Málefni LÍN
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það liggur alveg fyrir hver þau fyrirheit voru sem núv. menntmrh. gaf sem stjórnarandstæðingur í þessu efni. Það liggur fyrir í till. til þál. um að fela menntmrh. að afnema reglugerð um skerðingar námslána sem ákveðnar voru á sínum tíma. Sú reglugerð hefur núna verið afnumin. Síðasta skrefið í þá átt var ákveðið með reglugerð sem ég gaf út 9. apríl sl. Þessi tími er sem betur fer úr sögunni. Hv. þm. Sjálfstfl. sem hér tala eru auðvitað að reyna að klóra yfir gerðir forvera minna í þessu efni en það mistekst gjörsamlega og ég undrast það að þeir skuli gagnrýna þá skynsamlegu ráðstöfun að reyna að halda þannig á fjármálum Lánasjóðs ísl. námsmanna að þar séu hlutirnir traustir og öruggir á þessu ári, en hér er um að ræða sjóð sem er upp á um það bil 4000 millj. kr. og ég spyr: Eru þessir þingmenn að gera tillögu um aukið fé í Lánasjóðinn? Þeir eru ekki að því. Þeir eru að reyna að klóra yfir þá hluti sem forverar mínir báru ábyrgð á í menntmrn. en það er dæmt til að mistakast. Það sjá námsmenn á sínum réttindum í dag.