Málefni LÍN
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Á meðan Alþb. var í stjórnarandstöðu, í febrúar 1987, skömmu fyrir alþingiskosningar, lýsti Svavar Gestsson því yfir að Alþb. tæki ekki sæti í ríkisstjórn nema áður yrði frá því gengið að lögum um námslán yrði framfylgt til hins ýtrasta. Var svo að skilja að frá slíku yrði gengið í málefnasamningi. Í september 1988 varð hv. þm. hæstv. menntmrh. en það vakti athygli námsmanna að við myndun þeirrar ríkisstjórnar var ekki vikið einu einasta orði að málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Af þessum sökum varð hæstv. menntmrh. fyrir vaxandi þrýstingi frá námsmönnum að nú skyldi hann standa við hin stóru orð, kosningaloforðin frá 1987, og varð það til þess að hann lét að lokum undan þrýstingnum og skipaði í nóvember þá um haustið vinnuhóp um lánasjóðinn sem síðan skilaði áliti hinn 26. febr. 1989. Þessu nefndaráliti hampaði menntmrh. mjög í fjölmiðlum og hef ég heyrt því fleygt að ekki hafi verið tilviljun að stúdentaráðskosningar voru þá á næsta leiti og að hæstv. menntmrh. þótti þetta álit gott innlegg í þá málefnabaráttu sem þar fór fram. Af þessum sökum og eins og atburðarásin hefur verið er fyllsta ástæða til að spyrja hæstv. menntmrh.:
,,1. Hvert var efni þess samkomulags sem menntmrh. gerði við námsmenn í febrúar 1989 um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna?
    2. Hverjar hafa efndirnar orðið?``