. En hér uppi á Keldnaholti var starfsemin aftur á móti að sama skapi efld og hefur þannig dregið til sín fjármagn í síauknum mæli. Þetta eru staðreyndir málsins.
    Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu. Ég minni á það, sem reyndar hefur komið hér fram, að málefni tilraunastöðvanna eru á dagskrá, verða vonandi rædd síðar á þessum degi og þá gefst betra ráðrúm til að fjalla um þessi mál. Ég vona að sú umræða og sú barátta sem þar hefst verði til þess að gera mönnum það fullkomlega ljóst að ekki verður þoluð sú aðför sem höfð er í frammi gagnvart tilraunastöðinni á Reykhólum og tilraunastöðinni á Skriðuklaustri.