Táknmál heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég leyfði mér að koma aðeins að þessu máli sem hér er hreyft í svari við síðustu fyrirspurninni og hef að nokkru leyti þegar komið inn á sumt af því sem þarna er spurt um.
    Það er fyrst spurt hvort uppi séu áform um að viðurkenna íslenskt táknmál sem sérstakt sjálfstætt mál og þá jafnframt að viðurkenna heyrnarlausa sem málminnihlutahóp og táknmál sem móðurmál eða fyrsta mál hans. Þessu erindi hefur, eins og ég sagði áðan, verið beint til ráðuneytisins af þeim samtökum og stofnunum sem í hlut eiga og við höfum haft það til sérstakrar athugunar og erum núna að fara yfir það, og ætlum að gera það í samvinnu við þau samtök og stofnun sem ég nefndi áðan, hvaða þýðingu það hefði að viðurkenna táknmálið með þessum hætti og hvaða ákvarðanir þarf að taka til þess að um raunverulega viðurkenningu sé að ræða, ekki aðeins í orði heldur líka í verki. Mér sýnist að það sé í sjálfu sér ekki á færi menntmrn. eins að taka ákvörðun í þessu máli, þarna skiptir mjög miklu hver sé skoðun Alþingis og það sé í raun og veru óhjákvæmilegt að leggja það fyrir Alþingi, með einhverjum hætti, hvernig íslenskt táknmál yrði viðurkennt sem sérstakt sjálfstætt mál. Ég tel að þetta ætti að vera ákvörðun Alþingis og hef séð það þannig fyrir mér í framhaldi líka af því sem ég sagði hér áðan að þingmál um það efni verði undirbúið núna fyrir haustið í tengslum við undirbúning að stofnun samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra sem við ræddum hér undir síðasta lið.
    Ég tel með öðrum orðum að þessu máli eigi að sýna fulla alvöru. Staðreyndin er auðvitað sú, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um áðan, að vandi ráðuneytisins hefur ekki síst stafað af því, satt best að segja, að talsverður ágreiningur hefur verið um þessi mál í þeim hópum sem við höfum reynt að hafa samráð við og það er dálítið erfitt að höggva á hnúta í málaflokki af þessu tagi ef fólk er ekki sæmilega sátt við forgangsröðina, þ.e. nákvæmlega á hvaða verkefni á
að byrja. Ég get nefnt það sem dæmi að í sumar hafði ég fallist á að það yrði hafinn undirbúningur í þjálfun fyrir heyrnarlausa sem hygðust fara í framhaldsnám og við höfðum hugsað okkur að taka til þess tiltekna fjármuni í sumar og höfðum í raun og veru sett af stað vissan undirbúning í því efni. Þá kom það í ljós að þau samtök sem hlut eiga að máli voru óánægð með það að byrja á þessu verkefni og þess vegna varð niðurstaðan sú að fara frekar í málið eins og ég rakti hér áðan í svari við síðustu fyrirspurn.
    Þá er spurt í öðru lagi: Ef svo er, ef ætlunin er sem sagt að viðurkenna íslenskt táknmál sem sérstakt og sjálfstætt mál, hvaða ráðstafanir verða gerðar í framhaldi af því til að styrkja stöðu táknmáls í uppeldi og menntun heyrnarlausra? Og svarið hef ég að nokkru leyti þegar gefið en vil bæta því við að við höfum gert sérstakar ráðstafanir til að fylgjast með þróun þessara mála í grannlöndum okkar þar sem þau eru í mjög örri framþróun. Við erum svo heppin að

hafa núna fulltrúa í verkefnisstjórn á vegum norrænu ráðherranefndarinnar þar sem m.a. er verið að samræma menntun táknmálstúlka á Norðurlöndum og síðan má auðvitað geta þess í þessu sambandi að við Kennaraháskóla Íslands er á þessu skólaári nám í táknmáli fyrir kennara í Heyrnleysingjaskólanum eins og ég gat um áðan. Það má líta á þetta sem lið í umfjöllun og athugun ráðuneytisins á notkun táknmálsins í framtíðinni en auk þeirrar viðurkenningar sem spurt er um og þeirrar verkefnaáætlunar sem þarf að gera þurfa að eiga sér stað rannsóknir á íslenska táknmálinu sem ekki hafa til þessa farið fram.
    Ég vænti þess að þetta sé nægilegt svar við fsp. hv. þm. að svo miklu leyti sem unnt er að gefa það á þessu stigi málsins. Kannski er rétt að bæta því svo við að allra síðustu að auðvitað eru aðrar áherslur í þessum málum núna en voru fyrir 4, 5 eða 6 árum eða svo og ráðuneytið verður auðvitað að laga sig að þeim veruleika og m.a. hlýtur ráðuneytið að leggja á það áherslu að ná samvinnu við þessa aðila sem mest. Í því sambandi má minna t.d. á hugmyndir um að koma grunnnámi heyrnarlausra fyrir í grunnskólum eða í sérdeildum við grunnskóla meðal heyrandi barna. Um það voru uppi hugmyndir samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra þar sem gert er ráð fyrir algerri blöndun. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, eftir að hafa farið mjög ítarlega yfir þessi mál, að það sé ekki rétt við þessar aðstæður að gera ráð fyrir að hefja grunnmenntun heyrnarlausra inni í hinu almenna skólakerfi meðal heyrandi barna, heldur sé óhjákvæmilegt að upphafið sé í heyrnleysingjaskóla en síðan sé hugsanlega þannig á hlutum haldið að reynt verði að hjálpa hinum heyrnarlausu eins og kostur er inn í hið almenna skólakerfi.