Um dagskrá
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Nú hefur verið mjög sótt að forseta um að dagskrá verði ekki haldið heldur einstök mál tekin fram fyrir. Bera menn því við að þeir þurfi að fara á fundi. Verði því ekki mótmælt hefur forseti fallist á að taka fyrir 12. mál á dagskrá. Það er fsp. til menntmrh. um samkomulag við námsmenn. (Gripið fram í.) Nú bið ég hv. þingmenn að sætta sig við úrskurð forseta í þessu máli. Það er ljóst að miklar annir eru hér í þinginu. Forseti verður að treysta því að þjóðfélagið fari ekki á hvolf þó að sýnd sé örlítil lipurð eftir því sem menn hafa farið fram á það við forseta. Forseti mun því halda sig við að taka fyrir 12. mál á dagskrá. (Gripið fram í.) Forseti er nú satt að segja furðu lostinn. Hér er verið að halda einn af síðustu þingfundum í sameinuðu Alþingi. Menn verða að sýna hver öðrum ofurlitla tilhliðrunarsemi og eyða ekki hér fundartíma í umræður um þingsköp. Geta menn nú ekki fallist á að hv. 2. þm. Norðurl. e. fái svar við fsp. sinni og þingfundi verði síðan haldið áfram með eðlilegum hætti? Vitaskuld skal forseti ekki neita neinum að ræða um þingsköp en hingað til hafa menn ekki rætt um þingsköp þegar forseti hefur það leyft. Í trausti þess að hv. þm. ætli að ræða þingsköp tekur til máls hv. 18. þm. Reykv.