Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Fyrr á þessum fundi var rædd fsp. frá hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldóri Blöndal um samkomulag það sem hæstv. menntmrh. gerði við námsmenn um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna í febrúar 1989 og hverjar hefðu verið efndir á því samkomulagi.
    Það vakti athygli að í svari hæstv. ráðherra flutti hann töluleg dæmi um úthlutun námslána þar sem ekki var tekið tillit til stórfelldra skerðinga á námslánum sem hæstv. ráðherra hefur nýlega ákveðið með reglugerð frá 29. mars. Í því er auðvitað fólgin mikil blekking af hálfu hæstv. ráðherra. Það er því full ástæða til að spyrja ráðherrann um efni þeirra reglugerðarbreytinga. Þess vegna hef ég borið fram fsp. til hæstv. ráðherra um það hvað sé raunverulega efni þeirra breytinga sem hæstv. ráðherra gerði með þeirri reglugerð sem hann gaf úr 29. mars og hvort sú reglugerð sé gerð í samkomulagi við samtök námsmanna.