Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Fjárveitingavaldið er þingsins en ekki framkvæmdarvaldsins. Sökudólgurinn í því að hafa ekki veitt fjármuni til að standa við lög landsins er Alþingi Íslendinga og þeir þingmenn þá sem hér hafa setið og borið ábyrgð á þeirri afgreiðslu. Ég hygg að það fari ekki á milli mála, sem hér hefur komið fram, að lögin um Reykhóla eru ótvíræð. Ef ég man það rétt þá er þar talað um rannsóknastöð fyrst og fremst í jarðrækt og verkefnin eru ærin á Íslandi á því sviði. Ég vil aftur á móti undirstrika það að hið mikla starf sem þar var unnið í ræktun á fé með hvíta ull er ekki lagt niður, því verður haldið áfram. Við skulum vona að þeim fjárstofni verði dreift um allt land í gegnum sæðingarnar, en aðeins með því móti má gera ráð fyrir að þær rannsóknir skili sér út til bændanna og komi þar með til með að hafa áhrif á ullarfar hins íslenska fjárstofns.
    Það er aftur á móti saga út af fyrir sig hvernig á því stendur að Íslendingum datt það í hug að rækta annars vegar fé til kjötframleiðslu og hins vegar til ullarframleiðslu í stað þess að festa þetta saman, eins og gert hefur verið annars staðar.