Málefni LÍN
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Málflutningur hv. 2. þm. Norðurl. e. í þessu efni er, með leyfi forseta, hræsni. Sjálfstfl. hefur engar tillögur flutt á Alþingi um að styrkja Lánasjóð ísl. námsmanna, engar, engar. Hverjir fluttu tillögu um að auka við fjármuni Lánasjóðs ísl. námsmanna á yfirstandandi þingi um 400--500 millj.? Hverjir voru það? Var það Sjálfstfl.? Var það hv. 2. þm. Norðurl. e.? Hv. 2. þm. Reykv.? Hverjir gerðu það? Hverjir gerðu það? Hver skyldi hafa flutt tillögu um að styrkja Lánasjóð ísl. námsmanna á sl. hausti um 400 millj., þannig að nú á þessu ári er Lánasjóður ísl. námsmanna með hærra hlutfall af ríkisútgjöldum en hann hefur nokkurn tímann verið? Hver ætli hafi flutt tillöguna? Ríkisstjórnin, fjmrh. Ríkisstjórnin flutti þá tillögu. Á bak við skvaldrið hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. er því ekki neitt, bókstaflega ekki neitt. Innantóm froða og ekkert annað. Fullkomið alvöruleysi. Honum auðvitað gremst, sem vonlegt er, að núv. menntmrh. hefur staðið við þau pólitísku fyrirheit sem gefin hafa verið um að afnema skerðingarákvæði Sverris Hermannssonar og Ragnhildar Helgadóttur að því er lánin varðar á sínum tíma. Það fer í taugarnar á þeim, svo að ég noti nú venjulegt götuorðalag, það er bersýnilegt, og þess vegna stekkur hann upp hér með þessum hætti. En ég endurtek enn, með leyfi hæstv. forseta: Málflutningur hv. 2. þm. Norðurl. e. í þessu efni er hræsni.