Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Reykv. um afstöðu framkvæmdarvalds og stjórnvalda til umboðsmanns Alþingis vil ég láta það koma alveg skýrt fram að hin ítarlega skýrsla umboðsmanns um þetta mál gefur tilefni til þess að huga að starfsháttum bankaeftirlitsins gagnvart verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum á grundvelli gildandi laga. Þannig er skýrsla umboðsmanns gagnlegt innlegg í athugun á og umræður um framkvæmd þessara vandasömu verkefna. Þannig gegnir umboðsmaður sínu hlutverki. En umboðsmaðurinn er ekki dómari þótt ábendingar hans um framkvæmd stjórnsýslunnar geti verið mjög mikilvægar.
    Þessi sjónarmið hef ég látið koma fram áður. Þeim hef ég líka haldið fram við bankaeftirlitið og Seðlabanka Íslands og mun gera. En að öðru leyti hef ég þegar tjáð mig um hina lögfræðilegu hlið málsins og þar sem nú er í vændum, að því er virðist, málshöfðun af hálfu kröfuhafa í þrotabú Ávöxtunar sf. er ekki ástæða til þess fyrir mig að segja fleira um málið að sinni.