Tilraunastöðin á Reykhólum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur komið hér skýrt fram að ótvíræð lagafyrirmæli kveða á um það að tilraunum skuli haldið úti af hálfu ríkisins á tilraunastöðvunum á Reykhólum og Skriðuklaustri sem og öðrum tilraunastöðvum ríkisins. Ekkert leysir framkvæmdarvald undan þeirri skyldu að hlíta þessum lögum annað en að breyta lögunum sjálfum. Þetta hefur ekki verið gert.
    Ég vakti athygli á því í 3. umr. fjárlaga þann 21. des. sl., að þó að fjárveitingar væru skornar niður, m.a. á ábyrgð hv. 2. þm. Vestf. sem hér talaði, þá leysir það ekki ríkisvaldið undan því að fara að lögum. Hér er eitt dæmið enn um það að þeir sem nú sitja í ráðherrastólum á Íslandi telja að þeir geti hagað framkvæmdum sínum á m.a. fjárreiðum ríkisins án þess að lögum sé fylgt og að lög beri að framkvæma bara eftir þeirra eigin geðþótta en ekki eftir lagabókstafnum. Þetta er það sem fyrir liggur.