Launakjör fangavarða og lögregluþjóna
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 954 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til fjmrh. um launakjör fangavarða og lögregluþjóna.
    Mig minnir að það hafi verið um áramótin 1987--1988 sem lagabreytingar voru gerðar er höfðu í för með sér þær reglur fyrir fangaverði og lögregluþjóna að þeir misstu verkfallsrétt sinn. Í staðinn var þeim heitið endurskoðun á launakjörum þessara stétta, m.a. með það í huga að samræma launakjör þeirra. Í dag er verulegur munur á launakjörum fangavarða og lögreglumanna og munar þar einum til tveimur launaflokkum hvað fangaverðir eru lægri. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forsvarsmanna og forustumanna í félagasamtökum fangavarða hefur afar lítið verið gert til að standa við það loforð sem þeir telja sig hafa síðan um áramótin 1987--1988.
    Ég vil taka fram að þó þessi fsp. fjalli fyrst og fremst um leiðréttingu á kjörum fangavarða þá er ég alls ekki að segja annars vegar að launakjör lögregluþjóna séu góð og hins vegar fangavarða slæm. Það er samt munur á sem ég tel að eigi að leiðrétta, það þurfi endurskoðun á kjörum beggja stétta, hún er nauðsynleg, og ábyrgð ríkisvaldsins enn meiri þar sem sá réttur sem helst er notaður og hefur verið hvað áhrifaríkastur í kjarabaráttunni, verkfallsrétturinn, er frá þeim tekinn.
    Ég teldi það spor í rétta átt til þess að lagfæra kjör þessara stétta beggja að lögð væri vinna í að samræma launakjör þeirra, eins og fangaverðir reyndar telja sig hafa loforð um.
    Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh.:
,,1. Hverjar eru ástæður fyrir þeim mismun sem er á launakjörum fangavarða og lögregluþjóna?
    2. Eru uppi áform um að samræma launakjör þessara stétta?``