Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Mér finnst sá kostulegu umsnúningur sem orðinn er í málflutningi fulltrúa Sjálfstfl. bæði hér á Alþingi og í námsmannahreyfingunni með slíkum endemum að ekki sé annað hægt en vekja á því athygli. Þetta eru sömu aðilarnir og allan sinn ríkisstjórnarferil á undanförnum fimm árum stórskertu námslánin og voru með í mótun tillögur um að rústa þetta kerfi niður, um að stórskerða þetta félagslega kerfi, leggja fulla vexti á námslán og þar fram eftir götunum. Núna hefja þessir aðilar sig upp með mikinn áróður um það að ekki hafi tekist að fullu og öllu að bæta fyrir þeirra eigin misgjörðir. Það er það sem hér er verið að gagnrýna ríkisstjórn og hæstv. menntmrh. fyrir.
    Talsmenn Sjálfstfl. koma hér upp, þar á meðal fyrrv. menntmrh., og skamma núv. ríkisstjórn og núv. menntmrh. fyrir að þeim hafi ekki tekist að fullu og öllu að bæta fyrir misgjörðir Sjálfstfl. í lánasjóðsmálunum. Það er nú sá málflutningur sem okkur er boðið upp á hér.
    Vissulega hefur það verið harðsótt við núverandi aðstæður í efnahagsmálum að sækja aukið fé til Lánasjóðsins og afnema þá skerðingu sem þar var komin. En það hefur tekist og það ættu talsmenn Sjálfstfl. að hafa í huga.
    Hæstv. forseti. Ég lýk svo þessari athugasemd minni með því að óska þess að þessi umsnúningur og kostulegu sinnaskipti Sjálfstfl. viti á gott og þeim flokki muni aldrei aftur detta í hug að umgangast Lánasjóð ísl. námsmanna með þeim hætti sem hann gerði þegar hann var í ríkisstjórn.