Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég verð að hefja mál mitt á því að lýsa því yfir að ég á bágt með að sætta mig við þær skýringar sem hér voru gefnar áðan á breytingu á dagskrá. Það eru fleiri sem eiga annríkt þessa dagana en hv. 2. þm. Norðurl. e. en það er fyrsta skylda þingmanna að mæta á þingfundi. Á það hefur hæstv. forseti iðulega minnt þingmenn og því hart að þeim vegni best sem hæst láta.
    Að svo mæltu sný ég mér að málefnum heyrnarlausra. Þar gagnar nú ekki hávaðinn.
    Undirbúningur að svokallaðri samskiptamiðstöð sem ætlað var að sinna margvíslegum verkefnum sem lúta að málefnum heyrnarlausra hófst formlega fyrir um það bil 2 1 / 2 ári. Heilbr.-, félm.- og menntmrn. höfðu samvinnu um þetta mál og drög að frv. til laga um samskiptamiðstöð voru að því er mér var tjáð til í nóvember sl. ( Gripið fram í: Reglugerð.) Reglugerð? Síðan hefur lítið til þessa máls spurst. Brýna nauðsyn ber til að vinna að rannsóknum á íslensku táknmáli og vinna að þróun þess máls. Það er forsenda þess að hægt sé að mennta hér íslenska táknmálskennara og túlka. Hingað til hafa þeir sem lagt hafa stund á táknmál þurft að sækja þá menntun utan landsteinanna, og má að nokkru leyti má líkja því við það ef tilvonandi íslenskukennarar þyrftu að læra til þess starfs t.d. á dönsku.
    Ýmsum öðrum rannsóknum og verkefnum um málefni heyrnarlausra þarf einnig að sinna. Sem dæmi má nefna þróunarverkefni um tvítyngda námsskrá, námsgögn, ráðgjöf til heyrnarlausra, fjölskyldna þeirra, kennara og annarra sem málefni þeirra tengjast og margt fleira. Eðlilegt væri að þessi starfsemi, sem mundi líklega m.a. vera sinnt á áðurnefndri samskiptamiðstöð, væri í nánum tengslum við Heyrnleysingjaskólann en í tillögum sem hæstv. menntmrh. lagði fram 2. apríl sl. á fundi vinnuhóps sem fjallar um málefni Heyrnleysingjaskólans kom fram að ráðgert er að hætta rekstri skólans. Í frv. til laga um grunnskóla er í 81. gr. lagt til að lög um Heyrnleysingjaskólann falli úr gildi. Auk alls annars sem lokun Heyrnleysingjaskólans hefði í för með sér vaknar sú spurning hvaða áform séu uppi um framtíðarskipan þessara mála og því spyr ég hæstv. menntmrh.:
,,1. Hvað líður undirbúningi að samskiptamiðstöð sem sinna á málefnum heyrnarlausra?
    2. Hver verða helstu verkefni væntanlegrar samskiptamiðstöðvar?
    3. Hvar stendur til að hún verði til húsa?``